fbpx

CSW67: Tæknin og möguleikar hennar þema fundarins í ár

Heim / Fréttir / CSW67: Tæknin og möguleikar hennar þema fundarins í ár

Frá Kvennanefndafundi Sameinuðu þjóðanna í fyrra.

Kvennanefndafundur Sameinuðu þjóðanna (CSW) fer fram í New York ár hvert. Þetta er í 67. sinn sem fundurinn er haldinn en á hverju ári er ákveðið málefni til umræðu.

Þema fundarins í ár er „Innovation and technological change, and education in the digital age for achieving gender equality and the empowerment of all women and girls“. Stutt og laggóð íslensk þýðing á yfirskrift fundarins gæti verið: „Nýsköpun og tæknibreytingar og menntun kvenna á stafrænni öld og hvernig það getur nýst í þágu jafnréttis og valdeflingar kvenna“.

Tækni og stafræn þróun samfélaga er það sem hefur einkennt síðustu áratugi. Ný tækni hefur gjörbreytt samfélagi manna, samskiptaháttum þeirra og aukið aðgengi fólks að upplýsingum svo um munar. Þessar tækniframfarir geta umbreytt lífi kvenna og stúlkna til hins betra, en þeim fylgja jafnframt nýjar áskoranir sem geta og hafa ýtt undir þann kynbundna ójöfnuð sem þegar ríkir.

Ný tækni gæti ýtt undir meiri ójöfnuð

Á Kvennanefndafundinum gefst færi á að ræða kosti tækniframþróunar og áskoranirnar sem fylgja henni með það að markmiði að hafa jákvæð áhrif til framtíðar. Hvernig má tryggja að nýsköpun og tækni hafi jákvæð áhrif á samfélög, veiti konum rödd og sé öruggt rými fyrir konur?

Kvennanefndafundurinn er vettvangur umræðu og þar koma leiðtogar og sérfræðingar saman til að móta sameiginlega stafræna stefnu til framtíðar. Það er mikilvægt að þessi stafræna vegferð hafi kynjasjónarmið og jöfnuð að leiðarljósi. Sé ekki tekið tillit til þess mismunar sem konur búa við vegna kyns síns, er hætt á að tæknin ýti enn frekar undir ójöfnuð og festi staðalímyndir í sessi. Tæknin verður aldrei jöfnunartól nema með skýrri alþjóðlegri stefnu, m.a. um hvernig eigi að taka á stafrænu ofbeldi, hvernig auka megi tæknilæsi kvenna og aðgengi þeirra að tækni, hvernig fjölga megi konum í stafrænni þróun o.s.frv.

Tæknilæsi jafn mikilvægt og tölvukunnátta

Það er ýmislegt sem hamlar aðgengi kvenna að tæknibúnaði og -þjónustu. Konur sem eru ólæsar eða búa undir fátækramörkum, búa á dreifbýlum svæðum þar sem ekki er aðgengi að rafmagni eða neti, konur með fatlanir og eldri konur eru á meðal þeirra sem búa við skert aðgengi að tækni. Þessir hópar eru jafnframt þeir hópar sem gætu hagnast hvað mest að auknu aðgengi að tækni og upplýsingum. UN Women telur þó nauðsynlegt að tæknikennsla feli annað og meira í sér en einungis tölvukennslu. Mikilvægt sé að efla tæknilæsi meðal einstaklinga svo allir geti nýtt sér tæknilausnir á öruggan og valdeflandi hátt.

Fjölga stúlkum í forritun

Stúlkur sem tóku þátt í verkefninu African Girls Can Code.

UN Women hefur stutt við ýmis verkefni sem miða að því að efla aðgengi kvenna og stúlkna að tæknilausnum. Stofnunin styður einnig við verkefni sem hafa það að leiðarljósi að fjölga konum og stúlkum í forritun og nýsköpun. Eitt slíkt verkefni er African Girls Can Code sem komið var á laggirnar árið 2018. Markmið verkefnisins er að veita minnst 2000 afrískum stúlkum á aldrinum 17 til 25 ára menntun í forritun, notendahönnun og upplýsingatækni. Haldnar hafa verið forritunarbúðir víðs vegar um Afríku og hafa fleiri en 600 stúlkur þegar hlotið þjálfun í gegnum verkefnið.

Related Posts