fbpx

CSW67: Skilningsleysi getu leytt til óviðeigandi aðgerða

Heim / Fréttir / CSW67: Skilningsleysi getu leytt til óviðeigandi aðgerða

María Rún Bjarnadóttir, lögfræðingur og verkefnisstjóri gegn stafrænu ofbeldi hjá Ríkislögreglustjóra stýrði hliðarviðburði Norrænu ráðherranefndarinnar á 67. Kvennanefndarfund Sameinuðu þjóðanna, sem fram fer í New York þessa vikuna. Viðburðurinn fjallaði um viðbragð Norðurlandanna við stafrænu ofbeldi.  UN Women á Íslandi náði tali af Maríu Rún eftir viðburðinn og spurði hana út í inntak hans.

Um hvað fjallaði fundurinn?

„Á fundinum var verið að tala um hvernig verið er að ýta aftur mannréttindum. Þessi árangur sem hefur náðst í réttindum samkynhneigðra, í jafnrétti kynjanna og hvernig tæknin hefur fært ákveðin þrýsting á þessi réttindi og ýtt þeim aftur. Þarna var verið að tala um þær norrænu lausnir sem hafa verið gerðar í tengslum við þetta bakslag. Tekið var dæmi um löggjöf sem hefur verið gerð í norrænu ríkjunum en líka dæmi um stefnumarkandi aðgerðir sem hefur verið farið í. Til dæmis það sem að ráðuneytin hafa falið Ríkislögreglustjóra að gera varðandi stafrænt ofbeldi.“

Hvað þótti þér helst standa upp úr og af hverju?

„Mér fannst helst standa upp úr hvað ráðherrarnir voru hispurslausir og einlægir þegar þeir voru að tala. Mér finnst það skipta máli að við sjáum stjórnmálafólk tala um þessi mál af einlægni og af hreinskilni. Þar fannst mér mikilvægt að sjá pólitíska leiðtoga frá norrænu löndunum vera svolítið sjálfsgagnrýnin, þrátt fyrir að það hafi náðst góður árangur í þessum ríkjum á þessu málefnasviði þá er samt verið að grípa til frekari aðgerða. Það er samt verið að hugsa um hvað við getum gert betur. Og mér fannst áhugavert að sjá hvað þau voru vel inní þessu öllu saman. Ég hafði getið mér frekar til um að þau hefðu kannski ekki pælt svona mikið í þessu. En þau gátu nánast öll talað blaðalaust og af þekkingu og innsýn. Það fannst mér rosalega merkilegt og hvetjandi.“

Standa Norðurlöndin framar öðrum ríkjum í því að taka á kynbundnu ofbeldi sem þrífst á netinu?

„Kynbundið ofbeldi á netinu er alheimsvandi sem öll ríki heims glíma við. Sá vandi er líka á Norðurlöndunum og við höfum séð mjög mismunandi leiðir í því, hvernig ríki takast á við þetta. Þar skiptir mestu máli hvernig samfélagsgerðin er. Við erum með ráðstjórnarríki og ríki sem eru kannski ekki í grunninn lýðræðisleg, og þau ríki eru ekki endilega að taka á þessum málum með uppbyggilegum hætti, ef við segjum það þannig. Það er alltaf ákveðin hætta, ef það er ekki kynjaður skilningur á vandanum að ríki grípi til aðgerða sem eru ekki viðeigandi. Þannig að ég held að það sem við sjáum með Norrænu ríkin, er að þau eru að grípa til aðgerða sem eru eiga rætur í lýðræðishefðinni, þau byggja á þessum ramma um að ofbeldi gegn konum sé samfélagsmein. Og  þau gera ráð fyrir því að við þurfum margþættar og heildstæðar aðgerðir til þess að taka á þessum vanda, sem er enn ein birtingarmynd á þeim vanda sem ofbeldi gegn konum er. Þannig að ég held að heilt yfir þá er ýmislegt gott að gerast. Það sem mér finnst best er að það eru allir meðvitaðir um að það er ekki endilega nóg og þau þurfa að halda áfram.“

Hverjar eru helstu áskoranirnar í þeim efnum?

„Ég held að helstu áskoranirnar sem við stöndum frammi fyrir varðandi áhrif tækninnar á réttindi og stöðu kvenna, eru sömu áskoranir og við stöndum frammi fyrir varðandi réttindi og stöðu kvenna í heiminum almennt. Það er að konur séu hliðsettar, það er að konur séu skoðaðar í passívu hlutverki og að þær séu hlutgerðar, en ekki agentar í sínu eigin lífi og agentar fyrir samfélagið. Þar hef ég sérstakar áhyggjur af því að konur sem taka pláss, konur sem tala um femínisma eða konur sem taka þátt í stjórnmálum, þær verða fyrir miklu harðara og kynjaðra áreiti á netinu en karlar. Ég hef áhyggjur að það gerði það að verkum að konur taki síður þátt í stjórnmálaumræðu og hafi þannig minni áhrif á lýðræðið okkar. Það held ég að sé meiri háttar vandi, ekki bara fyrir konur, heldur fyrir samfélagið og lýðræðið. Það held ég að sé stóra áskorunin sem er fram undan.“

Horfa má á viðtalið hér að neðan.

Related Posts
Stella Samúelsdóttir, framkvæmdastýra UN Women á Íslandi og Þorsteinn Víglundsson, forstjóri Eignarhaldsfélagsins Hornsteins undirrita samninginn