fbpx

CSW67: Hvað er Pekingsáttmálinn?

Heim / Fréttir / CSW67: Hvað er Pekingsáttmálinn?
Gvatemala, kona, bak

Konur eru líklegri til að búa við sárafátækt en karlmenn.

Margir hafa líklega heyrt minnst á Pekingsáttmálann þegar rætt er um stöðu kvenna og jafnrétti. Pekingsáttmálinn er í raun áætlun sem hefur það að markmiði að flýta framgangi kynjajafnréttis um allan heim. Þessi áætlun var samþykkt árið 1995 og þótti þá tímamótaáætlun á þessu sviði. En hvað nákvæmlega felur Pekingsáttmálinn í sér?

Kaflaskil í réttindabaráttu kvenna

Pekingsáttmálinn leit dagsins ljós árið 1995 á Kvennanefndarfundi Sameinuðu þjóðanna í Peking í Kína. Á þessum fundi var samþykkt yfirlýsing og aðgerðaáætlun í tólf köflum sem var ætlað að bæta stöðu kvenna í heiminum.

Sáttmálinn þótti marka ákveðin kaflaskil í réttindabaráttu kvenna því hann var einróma samþykktur af öllum 189 aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna.

Þessi áætlun er ýmist þekkt sem Pekingsáttmálinn eða Pekingáætlunin. Fundað hefur verið um markmið áætlunarinnar á nokkurra ára fresti af Kvennanefnd Sameinuðu þjóðanna (e. Comission on the Status of Women).

Innihald sáttmálans á enn við

Líkt og fyrr segir, samanstendur áætlunin af tólf köflum og eru þeir eftirfarandi:

  1. Konur og fátækt – konur eru margfalt líklegri til að búa við fátækt en karlmenn. Vinna þarf markvisst að því að uppræta sárafátækt
  2. Menntun kvenna – tryggja öllum jafnt aðgengi að menntun, óháð kyni, stöðu og búsetu
  3. Konur og heilsufar – tryggja aðgengi að læknisþjónustu og lyfjum, bregðast við heilsuspillandi orkugjöfum og veita öllum konum aðgengi að mæðravernd og fæðingaraðstoð. Tryggja kynheilbrigði ungra stúlkna
  4. Ofbeldi gegn konum – uppræta ofbeldi gegn konum og styðja við félagasamtök og stofnanir sem veita þolendum lífsbjargandi aðstoð. Efla dómsvaldið til að bregðast betur við tilkynningum og kærum um ofbeldi
  5. Konur og vopnuð átök – standa vörð um mannréttindi kvenna á tímum átaka og hamfara, styðja við einstæðar mæður og tryggja fulla þátttöku kvenna til jafns við karla í friðarviðræðum. Eins á að líta á uppbyggingu eftir átök sem tækifæri til að efla jafnrétti
  6. Konur og efnahagsmál – viðurkenna og bregðast við ójöfnu aðgengi að landi og fjármunum eftir kyni. Viðurkenna og bregðast við mismunun á vinnumarkaði. Tryggja fjárhagslegt jafnræði kvenna með lagabreytingum.
  7. Konur í stjórnmálum og stjórnunarstöðum – tryggja jafnt kynjahlutfall í ríkisstjórnum og á þingi. Tryggja þátttöku kvenna í stjórnmálum og að konur hafi færi á að fullnýta kosningarétt sinn. Tryggja að konur séu þátttakendur í æðstu stöðum samfélagsins, m.a. stéttarfélögum, fyrirtækjum og sveitarstjórnunar- og þingstörfum.
  8. Stofnanir sem vinna að framgangi kvenna – afla kynjaðra ganga til að vinna að auknum jöfnuði handa öllum. Ríki þurfa að móta sér alhliða stefnu sem styður við kynbundinn jöfnuð
  9. Mannréttindi kvenna – ríki mega ekki brjóta á mannréttindum kvenna og þurfa markvisst að vinna að því að standa vörð um grundvallarmannréttindi kvenna og stúlkna. Tryggja að allar konur og stúlkur þekki réttindi sín. Efla alþjóðastofnanir sem vinna í þágu mannréttinda
  10. Konur og fjölmiðlar – endurskoða þurfi hvernig konur eru hlutgerðar í fjölmiðlum og auglýsingum. Tryggja þarf fulla þátttöku kvenna í fjölmiðlum, m.a. sem blaðamenn en einnig sem viðmælendur. Tryggja tjáningarfrelsi kvenna
  11. Konur og umhverfið – viðurkenna og bregðast við kynjuðum áhrifum loftslagsbreytinga, sérstaklega á dreifbýlum svæðum fátækari ríkja heims. Standa vörð um kvenkyns umhverfissinna og tryggja að konur taki fullan þátt í ákvarðanatökum er snúa að umhverfismálum, þá einkum og sér frumbyggja (e. Indigenous)
  12. Stúlkubörn og unglingsstúlkur – uppræta ofbeldi gegn stúlkum, þ.m.t. kynfæralimlestingar og stúlknamorð. Tryggja þarf jafnan aðgang stúlkna að fæðu, menntun og framtíðartækifærum. Uppræta þvinguð barnahjónabönd og styðja við heilbrigði barnungra mæðra.

Innihald og áherslur Pekingsáttmálans hafa tekið einhverjum breytingum frá því hann var samþykktur árið 1995 til að endurspegla betur breytta tíma. Sem dæmi má nefna hafa kaflar um kynjuð áhrif loftslagsbreytinga og viðbrögð við þeim orðið fyrirferðarmeiri á síðari árum. Annars má segja að öll áhersluatriði sáttmálans eigi enn við í dag, 27 árum frá samþykkt hans.

Staðan í dag ekki góð 

Staða jafnréttis er víða mjög slæm.

Farið var yfir áherslur Pekingsáttmálans á 25 ára afmæli áætlunarinnar árið 2020. Þáverandi framkvæmdastýra UN Women, Phumzile Mlambo-Ngcuka, hafði áhyggjur af því mikla bakslagi sem orðið hafði í réttindum kvenna í upphafi COVID-19 faraldursins og hvatti aðildarríki til að standa vörð um jafnrétti.

Á þeim tveimur árum sem liðið hafa síðan, er óhætt að segja að staða kvenna í heiminum hafi versnað enn frekar. Afganskar konur hafa misst öll grundvallarmannréttindi sín frá því að valdataka talíbana átti sér stað í ágúst 2021. Íranskar konur berjast áfram hetjulega fyrir mannréttindum sínum, þrátt fyrir að klerkastjórnin í Íran hafi hótað þeim grimmilegum refsingum brjóti þær ströng siðgæðislög landsins.

Fjöldi kvenna í Úkraínu býr við fátækt, skort og aukna hættu á kynbundnu ofbeldi vegna innrásar Rússa í landið. Þúsundir kvenna í Pakistan glíma við sárafátækt og heimilisleysi í kjölfar hamfaraflóða í landinu. En konur eru í senn fjórtán sinnum líklegri til að látast í náttúruhamförum en karlar og ólíklegri til að hljóta neyðaraðstoð í kjölfar þeirra sökum veikrar samfélagsstöðu sinnar.

300 ár í að jafnrétti náist

Meirihluti þeirra er flúið hafa stríðið í Úkraínu eru konur og börn.

Eitt af heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna snýst um jafnrétti kynjanna – en stefnt er að því að ná öllum 17 markmiðum fyrir árið 2030. Heimsmarkmið 5 um jafnrétti er það markmið sem á hvað lengst í land og staðan er langt frá því að vera góð: Rúm 300 ár eru í að jafnrétti náist ef þróunin heldur áfram á sama hraða og hún hefur gert fram að þessu.

Þó að aðildarríki Sameinuðu þjóðanna hafi sammælst um Pekingsáttmálann fyrir tæpum þrjátíu árum síðan, virðast jafnréttismálin því miður enn mæta afgangi hjá þeim flestum.

Related Posts