Önnur hver kona í Malaví hefur verið gift fyrir 18 ára aldur

Home / Fréttir / Önnur hver kona í Malaví hefur verið gift fyrir 18 ára aldur

UN Women á Íslandi hvetur almenning til að taka þátt í að uppræta barnahjónabönd í Malaví með því að senda sms-ið KONUR í 1900 (1.000 kr.) í tilefni af mæðradeginum, 14. maí.

„Önnur hver stúlka í Malaví hefur verið gift fyrir 18 ára aldur og ein af hverjum átta hefur verið gift fyrir 15 ára aldur. Algengt er að allt niður í 12 ára gamlar stúlkur eigi barn auk þess sem algengt er að 15 ára gamlar stelpur séu orðnar tveggja barna mæður. Tíðni barnahjónabanda í Malaví er með þeim hærri í heiminum. Auk þess sem mæðradauði táningsstúlkna er gríðarlegt vandamál í Malaví,“ segir Hanna Eiríksdóttir, starfandi framkvæmdastýra UN Women á Íslandi.

Nú í febrúar 2017 var veigamikið jafnréttisskref stigið til fulls í Malaví þegar þegar lögræðisaldur var hækkaður úr 15 í 18 ár. En árið 2015 var lagabreyting sem kveður á um hækkun giftingaraldurs stelpna og stráka úr 15 í 18 ár samþykkt og fyrir vikið barnabrúðkaup bönnuð. Síðastliðin tvö ár hefur því verið auðvelt að komast framhjá lögunum þar sem lögræðisaldurinn var enn 15 ár.

UN Women ásamt öðrum stofnunum gegndu lykilhlutverki í að tala eindregið fyrir þessu nauðsynlega skrefi. „Lagabreytingin er stór sigur en nú er gríðarlega mikilvægt að veita almenningi, kennurum og foreldrum í Malaví fræðslu og vekja til vitundar um alvarlegar afleiðingar þessa skaðlega siðar og framfylgja lögum,“ segir Hanna. UN Women veitir 300 héraðshöfðingjum í Malaví fjárhagslega og tæknilega aðstoð við að binda endi á barnahjónabönd. UN Women styrkir bæði héraðs- og þorpshöfðingja til að leiða baráttuna gegn barnahjónaböndum og tryggja að nýlegum lagabreytingum sé framfylgt alls staðar í bæjum og til sveita. Undanfarin sex ár hefur t.a.m. einn héraðshöfðinginn látið ógilda 1500 barnahjónabönd.

Rannsóknir sýna að þessi óhugnanlegi siður hefur varanleg og skaðleg áhrif á stöðu og heilsu ungra stúlkna. Oftast hætta þær námi, missa af tækifærinu til verða sjálfstæðar konur og koma sér út úr fátækt. Samkvæmt Alþjóða heilbrigðisstofnun eru barnungar stelpur í hjónabandi líklegri til að verða fyrir heimilisofbeldi, eiga í hættu á að fá lífshættulega fylgikvilla á meðgöngu og eignast oft og tíðum barnungar börn. Þessi óhugnanlegi siður viðheldur bæði fátækt og ofbeldi.

„Góðir hlutir gerast hægt en með fræðslu og vitundarvakningu má útrýma þessum skaðlega og óhugnanlega sið en til þess þarf aukið fjármagn“, segir Hanna og hvetur almenning til að leggja átakinu lið með því að senda sms-ið KONUR í 1900 og gefa 1000 krónur.

Vissir þú að?

  • Önnur hver kona í Malaví hefur verið gift fyrir 18 ára aldur
  • 1 af hverjum 8 stúlkum í Malaví hafa verið giftar fyrir 15 ára aldur
  • Mæðradauði og fylgikvillar á meðgöngu eru önnur helsta dánarorsök kvenna á aldrinum 15-19 ára á heimsvísu
  • Yfir 67 milljónir stúlkna hafa verið giftar fyrir 18 ára aldur þrátt fyrir að hjúskaparlög kveði á um lágmarksaldur.
  • 700 milljónir núlifandi kvenna hafa verið giftar fyrir 18 ára aldur
  • Börn sem eiga mæður sem kunna að lesa eru líklegri til að lifa yfir 5 ára aldur

Þeir sem geta ekki sent sms úr símanum sínum geta lagt 1.000 kr. inn á reikning 0101-05-268086 kt. 551090-2489.

Related Posts