Ófriðurinn heima

Home / Fréttir / Ófriðurinn heima

Hverjar eru birtingarmyndir kynbundins ofbeldis? Hverjir eru gerendur og hvernig er hægt að stuðla að opinskárri umræðu við þá? Ríkir friður inni á íslenskum heimilum?

Leitað er svara við þessum og fleiri spurningum í 2. þætti Friðarvarpsins Ófriðurinn heima sem við hjá UN Women á Íslandi unnum í samstarfi við Alþjóðamálastofnun í tilefni af Friðarviku Höfða Friðarseturs.

Í þættinum ræðir Margrét Marteinsdóttir við Stellu Samúelsdóttur, framkvæmdastýruna okkar hjá UN Women, Örnu Hauksdóttur og Unni Valdimarsdóttur, prófessora við Háskóla Íslands og rannsakendur Áfallasögu kvenna og Drífu Jónasdóttur, afbrotafræðing og doktorsnema við Læknadeild Háskóla Íslands. Í lok þáttar heyrum við brot úr pistli eftir Phumzile Mlambo Ngcuka, framkvæmdastýru UN Women.

Þátturinn er hluti af Friðardögum í Reykjavík 2020: Er friðurinn úti? sem haldnir eru á vegum Höfða friðarseturs Reykjavíkurborgar og Háskóla Íslands, í samstarfi við UNICEF á Íslandi, UN Women á Íslandi, Félag Sameinuðu þjóðanna og utanríkisráðuneytið.

Í tilefni af samstarfinu fengum við hjá UN Women á Íslandi, Phumzile Mlambo Ngcuka, framkvæmdastýru UN Women,  til að skrifa grein í tengslum við friðardaga í Reykjavík.

„Um allan heim hafa um 243 milljónir kvenna og stúlkna á aldrinum 15-49 ára þurft að þola ofbeldi af hálfu maka, á undanförnum tólf mánuðum. Margar konur og stúlkur eru einangraðar og bundnar heima með ofbeldismönnum sínum vegna samkomubanna og útgöngubanna. Á sama tíma er fjármagni beint frá nauðsynlegri stoðþjónustu á borð við kvennaathvörf og neyðarlínur. Nýjustu úttektir benda til þess að þrír mánuðir af útgöngubanni þýði að 15 milljónir kvenna og stúlkna til viðbótar verði beittar kynbundnu ofbeldi.“

Hér má lesa greinina í heild sinni.

Related Posts