Konum er kalt í Mosul

Home / Fréttir / Konum er kalt í Mosul

hlyteppi_mosul„Ég er svo þakklát fyrir teppin, nú get ég hlýjað mér og barnabörnunum mínum á nóttunni,“ segir ónefnd kona sem lagði á flótta frá Mosul í síðastliðnum mánuði.

UN Women í Írak dreifði auka þrjú þúsund þykkum teppum til kvenna og barna þeirra í flóttamannabúðum austur af Mosul nú fyrir helgi. Veður kólnaði snögglega og kvörtuðu konur í búðunum sérstaklega undan næturfrosti. Enn geysa hörð átök í Mosul, fyrrum helsta vígi vígasveita íslamska ríkisins í Írak. Um miðjan október síðastliðinn réðust íraskar öryggissveitir ásamt hersveitum Kúrda inn í Mosúl með það að markmiði að ná borginni úr höndum ISIS. Nýjustu tölur herma að 85 þúsund manns hafi nú þegar flúið borgina og virðist talan því miður eiga eftir að hækka næstu daga miðað við hið skelfilegt ástand sem ríkir í borginni.

UN Women dreifir sæmdarsettum til kvenna og stúlkna í Mosul og kring sem innihalda meðal annars þykk teppi en undanfarna tvo mánuði hefur UN Women nú þegar dreift 20 þúsund sæmdarsettum til kvenna og stelpna, þökk sé meðal annars neyðarsöfnunar landsnefndar UN Women á Íslandi og rausnarlegra framlaga almennings á Íslandi sem studdi dyggilega við átakið. Sæmdarsettin innihalda dömubindi, sápu, tannbursta, tannkrem, hlý teppi, barnaföt, tvo pakka af bleium, uppþvottasápu, handklæði og vasaljós.

Dr. Paulina Chiwangu starfandi svæðisstýra UN Women í Írak segir sæmdarsettin gera konum á flótta í Mosul og kring kleift að viðhalda sjálfsvirðingu sinni og reisn. „Eins verð ég að minnast á að í ljósi þess að alþjóðlegu 16 daga átaki gegn kynbundnu ofbeldi var að ljúka, þá vil ég minnast allra þeirra kvenna sem misst hafa lífið og fagna innilega öllum þeim konum sem lifðu af gróft ofbeldi vígasveita íslamska ríkisins. Þessar konur eru sannar hetjur. Eins vil ég þakka öllum þeim styrktaraðilum um allan heim sem gera UN Women kleift að dreifa sæmdarsettum áfram í Írak. Neyðin er mikil.“

UN Women á Íslandi safnar nú fyrir dreifingu sæmdarsetta í Írak með sölu á jólagjöf UN Women. Jólagjöf UN Women er táknræn gjöf og um leið  jólaskraut sem veitir ljós. Um er að ræða blað sem er brotið í þrennt og myndar eins konar tjald sem stendur. Inni í tjaldinu er stuttur texti um gjöfina, pláss fyrir persónulega kveðju og lítið ljósprik (glowstick) sem veitir birtu. Ljósið táknar þá von og þann kraft sem gjöfin veitir. Ein jólagjöf er andvirði sæmdarsetts fyrir konu á flótta í Írak.

Veittu konum í Írak hlýju og von.

Related Posts