fbpx

Kynbundið ofbeldi innan íþróttaheimsins vangreint vandamál

Heim / Fréttir / Kynbundið ofbeldi innan íþróttaheimsins vangreint vandamál

UN Women og FIFA tóku höndum saman í kringum heimsmeistaramót kvenna í fótbolta sumarið 2023.

Ný handbók unnin af UN Women og UNESCO, með styrk frá íslenskum og áströlskum stjórnvöldum, fjallar á greinargóðan hátt um kynbundið ofbeldi og áreitni innan íþrótta. Handbókin kemur jafnframt með tillögur um hvernig megi uppræta kynbundið ofbeldi innan íþrótta og styðja betur við þolendur.

  • 21% atvinnukvenna í íþróttum urðu fyrir kynferðislegu ofbeldi sem barn í íþróttum. Þetta er tvöfalt hærra hlutfall en meðal atvinnumanna í íþróttum
  • Fatlaðar íþróttakonur eru þrefalt líklegri til að verða fyrir ofbeldi en ófatlaðar íþróttakonur.
  • Tilkynningum um heimilisofbeldi fjölgar samhliða stórum íþróttaviðburðum á borð við heimsmeistaramótið í fótbolta
  • Íþróttakonur treysta sér ekki til að tilkynna ofbeldi af ótta við að þeim verði refsað og það hafi áhrif á íþróttaferil þeirra

Tengsl á milli stórmóta og heimilisofbeldis

Kynbundið ofbeldi er eitt stærsta og víðtækasta mannréttindabrot sem á sér stað í heiminum í dag. Ein af hverjum þremur konum í heiminum hefur upplifað kynbundið ofbeldi einhvern tímann á lífsleiðinni. Alþjóðabankinn áætlar að kostnaðurinn sem hlýst af kynbundnu ofbeldi sé um 3,7% af vergri framleiðslu þjóðríkja  – upphæð sem samsvarar því fjármagni sem flest ríki eyða í grunnmenntun.

Handbók UN Women og UNESCO er yfir 100 blaðsíður að lengd og mjög ítarleg. Þar kemur fram að innan íþrótta ríkir víða gróft kynjamisrétti og úreld viðhorf í garð kvenna og stúlkna fá að viðgangast óáreitt. Ójöfn dreifing valds og fjármagns er einnig við lýði, þar sem karlar skipa flestar stjórnunarstöður og íþróttamenn hljóta hærri laun og æfa við betri aðstæður en íþróttakonur.

Handbókin leiðir í ljós að um 21 prósent atvinnukvenna í íþróttum hafa upplifað kynferðislegt ofbeldi á barnsaldri í gegnum íþróttaiðkun sína  – þetta er tvöfalt hærra hlutfall en á meðal atvinnumanna í íþróttum. Þá kemur fram að tilkynningum um heimilisofbeldi fjölgar þegar stórir íþróttaviðburðir á borð við heimsmeistaramótið í fótbolta fara fram. Í sumum ríkjum fjölgar tilkynningum um allt að þriðjung.

Gömul viðhorf skaðleg öllum

Í handbókinni kemur fram að í sumum íþróttum er skaðlegum og neikvæðum staðalímyndum um karlmennsku haldið við. Þannig læri ungir drengir í gegnum íþróttaiðkun sína að bæla ákveðnar tilfinningar en sýna þess í stað hörku og árásargirni. Margir íþróttamenn ólust upp við slík viðhorf og taka nú sjálfir þátt í að viðhalda þeim, þá einkum og sér í karllægum hópíþróttum á borð við fótbolta og bandarískan ruðning.

Höfundar skýrslunnar segja að samanborið við karla séu konur í íþróttum álitnar annars flokks: þær fá lægri laun, æfa við verri aðstæður og takmarkaðri mannauð og hljóta lægri upphæðir í verðlaunafé en karlmenn á stórviðburðum á borð við heimsmeistaramótið í fótbolta. Þá mætir hinsegin íþróttafólk, svart íþróttafólk og fatlað íþróttafólk enn meiri mismunun og fordómum. Fatlaðar íþróttakonur eru til að mynda þrefalt líklegri til að verða fyrir kynbundnu ofbeldi en ófatlaðar íþróttakonur.


Óttast að þeim verði refsað

Kynbundið ofbeldi í íþróttum á sér stað um allan heim og í öllum íþróttagreinum. Gerendur geta verið annað íþróttafólk, þjálfarar eða starfsfólk íþróttaliða (framkvæmdastjórar, læknar og sjúkraþjálfarar). Samkvæmt UN Women og UNESCO er kynbundið ofbeldi innan íþróttaheimsins vangreint vandamál því þolendur veigra sér við að tilkynna ofbeldið af ótta við refsiaðgerðir af hendi geranda.

Þrátt fyrir þetta eru íþróttir kjörinn vettvangur til að efla kynjajafnrétti, að sögn UN Women og UNESCO. Rannsóknir sem framkvæmdar voru í Bandaríkjunum árið 2020 sýndu að með íþróttum megi ná til stórs hóps karlmanna; 75% allra karlmanna 18 ára og eldri skilgreina sig sem íþróttaáhugamann, samanborið við 53% kvenna.  Miðað við þetta háa hlutfall fólks sem horfir á atvinnuíþróttir og svo þeirra sem leggja stund á íþróttaiðkun er ljóst að hægt er að ná til mikils fjölda fólks í gegnum íþróttir og stuðla þannig að vitundarvakningu og breytingum í þágu jafnréttis.

UN Women og UNESCO benda jafnframt á hið mikilvæga hlutverk sem fjölmiðlar gegna í baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi innan íþrótta. Fjölmiðar hafa afhjúpað mörg slík mál og fjallað um þau af fagmennsku. UN Women og UNESCO hvetja fjölmiðla til þess að halda áfram að fjalla um slík mál en að gera það á forsendum þolenda.

Related Posts