fbpx

Hvað er eiginlega Kvennanefndarfundur Sameinuðu þjóðanna?

Heim / Fréttir / Hvað er eiginlega Kvennanefndarfundur Sameinuðu þjóðanna?

Sima Sami Bahous, framkvæmdarstýra UN Women, heldur tölu á Kvennanefndarfundinum í fyrra.

Sextugasti og sjöundi Kvennanefndarfundur Sameinuðu þjóðanna fer fram í New York dagana 6.-17. mars. Áherslur fundarins í ár eru á nýsköpun og tækni og hvernig megi nýta hana í þágu jafnréttis.

Kvennanefndarfundur Sameinuðu þjóðanna (CSW) hefur verið haldinn árlega frá árinu 1946. Fundurinn fer alltaf fram í marsmánuði í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York og stendur yfir í tvær vikur.

Fundurinn er öllu jafna gríðarlega vel sóttur, enda vettvangur fyrir aðildarríki, frjáls félagasamtök og grasrótarhreyfingar til að koma saman og ræða stöðu kvenna og jafnréttis.

Hvað er CSW?

Nefnd Sameinuðu þjóðanna um stöðu kvenna var stofnuð árið 1946 og hefur leikið mikilvægt hlutverk í að efla réttindi kvenna um allan heim og að móta alþjóðlega staðla er kemur að kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna. Nefnd Sameinuðu þjóðanna um stöðu kvenna er kosin af Efnahags- og félagsmálaráð Sameinuðu þjóðanna (ECOSOC). 45 aðildarríki skipa nefndina og eru kosin til fjögurra ára í senn. Í nefndinni sitja ávallt 13 ríki Afríku auk 11 Asíuríkja, 9 frá Mið- og Suður Ameríku, 8 frá Vestur Evrópu og öðrum ríkjum og 4 frá Austur Evrópu.

Nýverið gerðist það í fyrsta sinn í sögu nefndarinnar að þjóðríki var vikið úr sæti hennar. Í desember var tillögu Bandaríkjanna um að víkja Íran úr nefndinni samþykkt. Íran var skipað í nefnd Sameinuðu þjóðanna um stöðu kvenna (CSW) í fyrra og hefði átt að sitja í nefndinni til ársins 2026 en vegna ofsafullra viðbragða íranskra stjórnvalda í garð mótmælenda þar í landi lagði fulltrúi Bandaríkjanna í ECOSOC til þess að Íran yrði vikið úr nefndinni.

Grasrótin með frá upphafi

Nefnd Sþ um stöðu kvenna hóf strax árið 1946 að berjast fyrir því að kvenréttindi hljóti meira vægi innan alþjóðasamfélagsins. Öflun kynjaðra gagna lék þar veigamikinn þátt, því þannig var hægt að sýna með óyggjandi hætti hvernig konum um allan heim væri mismunað á grundvelli kyns. Vert er að nefna að kynjuð gagnaöflun er enn í dag eitt mikilvægasta verkefni UN Women í þágu jafnréttis.

Fjöldi þjóðarleiðtoga ræða málefni kvenna á Kvennanefndarfundinum í fyrra.

Nefndin kom einnig að Samningi Sameinuðu þjóðanna um afnám allrar mismununar gagnvart konum (CEDAW), sem stundum er nefndur Kvennasamningur Sþ. Samningurinn var samþykktur á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna árið 1979 og er markmið hans að tryggja konum jöfn réttindi.

Ákvæðum samningsins er gjarnan skipt í þrjá flokka: Leiðréttingarreglur sem varða nauðsynlegar aðgerðir til að leiðrétta hlut kvenna, verndarreglur sem varða sérstaka stöðu kvenna (t.d. í tengslum við þungun og barneignir), og jafnréttisreglur sem varða jafnt aðgengi að samfélagslegum gæðum á borð við stjórnmálaþátttöku, menntun og heilbrigðisþjónustu.

Það sem gerir Kvennanefndafundinn sérstakan er að hann sækja ekki aðeins aðildarríki Sameinuðu þjóðanna, heldur mega frjáls félagasamtök einnig taka þátt í fundum, viðburðum og málþingum á vegum hans. Allt frá stofnun Nefndar Sameinuðu þjóðanna um stöðu kvenna hefur mikið verið lagt upp úr samstarfi við kvenfélög og frjáls félagasamtök og hlutu alþjóðleg kvennasamtök áheyrn strax á fyrsta Kvennanefndafundinum og hefur sú hefð haldist allar götur síðan.

Tæknin og framtíðin

Kvennanefndafundurinn fer fram undir ákveðinni yfirskrift, eða þema, ár hvert. Þá er einnig farið yfir þær framfarir sem orðið hafa í áherslumálum eldri funda og áskoranir tengdum þeim málefnum.  Í ár er þemað nýsköpun og tækni eða: „Innovation and technological change, and education in the digital age for achieving gender equlity and the empowement of all women and girls“. Stutt og laggóð íslensk þýðing á yfirskrift fundarins gæti verið: „Nýsköpun og tæknibreytingar og menntun kvenna á stafrænni öld og hvernig það getur nýst í þágu jafnréttis og valdeflingar kvenna“.

Áhugavert verður að fylgjast með þeim umræðum, sér í lagi í ljósi þess að stafrænir miðlar hafa bæði eflt konur, veitt þeim rödd og verið mikilvægur hlekkur í fjölda jafnréttisbyltinga, þ.m.t. #MeToo og mótmælunum gegn klerkastjórninni í Íran. En stafrænir miðlar hafa einnig orðið enn einn vettvangurinn fyrir kynbundið áreitni og kvenhatur.

Related Posts