fbpx

CSW67: Mörg fyrirtæki sett hönnun fyrir konur á oddinn

Heim / Fréttir / CSW67: Mörg fyrirtæki sett hönnun fyrir konur á oddinn

Kvennanefndarfundur Sameinuðu þjóðanna (CSW) fer fram í 67. skiptið í höfuðstöðvum Sþ í New York dagana 6.-17. mars. Áherslur fundarins í ár eru á nýsköpun og tækni og hvernig hún getur nýst í þágu jafnréttis.

Össur er heilbrigðistæknifyrirtæki sem hannar og framleiðir stoðtæki, spelkur og stuðningsvörur með það að markmiði að bæta hreyfanleika fólks. Fyrirtækið var stofnað á Íslandi 1971 en er nú með starfsemi í yfir 35 löndum. Markmið fyrirtækisins er að bæta hreyfanleika fólks með tækni, rannsóknum og nýsköpun.
Á síðasta ári hlaut Össur styrk úr Heimsmarkmiðasjóði atvinnulífsins um þróunarsamvinnu til að styðja við fórnarlömb stríðsins í Úkraínu. Sérfræðingar fyrirtækisins munu veita þjálfun til stoðtækjafræðinga og heilbrigðisstarfsfólks í Úkraínu og veita aðstoð varðandi stoðtækjalausnir handa einstaklingum sem misst hafa útlimi vegna stríðsins.

Hildur Einarsdóttir er framkvæmdastjóri Þróunarsviðs hjá Össuri.

Hildur Einarsdóttir er framkvæmdastjóri Þróunarsviðs hjá Össuri og hefur unnið hjá fyrirtækinu síðan í byrjun árs 2009. Hún hefur starfað innan tæknigeirans frá því að hún útskrifaðist sem verkfræðingur árið 2006. Hún telur mjög mikilvægt að þróunarteymi séu skipuð einstaklingum með mismunandi bakgrunn og af öllum kynjum enda séu skjólstæðingarnir fjölbreyttur hópur hvað varðar aldur, kyn, menningu, fötlun, lífstíl, vonir og væntingar.

Mikilvægt að mennta breiðan hóp í tæknifögum

Þema CSW67 er: Innovation and technological change, and education in the digital age for achieving gender equality and the empowerment of all women and girls. Hversu mikilvægt er að mennta konur og stúlkur í tækni og hverju mun jafnara kynjahlutfall innan tæknigeirans skila samfélögum?

„Til þess að nýsköpun nýtist sem best er mikilvægt fyrir hönnuði og verkfræðinga að skilja þarfir fólks og hvernig hægt sé að beita tækni til að leysa vandamál þess. Mér finnst því mjög mikilvægt að þróunarteymi séu fjölbreytt og hafi mismunandi bakgrunn enda eru okkar skjólstæðingar afskaplega fjölbreyttur hópur hvað varðar aldur, kyn, menningu, fötlun, lífstíl, vonir og væntingar.

Eftir því sem tækniteymin eru fjölbreyttari, því betri skilning höfum við á hinum fjölbreytta hópi fólks sem við þjónustum og getum þróað betri lausnir. Konur eru rétt um helmingur okkar skjólstæðinga og því mikilvægt að hafa góða innsýn inn í þeirra klínísku þarfir. Hið sama má segja um aðra tæknigeira og svið.

Almennt held ég að það sé mikilvægt að gefa ungum krökkum tækifæri á að kynnast snemma eðlisfræði og verkfræði á hagnýtan hátt og byggja upp hjá þeim sjálfstraust á þessum sviðum. Það vill brenna við að fólk líti á þessi fög sem ókleif. Hér má sérstaklega valdefla stelpur þar sem mörg þessara faga hafa í gegnum tíðina verið eyrnamerkt sem karlafög þó það sé vissulega að breytast hægt og bítandi á mörgum stöðum í heiminum. Samfélög framtíðarinnar munu reiða sig meira og meira á tækniframfarir og -þróun og því mjög mikilvægt að mennta breiðan hóp fólks í þeim fræðum.“

Gátu aðeins boðið kvenkyns stoðtækjafræðingum til Íslands vegna stríðsins

Össur hefur komið að þróunarsamvinnuverkefnum meðal annars í Úkraínu – hvers vegna leggur fyrirtækið áherslu á slíkt og skiptir máli að tæknifyrirtæki miðli þekkingu sinni áfram? Hafið þið haft kynjasjónarmið að leiðarljósi í þeirri vinnu?

Hildur segir konur vera rétt um helming skjólstæðinga fyrirtækisins.

„Það er mjög mikilvægt að fyrirtæki á heilbrigðistæknisviði miðli sinni þekkingu og styðja við þar sem hægt er. Sérstaklega fyrir fyrirtæki eins og Össur sem eru stór í sinni grein og hafa bolmagn og reynslu sem hægt er að deila.

Í aðstæðum eins og í Úkraínu þar sem mikill fjöldi einstaklinga hefur misst útlimi lítum við á það sem skyldu okkar að leggja okkar af mörkum. Við höfum lagt sérstaka áherslu á að þjálfa stoðtækjafræðinga í Úkraínu þannig að þau séu betur í stakk búin að sinna þeim fjölmörgum sjúklingum sem þurfa á þjónustu að halda.

Við viljum styrkja innviði landsins til langframa með því að byggja upp þekkingu þar í landi því aflimaðir einstaklingar munu þurfa stoðtækjaþjónustu það sem eftir lifir, ekki einungis á meðan á stríðinu stendur.

Í verkefnum sem þessum er lykilatriði að vinna hlutina hratt til þess að sjúklingar fái aðstoð sem fyrst en jafnframt gríðarlega mikilvægt að vinna af virðingu við þá einstaklinga og samfélög sem við erum að aðstoða, setja okkur inn í þeirra umhverfi og þarfir.

Eitt af því sem höfum gert er að bjóða úkraínskum stoðtækjafræðingum á námskeið í okkar eigin heilbrigðisstofnunum í Evrópu og í byrjun gátum við einungis boðið kvenkyns stoðtækjafræðingum þar sem karlarnir mega fæstir ferðast utan Úkraínu. Það er talsvert af hæfileikaríkum kvenkyns stoðtækjafræðingum í Úkraínu og virkilega ánægjulegt að geta stutt þær í því mikilvægu starfi sem þær sinna.“

Kynjahlutföllin jukust gífurlega síðasta áratug

Sem kona starfandi innan tæknigeirans, hverjar eru helstu áskoranirnar sem þú hefur þurft að yfirstíga? Finnst þér vera munur á kynjahlutfalli starfsfólks eftir því á hvaða sviði tæknifyrirtæki starfar?

„Þegar ég starfaði í Bretlandi fannst fólki ég kannski ekki passa almennilega inn í hefðbundinn prófíl fyrir rafmagnsverkfræðing enda konur í miklum minnihluta í því fagi á þeim tíma. Þegar ég hóf störf hjá Össuri fékk ég strax tækifæri til að spreyta mig og byggja upp tæknilega og klíníska þekkingu í gegnum vinnu mína með sjúklingum. Sú reynsla hefur verið mér ómetanleg og ég er þakklát fyrir að hafa verið treyst til að sprikla í djúpu lauginni enda margt sem hægt er að læra þar.

Í gegnum tíðina er sennilega óhætt að segja að færri konur hafi starfað í stóriðnaði en til dæmis í verkfræðigreinum sem tengjast heilbrigðisvísindum. Hins vegar finnst mér kynjahlutföllin hafa jafnast gífurlega út á síðusta áratug og mikið af mjög öflugum og reynslumiklum konum sem vinna þvert á tæknisvið hér heima og erlendis.“

Tengdu ekki við breiðar ristar og stóra ökla

Femínistar hafa bent á að konur hafi of lengi verið undanskildar þegar tækni er annars vegar. Má þar nefna sem dæmi um öryggisbúnað sem er hannaður á eða fyrir karlmannslíkama (bílbelti, öryggispúðar í bílum, skotheld vesti, meira að segja stærð síma tekur mið af karlmannshönd). Er þetta sjónarmið sem þið hafið rekið ykkur á í ykkar vinnu og hvernig má breyta þessu svo tækni nýtist öllum betur, óháð kyni og uppruna?

Össur hannar fætur sem henta konum sérstaklega.

„Ég held að þetta sé alveg rétt fyrir fjöldann allan af vörum og þjónustu sem hafa verið þróuð í gegnum tíðina. Oft er verið að hanna lækninga- og öryggistæki sem eiga að henta öllum en það er margt ólíkt með líkamsbyggingu, stærð og lögun sem veldur því að viðkomandi tæki eru ekki endilega eins og sniðin fyrir konur. Það hefur verið áhugavert að fylgjast með þróun á þessu sviði undanfarin tvö ár og hana má glöggt greina í stefnu hönnunarfyrirtækja sem hafa mörg sett hönnun fyrir konur á oddinn, þá sérstaklega þegar kemur að lækningatækjum og lausnum tengdum heilsufari kvenna.

Nærtækasta dæmið fyrir mig eru spelkur, gervihendur og gervifætur. Í gegnum árin hafa gervifætur tekið gríðarlegum framförum í virkni en hafa yfirleitt verið „universal“ þó að þeir hafi komið í mismunandi skóstærðum. Þessu fannst okkur nauðsynlegt að breyta enda tengdu okkar kvenkynsskjólstæðingar ekki almennilega við nokkuð breiðar ristar og stóra ökkla. Við vildum hanna fætur sem hentuðu konum sérstaklega hvað varðar lögun og val á skófatnaði án þess þó að draga úr virkni fótanna á nokkurn hátt.

Það er ábyrgðarhlutverk að hanna tæki sem eiga að koma í stað líkamshluta fólks og það hefur verið mjög gaman að fylgjast með því hvað þessi vinna hefur skilað miklu til kvenna sem notast við gervifætur og þær eru duglegar við að deila með okkur sinni upplifun og valdeflingu við að nota fætur sem þeim finnst vera hluti af þeim sjálfum. Þetta traust og samsömun er í raun fyrsta skrefið í því að nota lækningatæki eins og gervifætur og nýta þau til fullnustu.“

Related Posts
Kona, Malaví, landbúnaður