fbpx

CSW67: Rödd kvenna er ómissandi í tækniumhverfinu

Heim / Fréttir / CSW67: Rödd kvenna er ómissandi í tækniumhverfinu

Kvennanefndarfundur Sameinuðu þjóðanna (CSW) fer fram í 67. skiptið í höfuðstöðvum Sþ í New York dagana 6.-17. mars. Áherslur fundarins í ár eru á nýsköpun og tækni og hvernig það getur nýst í þágu jafnréttis.

Origo er nýsköpunarfyrirtæki sem veitir þríþætt framboð í upplýsingatækni: rekstrarþjónustu, hugbúnað og notendabúnað. Origo á rætur sínar að rekja allt til ársins 1899, og hefur fyrirtækið vaxið og dafnað í áranna rás. Einkennisorð fyrirtækisins eru „betri tækni bæti lífið“ og er starfsfólk Origo stöðugt að þróa lausnir með það markmið að tryggja árangur viðskiptavina sinna. Viðskiptavinir Origo telja nú yfir 30.000 og er fyrirtækið orðið leiðandi samstarfsaðili fyrirtækja, opinberra aðila og einstaklinga á Íslandi.

Kristín Hrefna Halldórsdóttir er forstöðumaður gæða- og innkaupalausna hjá Origo og hefur starfað hjá fyrirtækinu í tvö ár. Kristín hefur starfað innan tæknigeirans í áratug og segir margt hafa breyst til batnaðar á þeim tíu árum sem hún hefur verið starfandi.

Tilbúin að breiða út boðskapinn

Kristín Hrefna Halldórsdóttir er forstöðumaður gæða- og innkaupalausna hjá Origo.

Þema CSW67 er: Innovation and technological change, and education in the digital age for achieving gender equality and the empowerment of all women and girls. Hvernig finnst þér þemað ríma við einkunnarorð Origo „Betri tækni bætir lífið“? Getur tækni bætt líf kvenna og stúlkna um allan heim og með hvaða hætti?

„Betri tækni getur svo sannarlega bætt líf kvenna og stúlkna út um allan heim og ég finn fyrir því daglega hvernig einkunnarorð Origo ríma við þema Kvennanefndarfundar Sameinuðu þjóðanna í ár. Í mínu teymi vinnum við að jafnrétti á hverjum degi með nýsköpun og betri tækni. Við höfum til dæmis þróað vöru sem við köllum Justly Pay. Hún hjálpar fyrirtækjum og stofnunum að setja sér stefnu í jafnréttismálum og ná jafnlaunavottun.

Það eru ótrúleg tækifæri fólgin í því að hjálpa fyrirtækjum með þessum hætti og það er áhrifarík leið til þess að ná fram jákvæðum breytingum fyrir konur og þau sem eru með lægri laun. Með betri tækni erum við því að hafa jákvæð áhrif á kjör kvenna sem valdeflast við það að búa í sanngjarnara samfélagi þar sem vinna þeirra er metin til jafns við vinnu annara í samfélaginu. Það eru jú fyrirtæki og stofnanir sem greiða launin og þar hefur óréttlæti náð að hreiðra um sig, en með nýsköpun og hugbúnaði okkar getum við vaknað á hverjum degi og hugsað með okkur að við séum að breyta samfélaginu til batnaðar.

Ég hugsa stundum um Justly Pay eins og örstuttar en árangursríkar æfingabúðir í jafnréttisskóla sem ætti að vera skylda fyrir alla stjórnendur fyrirtækja. Þar eru þau leidd áfram og þeim hjálpað að setja sér jafnlaunastefnu, með hjálp frá Justly Pay. Varan er nú þegar búin að hjálpa 50 fyrirtækjum á Íslandi og okkur er ekkert að vanbúnaði, við erum tilbúin til þess að breiða boðskapinn út um allan heim. Með þessu getum við hjálpað konum og öllum þeim sem upplifa misrétti að vera metin að verðleikum í vinnunni og fá sanngjörn laun fyrir vinnu sína. Nýsköpun er stór hluti af menningu Origo og við viljum gera betur á hverjum degi svo snjallar tæknibreytingar megi auðvelda lífið fyrir okkur öll.“

 

Stundum sem karlarnir hlustuðu á annarri tíðni en hún talaði

Sem kona starfandi innan tæknigeirans, hverjar eru helstu áskoranirnar sem þú hefur staðið frammi fyrir?

„Mér fannst ekki tekið mark á mér sem ungri konu og það var stór áskorun. Ég hafði alltaf upplifað það í skóla að ég hafði mikil áhrif og á mig var hlustað til jafns við strákana og því var þetta skellur þegar ég kom út á vinnumarkaðinn. Ég ætlaði mér aldrei að starfa í tæknigeiranum. Ég ætlaði að breyta heiminum og þegar ég valdi mér háskólanám fór ég í stjórnmálafræði því ég hélt að stjórnmálafólk breytti heiminum. Raunin var sú að stjórnmálin ferðuðust fremur hægt að mínu mati og vandamál heimsins bara hrönnuðust upp í fangi stjórnmálfólksins sem hentu boltunum á milli sín og misstu of marga í gólfið. Ég vissi að það var til áhrifaríkari leið. Ég fann að ég varð að hleypa tækninördinu í mér út úr skápnum og leyfa því að spreyta sig.

Það var hins vegar áskorun að vera ekki tæknimenntuð í tæknigeiranum. Ég sagði mína skoðun og kom með góð rök en stundum var bara eins og karlarnir sem stjórnuðu í kring um mig hlustuðu á annarri tíðni en ég talaði á. Ég lagði kannski eitthvað til og enginn heyrði það fyrr en karlmaður lagi það til. En ég finn að þetta hefur breyst. Ég finn að á mig er hlustað í dag. Kannski er það vegna þess að ég er í góðu umhverfi í dag og upplifi að mín sýn á málin er metin að verðleikum en kannski er það líka vegna þess að nú er ég komin með 10 ár undir beltið, nokkur grá hár og meiri reynslu.

Í öllu falli er ég þakklát fyrir að upplifa breytta tíma fyrir sjálfa mig því það er óþolandi að finna að kyn er afgerandi þáttur í því hvort á þig sé hlustað. Við þau sem enn upplifa að á þau sé ekki hlustað til jafns við önnur kyn langar mig að deila því sem mér fannst áhrifaríkast. Ég átti einstaklega góða vini í vinnunni sem tóku undir mín sjónarmið með því að að segja „Já, eins og Kristín Hrefna sagði“ og endurtóku svo það sem ég sagði. Eða sögðu einfaldlega „Já, ég er sammála Kristínu Hrefnu“. Þetta breytti miklu fyrir mig. Ég mæli með því að finna sér góða vini í vinnunni og útskýra þessi mál ef ykkur finnst eins og þið talið fyrir tómum eyrum og óska eftir aðstoð frá vinum ykkar. Það er alltaf hægt að finna sér vini eða gera kunningja að góðum vinum með því að sýna einlægni, biðja um hjálp og vera tilbúin til þess að endurgjalda greiðann.

Lífseig mýta að konur treysti sér ekki í meiri ábyrgð

Stendur Ísland framarlega hvað varðar þátttöku kvenna á sviði tækni? Er hægt að gera betur og þá hvernig?

Kristín segir Ísland standa framarlega í samanburði við mörg önnur lönd þegar kemur að þátttöku kvenna í tækni, en betur má ef duga skal.

„Ísland stendur örugglega framarlega í samanburði við mörg önnur lönd þegar kemur að þátttöku kvenna í tækni, en betur má ef duga skal. Við erum líka framarlega á mörgum öðrum sviðum jafnréttis og jafnra tækifæra en það þýðir ekki að sigurinn sé í höfn. Rödd kvenna er ómissandi í tækniumhverfinu enda er það mín reynsla að blönduð teymi sem ná að taka inn ólíka sýn, allskonar starfsfólks ná bestum árangri. Þau búa til bestu lausnirnar því þau hafa víðtækari sýn á vandamálin sem þarf að leysa.

Við eigum að vera duglegri við að gefa ungum konum tækifæri til þess að taka ábyrgð. Ungum mönnum er mjög snemma treyst til þess að taka ábyrgð á allskonar verkefnum innan tæknigeirans en ég finn því miður enn fyrir því að konum sé síður treyst fyrir ábyrgð. Þetta á ekki síst við um æðstu stjórnendur í fyrirtækjum þar virðist konum með mikla reynslu síður treyst til þess að gegna hátt settum störfum en körlum. Við þurfum því að gera miklu betur í því að treysta konum.

Það er lífseig mýta að konur treysti sér síður og vilji ekki taka ábyrgð og mér finnst það jafn rangt og þegar fullyrt er um alla karla að þeir séu valdagráðugir. Við erum öll mismunandi en ég er þess fullviss að það sé til nóg af konum sem eru meira en tilbúnar til þess að takast á við meiri ábyrgð, sé þeim treyst til þess.

Það er mikilvægt að stækka hópinn af konum í tækni með fjölþættum aðferðum því áhuginn er klárlega til staðar. Það að taka jafn mörg viðtöl við karla og konur held ég að sé mjög mikilvægur mælikvarði í ráðningarferli í allar nýjar stöður en líka þegar æðstu stjórnendur eru ráðnir eða fá stöðuhækkanir.

Það er ekki síður mikilvægt að við horfum ekki fram hjá konum í ábyrgðarmeiri hlutverk. Kannski hættir okkur enn til þess að gera það vegna þess að fyrirmyndirnar af konum í æðstu stjórn tæknifyrirtækja eru enn fáar. Þeim mun ekki fjölga nema við gefum konum tækifæri til þess að stjórna.“

Breyta heiminum í gegnum eitt fyrirtæki í einu

Svo að tæknilausnir nýtist öllum þarf að tryggja jafnt aðgengi að búnaði en einnig tæknilæsi kvenna, t.d. kvenna búsettum á dreifbýlum svæðum í fátækari ríkjum heims – hefur Origo beitt sér á því sviði? Hvernig væri hægt að efla slíkt að þínu mati?

„Origo hefur tekið þátt í allskonar verkefnum í gegnum tíðina sem hjálpa til en að mínu mati er mikilvægast að gera rétt verkefni. Í þessu samhengi fæ ég alltaf smá svona kjánaholl við tilhugsunina um fullan gám af gömlum ísskápum frá Íslandi á landsvæði sem er rafmagnslaust. Ekki það að Origo sé að senda ísskápa en ég reyni að hafa þetta í huga þegar ég hugsa um það hvernig þekking okkar gæti nýst öðrum.

Mér finnst mikilvægt að greina notendur og þarfir þeirra í allri hugbúnaðargerð og tæknivinnu og þar held ég að Origo hafi mikla sérþekkingu sem við getum miðlað. Flókin tækni sem þarf mikla innleiðingu eða kennslu á hjálpar lítið þegar tækniþekking er ekki mikil fyrir. Notendaviðmót sem er skýrt, augljóst fyrir notandann og leiðir þig áfram í átt að markmiði þínu getur hjálpað hvar sem er í heiminu.

Það að leiða notandann áfram skref fyrir skref með skiljanlegu viðmóti er einmitt það sem við höfðum í huga við gerð Justly Pay svo þar gætu fyrirtæki hvar sem er í heiminum lært að setja sér jafnlaunastefnu sem getur hjálpað konum um allan heim að fá sanngjörn laun fyrir sína vinnu. Þannig breytum við heiminum, eitt fyrirtæki í einu, sem í það minnsta sýnir viðleitni til þess að greiða öllum jöfn laun fyrir sambærilega vinnu. Í stað þess að segja „Taktu nú þennan ísskáp og sjáðu hvað við erum góð“, vil ég að við bjóðum fyrirtækjum betri tækni með Justly Pay, sem hjálpar þeim að skrifa sína jafnlaunastefnu út frá sínum forsendum og bætum þannig launamisréttið sem ríkir um allan heim.“

 

 

Related Posts
Photo: UNOCHA/Mohanad Zayat.