fbpx

CSW67: Fjallað um flækjurnar við karla í femínisma

Heim / Fréttir / CSW67: Fjallað um flækjurnar við karla í femínisma

Arnar Gíslason, jafnréttisfulltrúi hjá Háskóla Íslands er í hópi þeirra er sóttu Kvennanefndarfund Sameinuðu þjóðanna (CSW67) sem fram fer í New York. Áherslur fundarins í ár voru á tækni og nýsköpun. UN Women á Íslandi náði af Arnari og fengu að heyra hvaða viðburðir höfðu staðið upp úr að hans mati.

Er mikilvægt að karlmenn taki þátt á Kvennanefndarfundi SÞ og samtalinu sem á sér stað þar?

„Karlar geti haft ýmiss konar hlutverk í jafnréttisbaráttunni, en það skiptir máli hvernig þeir bera sig að: Þeir þurfa að vanda sig og þurfa ekki alltaf að vera í aðalhlutverki. Á þessum vettvangi, þar sem er margt áhrifafólk og margir karlar sem eru í stöðu til að hafa áhrif á þennan málaflokk, þetta er mikilvægur vettvangur fyrir þá að koma og hlusta. Taka eftir hvaða kröfur og sjónarmið koma fram og taka það með sér inn á sinn vettvang.

Það má segja að það sé kannski mikilvægt að karlar geri sín rými feminísk, komi með þessi sjónarmið þangað inn, frekar en að búa til rými eða pláss fyrir karla inni í jafnréttisbaráttunni. Það er kannski mikilvægasti vettvangurinn fyrir karla til að beita sér, á sínum heimavelli.“

Hvaða viðburður hefur staðið upp úr hjá þér?

„Þeir eru nokkuð margir. Bæði á vegum Sameinuðu þjóðanna og þjóðríkjanna og svo á vegum félagasamtaka. Ef ég ætti að pikka eitthvað út, þá mundi ég nefna marga af viðburðunum sem Ísland hefur staðið að þar sem fókusinn hefur verið á tækni, netöryggi og ofbeldi og áreitni á netinu og sýnt hvað þetta er ofboðslega mikilvægt mál að huga að í framtíðinni. Hvaða áhrif tækni getur haft á jafnréttismál og mannréttindamál, bæði til góðs og ills.

Svo var líka áhugaverður viðburður á vegum félagasamtaka sem fjallaði um flækjurnar við það að hafa karla inni í femínisma, „the feminist conundrum“ sem kallað er. Það var býsna áhugavert.“

Var einhver ákveðin setning eða saga sem fékk þig sérstaklega til að staldra við og hugsa?

„Það var ýmislegt. Get til dæmis nefnt það sem okkar frábæri forsætisráðherra, sem margt fólk hefur hrósað okkur fyrir, sagði. Hún sagðist oft fá að heyra að jafnréttismálin séu „mjúku málin”, þegar það er kannski alveg þvert á móti. Inni í þessum málaflokki eru mörg þungbærustu og erfiðustu málin í mannréttindamálum í dag. Þannig þetta er í raun harður málaflokkur frekar en mjúkur.

Svo finnst mér líka mikilvægt að minna á það sem grænlenski jafnréttisráðherrann kom inn á um daginn, að samfélagið okkar er búið til af sumum körlum og hannað fyrir suma karla, ekki alla. Það þarf því að taka inn hvernig hlutirnir ganga þvert á, það sem við köllum “intersectionality”. Koma út fyrir hvítan femínisma, út fyrir karlar/konur tvíhyggjuna og hugsa líka um réttindi hinsegin fólks, fatlað fólk og innflytjendur. Það er mikilvægt að huga að þessu öllu saman.”

Hægt er að horfa á viðtalið við Arnar hér að neðan.

Related Posts