Stúlka ekki brúður – Landssöfnun UN Women

Home / Fréttir / Stúlka ekki brúður – Landssöfnun UN Women

Landskonur og -menn hvött til að gerast Ljósberar UN Women í beinni 1. nóv kl.19.45.

Stúlka ekki brúður – Landssöfnun UN Women, fer fram í beinni á Rúv föstudaginn 1. nóv strax eftir fréttir kl.19.45. Grínistar, sérfræðingar, leikarar, fjölmiðlafólk og tónlistarfólk koma fram í þættinum og skapa skemmtilegan og fræðandi þátt en hvetja um leið almenning til að gerast Ljósberar UN Women. Er þetta í fyrsta sinn sem UN Women á Íslandi, sem og UN Women á heimsvísu, efnir til fræðslu- og skemmtiþáttar í sjónvarpi.

Í þættinum verður sjónum beint að einni útbreiddri birtingarmynd kynbundins ofbeldis, þvinguðum barnahjónaböndum.

  • Yfir 12 milljónir barnungra stúlkna eru þvingaðar í hjónaband á hverju ári

Sem þýðir að:

  • 23 barnungar stúlkur eru þvingaðar í hjónaband á hverri mínútu.

UN Women á Íslandi ásamt tökuteymi og Þóru Karítas Árnadóttur, heimsótti nýverið Malaví og kynnti sér áhrif þessa skaðlega siðar á stúlkur og malavískt samfélag. Þóra Karítas kynntist og tók viðtöl við stúlkur sem hafa verið þvingaðar í hjónaband á barnsaldri og verða sex stuttar heimildarmyndir frá heimsókn UN Women á Íslandi frumsýndar í þættinum. Þess má geta að Alvogen og Alvotech á Íslandi gerði UN Women á Íslandi kleift að heimsækja Malaví.

Kynnar á RÚV eru Eva María Jónsdóttir og Guðmundur Pálsson ásamt Björgu Magnúsdóttur og Atla Má Steinarssyni, sem stýra útsendingu í símaveri Símans.

Ilmur Kristjánsdóttir og Katla Margrét Þorgeirsdóttir eru handritshöfundar grínsins sem Dögg Mósesdóttir leikstýrir. En þess má geta að Páll Óskar lætur sig ekki vanta í þáttinn, ekki frekar en GDRN, Lay Low og Raggi Bjarna og Emilíana Torrini.

Eliza Reid, Unnsteinn Manúel, Íris Björg Stefánsdóttir sérfræðingur UN Women í Tyrklandi eru meðal þeirra sem fram koma í þættinum ásamt Bergi Ebba, Sveppa, Katrínu Halldóru Sigurðardóttur og fjölda annarra.

Ekki missa af Stúlka ekki brúður – Landssöfnun UN Women á Rúv föstudaginn 1. nóv. Kl.19.45.

Related Posts