Konur bera byrðina af ólaunuðum umönnununarstörfum

Home / Fréttir / Konur bera byrðina af ólaunuðum umönnununarstörfum

Í miðri þriðju bylgju COVID-19 á Íslandi þykir okkur við hæfi að fjalla um ólaunað vinnuframlag kvenna til umönnunar og heimilisstarfa. Um allan heim hvílir sú ábyrgð helst á herðum kvenna og fer vaxandi á tímum heimsfaraldursins.

Covid-19 hefur aukið verulega á kynjamisrétti í heiminum, þá sérstaklega með tilliti til heimilis- og umönnunarstarfa. Álagið á konur og stúlkur hefur aukist gríðarlega og kemur til með að hafa slæm langtímaáhrif á heilsufar þeirra, andlega líðan og efnahagsstöðu.

Skortur hefur verið á gögnum sem gera skýra grein fyrir þessu ójafnvægi. Í nýlegri rannsókn UN Women og Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO) má sjá hvernig heimilis- og umönnunarstörfum er ráðstafað hjá mismunandi fjölskyldugerðum, en álagið er mest hjá einstæðum mæðrum. Tölurnar sýna að hæsta hlutfall einstæðra mæðra sem sjá fyrir fjölskyldum sínum er í Suður-Ameríku og Karabíska hafinu. UN Women er til staðar fyrir konur og stúlkur og vinnur að því að brúa þetta bil eftir ýmsum leiðum.

  • Í Karabíska hafinu aðstoðar UN Women ríki við að flétta saman félagslega vernd á borð við félagsþjónustu og ríkisstyrki á áhrifaríkan hátt svo hægt sé að efla konur efnahagslega og dreifa álaginu innan heimilisins.
  • UN Women stendur fyrir verkefni í samstarfi við stjórnvöld í Gvatemala sem snýr að því að skapa atvinnu fyrir konur. Með samstarfinu er leitast við að fjarlægja hindranir sem konur standa fyrir á vinnumarkaði og gera þeim kleift að afla sér tekna, en þegar konur eru virkir þátttakendur í hagkerfinu minnkar álagið á þær heima fyrir.
  • Konur í Mexíkó eyða að meðaltali 39 klukkustundum á viku í ólaunuð störf – þrisvar sinnum meira en karlar. Eftir að COVID-19 faraldurinn hófst hefur óhófleg ábyrgð kvenna á ólaunuðum umönnunarstörfum aukist. Í samstarfi við yfirvöld í Mexíkó stendur UN Women fyrir vitundarvakningarátaki til að varpa ljósi á þungar afleiðingar sem heimsfaraldurinn hefur haft í för með sér fyrir konur.

UN Women vinnur með ríkjum um allan heim við að afla gagna sem gefa skýra mynd af byrðinni sem konur bera af ólaunuðum umönnunarstörfum. Slíkt stöðumat er grunnforsenda þess að hægt verði að móta aðgerðir til að koma á jafnrétti innan heimila.

Höfundur greinar er Jóhanna Pétursdóttir, starfsnemi hjá UN Women á Íslandi frá Háskólanum í Gautaborg.

TAKTU PRÓFIÐ

Hversu mörgum árum af ævi þinni eyðir þú í ólaunuð heimilisstörf?

Related Posts