fbpx

CSW67: Þurfum alltaf að gera betur

Heim / Fréttir / CSW67: Þurfum alltaf að gera betur

Kvennanefndarfundur Sameinuðu þjóðanna (CSW) fer fram í 67. skiptið í höfuðstöðvum Sþ í New York dagana 6.-17. mars. Áherslur fundarins í ár er á nýsköpun og tækni og hvernig hún getur nýst í þágu jafnréttis.

Embla er raddstýrt smáforrit fyrir iPhone og Android snjallsíma sem svipar til aðstoðarforritanna Siri og Alexu. Ólíkt Siri og Alexu þá talar Embla og skilur íslensku, en hún er fyrsta smáforrit sinnar tegundar sem hægt er að spjalla við á íslensku. Miðeind, hugbúnaðarfyrirtækið á bak við Emblu, er leiðandi fyrirtæki á sviði máltækni og gervigreindar hér á landi. Auk Emblu eru ýmsar hagnýtar máltæknilausnir í þróun hjá fyrirtækinu, sem dæmi má nefna máltæknivél Miðeindar, Greyni, sem Embla keyrir á. Greynir hefur verið algjör undirstöðueining máltæknilausna Miðeindar um nokkurt skeið en það mun breytast á næstu misserum eftir því sem gervigreindin leysir gamla regluþáttarann af hólmi.

Aðrar aðgengilegar lausnir Miðeindar má skoða á vefsvæðunum vélþýðing.is, yfirlestur.is og ai.yfirlestur.is.

Katla Ásgeirsdóttir, viðskiptaþróunarstjóri hjá Miðeind.

Katla Ásgeirsdóttir er viðskiptaþróunarstjóri hjá Miðeind og hefur starfað hjá fyrirtækinu í tæp 4 ár. Hún segir gríðarlega mikilvægt að sem flestir hópar taki þátt í þróun tækninnar til framtíðar. Þá er er hún ekki aðeins að tala um fólk af ólíkum kynjum, heldur einnig ýmsa minnihlutahópa sem taka þarf sérstakt tillit til við þróun tækninnar og aðgengi að henni.

 

Skilja kvenraddir síður en karlraddir

Hversu mikilvægt er að konur séu ekki aðeins neytendur þegar kemur að tækni, heldur taki jafnan þátt á við karlmenn í þróun nýrrar tækni?

Ég tel það borðleggjandi að við græðum öll á því að konur komi að þróun nýrrar tækni strax frá upphafi. Ef við gefum okkur að eitt meginmarkmið nýrrar tæknilausnar sé að hún geti gagnast sem flestum, óháð kyni, þá skiptir auðvitað máli að heyra strax í upphafi ólík sjónarmið, ólíkar hugmyndir um fyrirsjáanlega notkun, og ekki síst hvaða vandamál mismunandi hópar bera kennsl á í sjálfu þróunarferlinu. Með því að tryggja fjölbreytileika í þróunarteymum má draga úr líkum þess að fjárfest sé í lausnum sem síðar kemur í ljós að þarfnast mikilla lagfæringa til að henta ákveðnum hópum.

Talgreining er ein af þeim máltæknilausnum sem við notum í Emblu. Talgreining breytir töluðu máli í texta og eru talgreinar gott dæmi um lausn sem getur virkað mjög misvel fyrir fólk eftir t.d. kyni eða aldri. Það veltur allt á þeim gögnum sem talgreinirinn er þjálfaður á hvaða raddir hann skilur. Ef hann er t.d. aðallega þjálfaður á djúpum karlröddum þá skilur hann illa bjartar kvenraddir og ómögulega barnaraddir.

Flestir talgreinar skilja börn síður en fullorðna og margir þeirra skilja sömuleiðis kvenraddir síður en karlraddir. Í þessu samhengi sjáum við bersýnilega hversu mikilvægt er að þjálfa á öllum tíðnisviðum mannlegra radda þar sem þetta tiltekna vandamál stafar beinlínis af því að ekki hefur verið tekið jafnt tillit til radda á mismunandi tíðnisviðum. Í Emblu notum við talgreiningu sem virkar vel fyrir flestar fullorðinsraddir en eitthvað síður fyrir bjartar barnaraddir.

Til framtíðar þá tel ég það skipta gríðarlegu máli, hvað jöfn tækifæri og jafnan aðgang varðar, að sem flestir hópar taki þátt í þróun tækninnar. Þá er ég ekki bara að tala um fólk af ólíkum kynjum, á mismunandi aldursbili eða með ólíkan efnahagslegan bakgrunn, heldur einnig ýmsa minnihlutahópa sem taka þarf sérstakt tillit til við þróun tækninnar og aðgengi að henni. Í því samhengi og með tilliti til þess að við erum að ræða talgreina mætti nefna sérstaklega annarsmálshafa og fólk með fatlanir af ákveðnum toga. Þetta eru minnihlutahópar sem geta ekki með góðu móti nýtt sér hefðbundna talgreina. Á móti kemur að í sumum tilfellum eru þetta hópar sem myndu hlutfallslega öðlast hvað mest lífsgæði á því að geta nýtt sér tækni af þessu tagi og það er sjónarmið sem ég tel mikilvægt að hafa í huga þegar fjarmagni er ráðstafað í þróunarverkefni sem snúa að þessari tilteknu tækni.

 

Fylgist með af óttablandinni aðdáun

Hvað er það skemmtilegasta við að vinna innan tæknigeirans?

Mér finnst kannski skemmtilegast að fylgjast með því hvað fólk og fyrirtæki geta verið frjó. Það eru til svo margar opnar og aðgengilegar undirstöðueiningar sem hægt er að byggja ofan á þannig að takmarkandi þátturinn í tæknigeiranum í dag er oft hreinlega ímyndunarafl fólks. Tækninni fleygir fram á öllum sviðum og gervigreindin er orðin svo öflug að það er ekki annað hægt en að fylgjast með af óttablandinni aðdáun.

Katla segir skipta gríðarlegu máli að sem flestir hópar taki þátt í þróun tækninnar.

Við hjá Miðeind höfum unnið mikið undir máltækniáætlun ríkisins undanfarin ár og sú áætlun skilaði gríðarlegu magni grunnstoða fyrir íslenska máltækni sem allar eru gefnar út undir opnum leyfum, bæði hugbúnaður og gagnasöfn. Það er alveg himinn og haf milli þess hve takmörkuð íslenskan var í tækniumhverfi fyrir 5 árum og þeirra möguleika sem við stöndum frammi fyrir í dag. En við þurfum auðvitað alltaf að gera betur til að geta keppt við enskuna. Það er grundvallarlögmál í þessum geira að þróunin þarf að vera stöðug, það sem var best í gær er kannski orðið úrelt á morgun.

Leggur Miðeind áherslu á jöfnuð og jafnt aðgengi þegar verið er að hanna nýjar vörur?

Já, ég myndi segja það. Við höfum verið í góðu samtali við ýmsa hagsmunahópa varðandi þróun á okkar vörum og það skiptir okkur mjög miklu máli að skilja hvernig við getum betur komið til móts við þarfir mismunandi hópa. Þetta er sömuleiðis málefni sem ég persónulega hef mikinn metnað fyrir og við viljum alltaf gera betur. Hinsvegar er sá hópur ekki einsleitur sem þarf að hafa í huga þegar kemur að jöfnu aðgengi og því er það gríðarstórt verkefni að sérsníða lausnir til að mæta öllum þessum ólíku þörfum. Það er því vegferð sem brýnt er að stjórnvöld taki virkan þátt og fjárfesti frekar í.

 

Öflugt tól til að auka aðgengi kvenna og stúlkna að fræðslu

Telur þú að tækni geti verið hjálplegt tól í baráttunni fyrir jöfnuði og jafnrétti?Hvernig?

Hún getur klárlega verið það, en á sama tíma er alveg eins hætt við því að hún auki á ójöfnuð á einhverjum sviðum ef við vöndum okkur ekki. Tæknin býður upp svo margar lausnir sem geta gjörbreytt lífi fólks, þá er ég t.d. að horfa til fólks með fötlun af einhverju tagi. Fatlaðar konur eru í margfalt meiri hættu á að verða fyrir kynferðislegu ofbeldi en ófatlaðar konur. Á heimsvísu er aðeins 1% fatlaðra kvenna læst, hvað þá með frekari menntun.

Réttu tæknilausnirnar geta aukið sjálfsbjörg og sjálfstæði fatlaðra til muna og jafnvel gert fólki kleift að stunda nám sem það gat ekki áður. Í því felst alveg ómetanlegur auður að geta veitt fólki frelsi til meiri þátttöku í samfélaginu, náms og aukna sjálfsbjörg. Ef við hinsvegar þróum tæknina ekki með þarfir þessara hópa í huga heldur sníðum hana eingöngu að þörfum ófatlaðra (sem er oft raunin) þá er hætt við því að þessi tækni, sem fræðilega séð gæti dregið úr ójöfnuði, verði til þess að auka á hann í staðinn.

Þessar hugmyndir má svo líklegast heimfæra á fleiri hópa. Tæknin getur til að mynda verið mjög öflugt tól til að auka aðgengi kvenna og stúlkna hvarvetna í heiminum að fræðslu og upplýsingum ef efnahagslegar og menningarlegar hindranir standa ekki í vegi.

Related Posts