Nýtt kvennaathvarf í Palestínu

Home / Fréttir / Nýtt kvennaathvarf í Palestínu

Athvarfið hefur breytt lífi Sana Ali

„Ég var gengin sjö mánuði á leið þegar ég flúði heimilið ásamt þriggja ára syni mínum. Þá var eiginmaður minn búinn að beita mig grófu líkamlegu og andlegu ofbeldi alla meðgönguna og gott betur,“ segir hin 23ja ára gamla Sana Ali sem fann skjól í nýstofnuðu kvennaathvarfi í Ramallah þar sem boðið er upp á alhliða aðhlynningu fyrir þolendur ofbeldis. Þremur árum áður hafði hún fætt son sinn í kvennaathvarfi styrkt af UN Women í Betlehem. Þar dvaldi hún fyrsta ár sonar síns – áður en hún treysti sér til að flytja aftur heim.

„Nýja kvennaathvarfið í Ramallah á Vesturbakkanum er ólíkt öðrum athvörfum – þar er að finna alla þá aðstoð sem konur og unglingsstelpur þurfa í kjölfar ofbeldis líkt og læknisskoðun, lagalega ráðgjöf, sálfræðiaðstoð, tilvísanir fyrir langtíma búsetuúrræði og vernd lögreglu. Þar er meira að segja leikherbergi fyrir börn, þar sem sonur minn leikur sér.“

Athvarfið er opið allan sólarhringinn allan ársins hring. UN Women lagði línur við hönnun og aðkomu athvarfsins með tilliti til þarfa kvenna og stúlkna. Eingöngu konur starfa við móttöku athvarfsins, þar er bakinngangur til að tryggja friðhelgi einkalífs ásamt sérinnréttuðu barnaherbergi fyrir börn þolenda.

„Ofbeldi gegn konum er mjög algengt í Palestínu. Þegar þær leita eftir aðstoð frá fjölskyldum sínum er þeim oft hafnað vegna íhaldssamra hugmynda og samfélagslegra gilda. Með því að setja alla þjónustu og aðhlynningu sem þolendur þurfa undir eitt þak er einkalíf þeirra verndað og þær þurfa ekki að segja sögu sína síendurtekið innan kerfisins,“ segir Abla Fazaa starfskona athvarfsins.

Síðan athvarfið opnaði í apríl 2017 hafa 400 konur og stúlkur notið góðs af athvarfinu. Þær konur sem notið hafa góðs af þjónustu athvarfsins segjast upplifa öryggi, vernd og valdeflingu á staðnum.

„Um leið og ég stíg fæti inn í athvarfið veit ég að ég er örugg,“ segir Sana Ali sem sækir athvarfið reglulega. Eiginmaður hennar beitir hana ofbeldi. En í kjölfar þeirrar lagalegu ráðgjöf sem hún hefur hlotið í athvarfinu – hefur hún loks kært eiginmann sinn fyrir heimilisofbeldi. „Mér finnst ég loks hafa vald yfir eigin lífi. Ég treysti mér til að kæra hann því ég veit að ég hef bæði lögregluna og lögfræðing á bak við mig og get dvalið í athvarfinu. Fullt af vinkonum mínum búa við heimilisofbeldi. Nú hef ég sýnt gott fordæmi og ætla að hvetja þær til að taka völdin í eigin lífi – opna sig og fá aðstoð.“

Með því að gerast mánaðarlegu styrktaraðili UN Women á Íslandi styður þú við bak kvenna eins og Sana Ali og gerir þeim kleift að lifa lífi án ofbeldis.

Related Posts
Hvatningarverdlaun