fbpx

Tyrkland: Eina sem ég hugsaði var hvernig ég gæti skýlt barninu

Heim / Fréttir / Tyrkland: Eina sem ég hugsaði var hvernig ég gæti skýlt barninu

Lama Aljaradi, er sýrlensk flóttakona sem hefur starfað fyrir UN Women í Tyrklandi. Photo: UN Women/Erman Fermanci.

Lama Aljaradi flúði átökin í heimalandi sínu Sýrlandi til borgarinnar Gaziantep í suður Tyrklandi, fyrir níu árum. Í Gaziantep hóf hún störf hjá Samhæfingarskrifstofu aðgerða SÞ í mannúðarmálum (OCHA). Hún hefur starfað hjá UN Women frá árinu 2022 þar sem hún hefur m.a. séð um mannúðarverkefni stofnunarinnar í Sýrlandi. Lama og 18 mánaða gamalt sonur hennar komust ósködduð frá jarðskjálftunum sem riðu yfir suður Tyrkland og norðanvert Sýrland þann 6. febrúar. Fyrsti skjálftinn átti upptök sín nærri Gaziantep og olli þar miklum skemmdum.

Hver var þín upplifun af jarðskjálftunum þann 6. febrúar?

„Sonur minn hafði grátið mikið þá nótt og ég hafði eytt mörgum klukkustundum í að reyna að svæfa hann. Klukkan var um 04: 00 þegar hann loks sofnaði og skömmu síðar fór húsið að skjálfa. Ég greip drenginn í fangið og leitaði skjóls undir eldhúsborði. Drengurinn grét óstjórnlega og það eina sem ég gat hugsað um þá stundina, var hvernig ég gæti skýlt honum ef byggingin hrundi. Þetta var lengsta mínúta lífs míns.

Þegar skjálftinn hætti, greip ég síma minn og úlpu á barnið og hljóp út. Það var ískalt úti og ég skalf af kulda. Tyrkneskir nágrannar mínir buðu mér skjól í bílnum sínum. Það var þá sem ég áttaði mig á því að ég hafði hlaupið út án úlpu og höfuðslæðu. Við vorum átta sem höfðum troðið okkur í bílinn, sumir höfðu jafnvel troðið sér í skottið. Eftirskjálftarnir voru margir og við biðum í bílnum þar til um hádegisbil næsta dag. Þá ákvað ég að fara aftur heim þar sem drengurinn var orðinn mjög svangur og þreyttur. Ég hafði nýlokið að setja helstu nauðsynjar í töskur þegar næsti skjálfti skall á, miklu sterkari en sá fyrri. Ég skýldi mér og barninu aftur undir borði, lokaði augunum og bað til Guðs. Mér leið eins og þetta væru endalok okkar. En ég var heppin og við komumst út.“

Þurfa fyrst og fremst öryggi

Hverjar eru helstu þarfir kvenna og stúlkna þegar hamfarir sem þessar dynja á?

„Ef ég tala út frá eigin reynslu, þá þurfum við fyrst og fremst öryggi. Neyðarskýli og tímabundin úrræði þurfa að búa yfir öruggum og kynjaskiptum salernis- og þvottastæðum sem eiga að vera vel lýst og þannig að hægt sé að læsa að sér. Þá er mikilvægt að konur hafi aðgengi að upplýsingum svo að við getum tekið upplýstar ákvarðanir. Þarna spilar gott aðgengi að tækni lykilhlutverki. Ef ég tek norðausturhluta Sýrlands sem dæmi, þá hafa ekki allar konur þar aðgengi að síma, tölvu eða netinu og þær reiða sig því að miklu leyti á upplýsingar frá öðrum, sem eru ekki í öllum tilvikum réttar.

Það voru margar konur eins og ég sem hlupu út án þess að vera almennilega klæddar. Öðrum var bjargað úr húsarústum án almennilegra klæða eða höfuðslæðna. Nauðsynlegur fatnaður og nærfatnaður er því mikilvægur. Þá skiptir sálræn aðstoð og aðgengi að áfallahjálp miklu máli, bæði einkatímar og hóptímar. Það að geta deilt reynslu sinni með öðrum skiptir miklu máli við úrvinnslu áfalla.“

Kynjahlutverk breytast á neyðartímum

Hver eru sértæk áhrif jarðskjálfta á líf kvenna og stúlkna?

Konur og stúlkur á hamfarasvæðunum búa nú margar í tjöldum. Nilüfer Baş/UN Women

„Það er alltaf sú hætta á að framfarirnar sem orðið hafa í samfélagslegri þátttöku kvenna hverfi. Konur eiga á hættu að vera haldið frá ákvörðunartökum, björgunar- og mannúðarstarfi og jafnvel uppbyggingarstarfinu. Ástæðurnar fyrir því að útiloka konur frá þátttöku eru sagðar þær að konur þurfi að einbeita sér að fjölskyldum sínum. En það sem konur þurfa helst á að halda núna er að rödd þeirra heyrist og að þær fái rými til að styðja hverja aðra og samfélög sín.

„Þegar átök og náttúruhamfarir skella á, upplifir fólk mikla örvæntingu, en kynjahlutverk breytast líka og togstreitan sem verður til þar eykur líkur á kynbundnu ofbeldi, í öllum sínum birtingarmyndum. Hættan á kynferðislegri áreitni og ofbeldi er gríðarleg núna, sérstaklega þar sem enn vantar öruggt húsaskjól og hreinlætisaðstöðu. Þeir kynjafordómar sem þegar voru til staðar magnast jafnframt upp í aðstæðum sem þessum.“

Þakklát að vera hluti af þessu starfi

Hvernig hefur UN Women brugðist við neyðinni?

„Þó að hlutverk UN Women sé í raun ekki það að veita mataraðstoð eða koma upp tjöldum fyrir þau sem misst hafa heimili sín, hefur stofnunin leikið viðamikið hlutverk strax frá fyrsta degi við að greina stöðuna og tryggja að sú aðstoð sem sé veitt nýtist öllum. UN Women hefur rætt við og fundað með konum á hamfarasvæðunum til að komast að því hverjar þarfir þeirra eru og hvaða þörfum hefur ekki verið mætt. UN Women á í stöðugum samskiptum við mannúðarstofnanir SÞ og sér til þess að hugað sé að þörfum allra, þá sérstaklega þeirra sem glíma við margþætta mismunun. Ég er stolt af því að vera hluti af þessu starfi því ég heyri aftur og aftur frá konum á hamfarasvæðunum að þær upplifi að þær mæti afgangi og að ekki sé hlustað á þarfir þeirra.“

Af hverju er mikilvægt að konur komi að neyðarviðbragði?

UN Women í Tyrklandi hefur komið nauðsynjum til kvenna og stúlkna UN Women/ Nilüfer Baş

„Það er engin spurning að konur og karlar ættu að hafa jafnan aðgang að upplýsingum, ákvarðanatöku og neyðarúrræðum. Karlar skilja hreinlega ekki sértækar þarfir kvenna í þessum aðstæðum, og öfugt. Konur verða að koma að því að hanna neyðarviðbrögð og betrumbæta þau.

„Samstaðan og stuðningurinn sem konur veita öðrum á neyðartímum er ómetanlegur og sýnir líka hversu mikilvægt það er að konur séu virkar í að veita neyðaraðstoð, ekki aðeins þiggja hana. Ábyrgð UN Women er mikil í kjölfar þessara hamfara, því þetta er tækifæri til að efla jöfnuð og tryggja að mannúðaraðstoð taki ekki aðeins tillit til kyns, heldur verði tól til langvarandi breytinga í þágu jafnréttis.“

Related Posts