Þróunarsamvinna ber ávöxt

Home / Fréttir / Þróunarsamvinna ber ávöxt

Stella Samúelsdóttir, framkvæmdastýra UN Women á Íslandi, flutti erindi á málstofu sem setti átakið Þróunarsamvinna ber ávöxt í vikunni. Öll helstu íslensku félagssamtökin í mannúðarstarfi og alþjóðlegri þróunarsamvinnu standa að átakinu, meðal annars UN Women á Íslandi en Stella talaði fyrir þeirra hönd.  Markmið átaksins er að hvetja fyrirtæki, stór sem smá, til að taka þátt í þróunarsamvinnu og vinna þannig markvisst að framgangi heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun.

Í nýrri skýrslu Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun og framgang heimsmarkmiðanna segir að heimurinn sé ekki á góðri leið með að tryggja velsæld og útrýma fátækt á jörðinni fyrir árið 2030. „Við vitum að ef við ætlum að ná raunverulegum árangri þurfum við öll að leggja okkar af mörkum. Það er ekki lengur hægt að stóla einungis á það að ríki standi sig, við þurfum öll að leggjast á eitt, og þar koma fyrirtækin sterk inn,“ sagði Stella í ræðu sinni.

Konur og stúlkur um allan heim hafa notið góðs af samstarfi íslenskra fyrirtækja við UN Women. Gott dæmi um það er samstarfsverkefni okkar hjá UN Women á Íslandi með Vodafone sem hefur fjármagnað framleiðslu á herferð Fokk Ofbeldi húfunnar undanfarin ár. Þá var í vor gerður fjögurra ára samstarfssamning milli Rafiðnaðarsambands Íslands og UN Women á Íslandi en RSÍ mun veita samtökunum fjármagn í skiptum fyrir ráðgjöf og fræðslu í sambandi við jafnréttismál og hvernig er hægt að bæta þau innan raða RSÍ.

Samstarfsmöguleikarnir eru óteljandi. Við hvetjum atvinnurekendur sem hafa áhuga á því að ræða samstarf við UN Women í einhverri mynd til að hefja samtal við okkur.

Related Posts