fbpx

Ljósagangan 2022: „Konur eru að berjast fyrir mannréttindum, óháð kyni“

Heim / Fréttir / Ljósagangan 2022: „Konur eru að berjast fyrir mannréttindum, óháð kyni“
Zahra Mesbah, Ljósaganga 2022. Mynd/Heiðrún Fivelstad

Zahra Mesbah, frá Afganistan, flytur erindi fyrir Ljósagönguna 2022. Mynd/Heiðrún Fivelstad

Ljósaganga UN Women á Íslandi fór fram föstudaginn 25. nóvember. Yf­ir­skrift Ljósa­göng­unn­ar í ár var Konur, líf, frelsi, sem er jafnframt slagorð mótmælanna sem staðið hafa yfir í Íran í tæpa þrja mánuði. Zahra Mesbah frá Afganistan leiddi gönguna í ár ásamt Zhoreh Aria frá Íran og Stellu Samúelsdóttur, framkvæmdastýru UN Women á Íslandi.

Hér að neðan má lesa ræðuna sem Zahra flutti við upphafi Ljósagöngunnar.

„Eins og mörg ykkar vita er ég frá Afganistan, en er fædd og uppalin í Íran. Þessu fylgja skrýtnar tilfinningar og þegar ég hef deilt efni um ástandið í Íran, spyrja afganskir vinir mínir af hverju ég sé að vekja athygli á þeirra málstað þegar ég sé ekki írönsk.

Íranskir vinir mínir telja mig aftur á móti íranska. En það sem fólk þarf að sjá og skilja er að á undan þjóðerni kemur sú staðreynd að ég er manneskja og engin manneskja getur horft upp á þessa glæpi og verið áfram þögul!

Konurnar í báðum löndum, Íran og Afganistan, hafa alltaf þurft að berjast fyrir réttindum sínum. En í stað þess að hljóta réttindi, hafa þau verið hrifsuð af þeim! Þetta á sérstaklega við konur í Afganistan, en þar er vonin um að endurheimta landið enn minni en í Íran.

Konur í Afganistan réttindalausar

Eftir að hafa búið við stríð í langan tíma vorum við bjartsýnar fyrir framtíð Afganistans því konur og stúlkur höfðu hlotið menntun og við trúum því að það séu konur sem skapi framtíð lands, þar sem þær fæða drengina, ala þá upp og kenna þeim að vera góð og meðvituð manneskja. En án fyrirvara misstum við allt sem við höfðum áorkað. Við misstum ekki aðeins réttinn til menntunar, heldur einnig öll önnur réttindi. Konur í Afganistan eru réttindalausar. Ég endurtek: Réttindalausar!!!

Í fréttum las ég að nú er meira að segja bannað að selja símkort til kvenna, sem er ekki aðeins kjánalegt heldur heimskulegt.

Ríkisstjórnur Afganistan og Íran, sem stýrðar eru af frummönnum, myrða konur og börn, en þrátt fyrir það flykkist fólk enn á götur út og mætir talíbönum og írönskum hersveitum af hugrekki og kallar eftir mannréttindum. Þau eru innblástur fyrir allar konur heimsins!!

 

Hvaða meiningu hefur „frelsi“

Við vitum að þetta snýst ekki aðeins um hijab eða slæður, heldur eru konur að berjast fyrir mannréttindum, óháð kyni. Það að fá að klæða sig eins og fólk vill eru mannréttindi og enginn hefur réttinn til að ákveða slíkt fyrir konur. Þegar maður sér ríkisstjórnir ákvarða klæðaburð fólks, þá er ekki hægt að búast við því að sú stjórn virði jafnrétti eða annan rétt fólks.

Fólk krefst frelsis, en hvaða meiningu hefur þetta „frelsi“ sem við berjumst öll fyrir? Frelsi þýðir að við berum virðingu fyrir hverju öðru, óháð trú og skoðunum! Ef við höldum því fram að við ein höfum rétt fyrir okkur, þá högum við okkur alveg eins og íslömsku einræðisstjórnirnar eru að gera!

Sem múslimi trúi ég því að talíbanar, sem kalla sig íslamska furstadæmið, og íslamska stjórnin í Íran séu smánarblettur á íslamska trú, því þeir gera trúna að stjórnunartæki og með því að blanda saman stjórnmálum og trú, fá þeir fólk til að hatast út í íslam. Trúarlegar aftökur eru klár mannréttindabrot og fyrir mér eru þessir morðingjar án trúar og án mennsku.

Við konur munum halda áfram að berjast fyrir réttindum okkar og trúa því að grimmd þeirra muni ekki endast. Þangað til sá dagur kemur að við fögnum sigri, verður þetta slagorð okkar:

„Kona, líf, frelsi!“

Related Posts
Zoreh Aria, Íran, Ljósaganga 2022Fæðingadeild, Úkraína, stríð