fbpx

33 þúsund látin í Tyrklandi og Sýrlandi

Heim / Fréttir / 33 þúsund látin í Tyrklandi og Sýrlandi

Kona situr í rústum húss í Tyrklandi. Photo: UN Women/Özge Ergin.

Meira en 33 þúsund eru látin eftir jarðskjálftana sem riðu yfir Tyrkland og Sýrland aðfaranótt mánudagsins 6. febrúar og meira en 78 þúsund eru særð. Reiknað er með að tölur látinna muni tvöfaldast á næstu dögum, enda er mikill fjöldi fólks enn ófundið undir rústunum.

Þau sem lifðu af eiga í erfiðleikum með að afla sér matar og drykkjar og hafast mörg við úti eða í illa útbúnum tjöldum. Um 300 eftirskjálftar hafa mælst á svæðinu frá því á mánudag.

Sameinuðu þjóðirnar segja minnst 870.000 einstaklingar í Tyrklandi og Sýrlandi þurfi nauðsynlega á heitum máltíðum að halda. Kalt hefur verið í veðri á þessu svæði undanfarnar vikur og víða er næturfrost. Um 5.3 milljónir Sýrlendinga eru heimilislaus í kjölfar skjálftanna.

Enn vantar tjöld og vistir til fólks á hamfarasvæðunum í norðurhluta Sýrlands. Átök og ósætti á milli sýrlenskra stjórnvalda og uppreisnarhópa sem ráða yfir hluta norður Sýrlands hafa hamlað hjálparstarfi um helgina. Í Tyrklandi dvelja um 1 milljón einstaklinga í tímabundnum úrræðum.

Mikil þörf á hlýjum fatnaði og skjóli

UN Women starfrækir svæðisskrifstofu og landsskrifstofu í Tyrklandi og hefur unnið náið með þarlendum stjórnvöldum og félagasamtökum við að koma lífsbjargandi aðstoð á hamfarasvæðin. Brýnust er þörfin á hlýjum fatnaði, teppum, vettlingum og húfum, svefnpokum og tjöldum og matvælum á borð við barnamat og þurrmjólk.

Photo: UNOCHA/Mohanad Zayat.

Kona og barn ganga framhjá húsarústum í Sýrlandi. Photo: UNOCHA/Mohanad Zayat.

Þá er mikil þörf á hreinlætis- og tíðarvörum til kvenna á hamfarasvæðunum sem UN Women í Tyrklandi deilir út í samstarfi við samstarfsaðila, m.a. í borginni Gaziantep þar sem fyrri jarðskjálftinn átti upptök sín. Sértækar þarfir kvenna er oft það fyrsta sem gleymist á tímum neyðar. Þegar rætt er um sértækar þarfir kvenna og stúlkna er meðal annars átt við aðgengi að tíðarvörum og vörum á borð við þurrmjólk handa ungbörnum.

Tyrkir hafa opnað landamærin til Sýrlands og hófu Sameinuðu þjóðirnar flutning á neyðargögnum til norðurhluta Sýrlands á fimmtudag. Það var fyrsta alþjóðlega neyðaraðstoðin sem hefur borist Sýrlendingum frá því að jarðskjálfinn dundi yfir.

Hjálparstarfsfólk í Sýrlandi segir þau gögn sem borist hafa ekki vera nóg og kalla eftir frekari aðstoð og lyfjum. Átök og deilur á milli stjórnvalda og uppreisnarhópa hafa torveldað hjálparstarf á svæðinu.

Konur og stúlkur í Tyrklandi og Sýrlandi þurfa á stuðningi þínum að halda.

Við tökum á móti stökum styrkjum og frjálsum framlögum á reikningsnúmer 0537–26–55505, Kt. 551090-2489 eða í gegnum AUR  í númerið 123-839-0700. 

Related Posts