Sex barna einstæð móðir í eigin rekstri

Home / Fréttir / Sex barna einstæð móðir í eigin rekstri

Florence Luanda Maheshe stóð allt einu uppi slipp og snauð, vonlítil einstæð móðir eftir að flóttamannabúðunum sem hún hélt fyrir í var lokað. Fyrir tilstilli UN Women fékk hún von og kraft á ný og hóf eigin rekstur. Í dag sér hún fyrir níu manna fjölskyldu.

Óeirðir höfðu brotist út í þorpi hennar Ufamundu í Austur-Kongó. Eiginmaður hennar hafði yfirgefið hana stuttu áður svo hún flúði ein ásamt sex börnum þeirra í flóttamannabúðir nálægt höfuðborginni Goma. Þegar búðunum var lokað stóð hún uppi ein án alls stuðnings.

„Á flóttanum frá þorpinu okkar yfir í flóttamannabúðirnar urðum við fyrir hrottalegu ofbeldi. Á leiðinni mættum við flokki vopnaðra hermanna sem nauðguðu dóttur minni, hún var 18 ára. Mánuði síðar þegar við komum í búðirnar var annarri dóttur minni nauðgað er hún safnaði eldiviði í skóginum sem umkringir búðirnar. Hún var 14 ára,“ segir Florence.

„Lífið í flóttamannabúðunum var aldrei auðvelt. Mér reyndist mjög erfitt að fæða alla þessa munna, sex unglinga og sjálfa mig. Dætrum mínum tveimur sem hafði verið nauðgað, voru þá orðnar óléttar. Þetta var hræðilega erfiður tími,“ segir Florence.

Brátt lærði hún að vefa körfur sem hún seldi einu sinni í viku á markaði búðanna. Þannig náði hún að koma mat á borðið, sem dugði þó aldrei öllum. Að endingu fór svo að yfirvöld ákváðu að loka flóttamannabúðunum. „Á þeim tímapunkti fylltist ég algjöru vonleysi. Eftir að hafa flúið átökin heima með öll börnin mín, horft upp á kynferðislegt ofbeldi gagnvart dætrum mínum og horft í hungruð augu barna minna þá gat ég ekki meir. En einmitt þá bauðst mér sú aðstoð sem bjargaði lífum okkar!“

Fyrir tilstilli UN Women var Florence úthlutaður landskiki þar sem hún gat ræktað korn. Andvirði fyrstu uppskerunnar voru um 15 þúsund íslenskra króna sem gerði henni kleift að senda dætur sínar í skóla og kaupa efni í fleiri körfur. Áður en langt um leið veittu samtökin Florence lán til að auka umsvifin í körfugerðinni auk þess sem hún fékk stærra ræktunarland, í ljósi þess hve vel ræktunin gekk. Í dag gengur kornræktin og reksturinn eins og í sögu, hún selur núorðið 500 kílóa poka af korni og fær um 30 þúsund krónur fyrir hvern.

„Nú get ég brauðfætt alla munnana á mínu heimili. Börnin mín og barnabörn fá tvær heitar máltíðir á dag og ég get sent öll börnin mín í skóla. Mig óraði aldrei fyrir því að komast á þennan stað lífinu. Við erum glöð og horfum björtum augum til framtíðar.“

Þú getur styrkt konur eins og Florence með því að gerast mánaðarlegur styrktaraðili UN Women.

Related Posts