fbpx

CSW67: Nýsköpun er forsenda framþróunar

Heim / Fréttir / CSW67: Nýsköpun er forsenda framþróunar

Kvennanefndarfundur Sameinuðu þjóðanna (CSW) fer fram í 67. skiptið í höfuðstöðvum Sþ í New York dagana 6.-17. mars. Áherslur fundarins í ár eru á nýsköpun og tækni og hvernig hún getur nýst í þágu jafnréttis.

Alvotech er alþjóðlegt líftæknilyfjafyrirtæki með höfuðstöðvar á Íslandi. Fyrirtækið er alþjóðlegt þekkingar- og hátæknifyrirtæki með höfuðstöðvar í Vísindagörðum Háskóla Íslands í Vatnsmýri og er í öflugu samstarfi við íslensku háskólana með það að markmiði að efla vísindastarf og nýsköpun. Fyrirtækið hefur styrkt starfsemi UN Women á Íslandi með ýmsum hætti í gegnum árin, nú síðast í tengslum við verkefni UN Women í Úkraínu.

Sesselja Ómarsdóttir er framkvæmdarstjóri lyfjavísinda hjá Alvotech. Mynd/Stefán Drengsson

Sesselja Ómarsdóttir er framkvæmdarstjóri lyfjavísinda hjá Alvotech og hefur starfað hjá fyrirtækinu í tæp átta ár. Hún hefur þó starfað við rannsóknir og þróun í lyfjafræði og líftækni mun lengur, eða í yfir 20 ár, bæði í akademíu og lyfjaiðnaðinum. Hún kveðst lánsöm að fá að vinna að því sem hún hefur brennandi áhuga á og segir það hvetjandi að hugsa til þess að afrakstur starfsins muni hafa jákvæð áhrif á líf fjölda fólks um víða veröld.

Nýsköpun forsenda framþróunar

Þema CSW67 er: Innovation and technological change, and education in the digital age for achieving gender equality and the empowerment of all women and girls. Hversu mikilvæg er nýsköpun og tækni í baráttunni fyrir jafnrétti og jöfnuði?

„Nýsköpun og innleiðing tæknilausna er gríðarlega mikilvæg í lyfja- og líftækniiðnaðinum. Hún er forsenda framþróunar, þess að við getum búið okkur og komandi kynslóðum betra líf og  aukin lífsgæði. Nýsköpun á sviði lyfjaþróunar og framleiðslu gerir okkur kleift að vera skilvirkari og þar með getum við lækkað lyfjakostnað enn frekar. Í þeim hátækniiðnaði sem ég starfa við þróum við svokallaðar líftæknilyfjahliðstæður sem eru jafn virkar en ódýrari en þau líftæknilyf sem nú þegar eru á markaði.  Með því móti erum við að auka aðgengi sjúklinga að þessum mikilvægu lyfjum sem margir hverjir gætu e.t.v. ekki fengið viðeigandi meðferð sökum þess að hún væri of dýr. Þannig leggjum við okkar af mörkum til að auka jöfnuð.“

Stjórnendahópurinn má ekki vera einsleitur

Sjúkdómar sem herja eingöngu/aðallega á konur, og þá sérstaklega konur í fátækari ríkjum heims, eru sagðir mæta afgangi þegar kemur að þróun nýrra lyfja m.a. vegna einsleitni innan stjórnar lyfjafyrirtækja. Ertu sammála þessu og hversu mikilvægt er að líftæknifyrirtæki vinni að því að jafna kynjahlutföll starfsfólks og stjórnar? Hvaða breytingar gæti slíkt haft í för með sér?

„Mér er afar hugleikið að fátækari þjóðir heimsins hafi ekki aðgang að þeim meðferðum og lyfjum sem þær þurfa. Jafnframt er það mikilvægt að við beinum kröftum okkar að meðferðum við sjúkdómum sem herja á allt mannkyn, hvort sem þeir eru kynbundnir eður ei. Mörg þeirra líftæknilyfja sem við hjá Alvotech erum með í þróun og framleiðslu eru notuð til meðferðar við sjálfsofnæmissjúkdómum sem herja hlutfallslega á fleiri konur en karla, eins og t.d. liðagigt. Okkur er mikið í mun að markaðssetja lyf sem geta aukið lífslíkur og lífsgæði sjúklinga af öllum kynjum um allan heim. Með auknu framboði samheitalyfja og líftæknilyfjahliðstæða er unnt að lækka verð á lyfjum og þar með auka aðgengi að þeim í fátækari ríkjum heimsins.

En hvað kynjahlutföll starfsmanna og innan stjórna lyfjafyrirtækja varðar, þá er auðvitað afar mikilvægt að hafa það hugfast að til að tryggja að ákvarðanir í líftækni- og lyfjageiranum taki mið af mismunandi sjónarmiðum, má stjórnendahópurinn ekki vera einsleitur. Þetta er auðvitað ekki bara bundið við þennan geira heldur á við um öll svið atvinnulífsins.

Rannsóknir sýna að aukin fjölbreytni í teymum getur bæði leitt til meiri nýsköpunar og betri fjárhagslegrar afkomu fyrirtækja. Með því að jafna kynjahlutföll meðal starfsmanna, stjórnenda og innan stjórna  geta lyfja- og líftæknifyrirtæki endurspeglað betur þau samfélög sem þau þjóna og þar með verið betur í stakk búin að mæta þörfum mismunandi hópa.“

Hlutfall karla og kvenna í starfsmannahópnum 50:50

Sameinuðu þjóðirnar hafa lengi vakið athygli á mikilvægi þess að fjölga konum innan STEM – hefur Alvotech unnið markvisst að því að fjölga konum í STEM og ef svo er, með hvaða hætti?

„Ég er svo lánsöm að vinna með frábæru fólki sem kennir mér eitthvað nýtt á hverjum degi.“ Mynd/Stefán Drengsson

„Við hjá Alvotech höfum markvisst unnið að því að jafna kynjahlutföllin. Það er ánægjulegt að segja frá því að í dag er hlutfall karla og kvenna í starfsmannahópnum 50:50, þannig að ég get með sanni sagt að við höfum náð markmiðinu. Við erum stolt af þeim alþjóðlega og fjölbreytta hópi starfsmanna af 60 mismunandi þjóðernum sem starfar hjá okkur og að geta veitt jöfn tækifæri til starfsþróunar og framgangs í starfi. Að auki eru kynjahlutföll í stjórn og framkvæmdarstjórn félagsins nokkuð jöfn.

Við horfum stöðugt til jafnvægis í ráðningum og starfsþróun. Frá því að Alvotech fékk jafnlaunavottun í byrjun árs 2021 höfum við unnið ötullega að því að innleiða sömu aðferðafræði í jafnrétti á alþjóðlegum starfstöðvum fyrirtækisins. Erum við því afar stolt af því að vera að flytja út jafnréttismenningu Íslands. Þó að jafnlaunavottun sé nú talin nánast sjálfsögð í íslensku atvinnulífi er það ekki svo annars staðar í heiminum. Það er okkar stefna að  stuðla að jöfnum tækifærum fyrir allt starfsfólk okkar, sama af hvaða kyni, þjóðerni það er eða í hvaða landi það starfar.

Rót vandans er að staðalímynd vísinda- og tæknifólks er karlkyns

„Í starfi mínu sem prófessor við Háskóla Íslands og hjá Alvotech hef ég ötullega unnið að því að auka áhuga kvenna á STEM-greinum. Eitt dæmi sem ég get tekið er að Alvotech og Háskóli Íslands settu á laggirnar nýja námsleið, meistaranám í iðnaðarlíftækni og þannig styðjum við beint við það að auka tækifæri allra kynja að námi í líftækni.

Með því að hafa góðar fyrirmyndir í þessum fögum aukum við enn frekar áhuga kvenna og tækifæri þeirra í vísinda- og tæknigreinum. Hjá Alvotech leggjum áherslu á að auka sýnileika vísindakvenna, til dæmis þegar við bjóðum háskólanemum og öðrum að heimsækja fyrirtækið. Rót vandans er að staðalímynd vísinda- og tæknifólks er karlkyns og byrjað er að skapa þessa staðalímynd á unga aldri. Mér finnst því mikilvægt að sýna hversu mikið af frábærum vísindakonum við eigum þegar það kemur að því að kynna fyrirtækið út á við.“

Fyrir fram mótaðar skoðanir hafa áhrif

Sem kona sem starfar innan tæknigeirans, hvaða áskoranir hefur þú þurft að yfirstíga til að komast þangað sem þú ert í dag?

„Áskoranirnar hafa verið margs konar. Eflaust mætti rekja þónokkrar til ómeðvitaðrar hegðunar í garð kvenna en það er mikilvægt að vera meðvitaður um það að fyrir fram mótaðar skoðanir fólks hafa mikil áhrif. Staðalímyndir vísindamanna, stjórnenda eða leiðtoga eru oft karllægar. Ég kýs þó að horfa frekar til sterkra kvenfyrirmynda og fylgi fordæmi þeirra og læt hindranir ekki stoppa mig. Ég lít frekar á þær sem ögrandi áskoranir.“

Hvað er það skemmtilegasta við vinnuna þína?

„Ég er svo lánsöm að vinna með frábæru fólki sem kennir mér eitthvað nýtt á hverjum degi. Starfinu fylgir mikil teymisvinna, þar sem við leysum fjölbreytt og krefjandi verkefni í sameiningu og engir tveir dagar eru eins. En auðvitað er mikilvægast að fá að vinna að því sem ég hef brennandi áhuga á og hvetjandi að hugsa til þess að afrakstur okkar starfs muni hafa jákvæð áhrif á líf og lífsgæði fjölda fólks um víða veröld.“

Related Posts
Kona, Malaví, landbúnaður