fbpx

Draumurinn að verða lögga

Heim / Fréttir / Draumurinn að verða lögga

Liðsforinginn Wafa Sharqawi gekk til liðs við palestínsku lögregluna árið 1997, ein fyrst kvenna og þvert á öll norm. Eini fjölskyldumeðlimurinn sem studdi þessa ákvörðun hennar var bróðir hennar, sem síðar fylgdi í fótspor hennar. Í dag er hún hátt sett innan palestínsku lögreglunnar og starfar náið með UN Women við að bæta, endurmóta og kynja lögregluþjónustu í Palestínu. Kynjajafnrétti er orðinn forgangsmálaflokkur innan lögreglunnar og viðhorf til lögreglukvenna í Palestínu eru að breytast hratt til hins betra.

„Ertu búin að missa vitið? – voru viðbrögðin sem ég fékk frá vinum og fjölskyldu þegar ég ákvað að segja upp starfi mínu sem kennari í flóttamannabúðunum sem ég bjó í og ganga til liðs við palestínsku lögregluna,“ segir Sharqawi.

Sharqawi bjó í Al Amari flóttamannabúðunum nálægt borginni Ramallah á þessum tíma. „Það var ekki bara óvenjulegt að kona gengi til liðs við lögregluna, sem samanstóð nánast eingöngu af körlum, heldur bar almenningar ekki traust til lögreglunnar á þessum tíma. Ég neitaði að taka skrifstofustarfi fyrstu og ákvað frekar að verða fyrirmynd fyrir aðrar konur og gegna starfi sem var mikil áskorun, að leiða endurhæfingarstöð fyrir fíkla og glæpamenn í Ramallah.“

Nú um tuttugu árum síðar er viðhorf til kvenna innan lögreglunnar að breytast. Konur eru orðnar 3,5% lögreglunnar í Palestínu og átján konur eru í stjórnunarstöðum innan lögreglunnar. Það er öflug jafnréttisdeild innan lögreglunnar sem fylgir kynjamiðaðri fjölskyldustefnu.

„Aukin þátttaka kvenna í palestínsku lögreglunni hefur aukið trúverðugleika og traust til lögreglunnar auk þess sem samskiptin við borgara hafa batnað og eflst. Ég vil sjá fleiri konur ganga til liðs við lögregluna svo að lögreglan þjóni öllum borgurum jafnt óháð kyni,“ segir Sharqawi sem hvetur allar konur til að ganga í lögguna sem hún segir vera mjög áhugavert starf.

Saga Sharqawi sýnir fram á mikilvægi þess að konur taki sér pláss og leiðtogahlutverk innan lögreglunnar. Þannig má byggja upp skilvirkar og áreiðanlegar stofnanir innan samfélaga sem þjóna öllum borgurum vel, óháð kyni.

Mynd: UN Women/Cindy Thai Thien Nghia

Related Posts