fbpx

Fyrsta frumbyggjakonan sem verður bæjarstjóri

Heim / Fréttir / Fyrsta frumbyggjakonan sem verður bæjarstjóri

UN Women stendur fyrir leiðtogaþjálfun sem valdeflir konur til áhrifa í stjórnmálum í Gvatemala með það fyrir markmiði að stuðla að uppbyggingu friðar í landinu. Ein af þeim sem notið hefur góðs af því verkefni er Irlanda Pop, bæjarstýra Lanquín en hún er eina frumbyggjakonan sem gegnir því embætti þar í landi.

„Ég er fædd og uppalin í þessum bæ og þegar ég varð 18 ára gekk ég inn á bæjarskrifstofuna til að fá persónuleg skilríki. Ég beið í heilan dag en ráðandi þjóðflokkur viðurkenndi ekki tilvist fólks af mínum uppruna. Þann dag tók ég ákvörðun um að ég myndi einn daginn verða fulltrúi míns ættbálks á vettvangi stjórnmála.“

Frá því að Irlanda bauð sig fram árið 2015 hefur hún þurft að þola alvarlegar pólitískar árásir vegna kyns síns og uppruna. „Engri konu í sögu sveitarfélagsins hafði látið sér detta í hug að bjóða sig fram. Allir sögðu að það væri ómögulegt fyrir mig að sigra kosningar, þar sem ég væri ógift og barnlaus frumbyggjakona. Ég hef þurft að þola árásir af ýmsum toga. Pólitískir andstæðingar mínir sögðu að ég gæti ekki stjórnað vegna þess að ég væri kona. Ég var sögð vera samkynhneigð og að ég hataði karlmenn, fólk var beðið um að kjósa mig ekki og samfélagsmiðlar voru notaðir til að dreifa óhróðri um mig.“

Þrátt fyrir það bar Irlanda sigur úr býtum. Fólkið vildi breytingar. „Þegar ég hóf kjörtímabil mitt sem borgarstýra í janúar 2016 stóðu yfir svæðisdeilur sem ég reyndi að leysa. Þann 8. febrúar ruddust vopnaðir menn með sveðjur inn á skrifstofuna mína. Samstarfsmaður minn þurfti að ýta mér út um gluggann svo ég gæti flúið. Ég slasaðist og var flutt á spítala. Þegar ég snéri aftur til starfa mánuði síðar reyndu þeir að skjóta mig.“

En Irlanda lætur ekkert stöðva sig. Áður en hún varð borgarstýra var ekkert frárennsli eða neysluvatn að finna í bænum en í dag vinnur hún að því að tryggja öllum íbúum aðgang að vatni. Einnig vinnur hún mikilvægt starf í þágu kvenna í samfélaginu, fræðir þær um réttindi sín og hvetur þær til dáða. „Vegna fordæmisins sem ég hef sett eru eiginmenn í auknum mæli farnir að leyfa konum sínum að taka virkan þátt í bæjarpólítíkinni. Stúlkur og ungar konur eru framtíð Gvatemala. Þær geta gert hvað sem er ef þær setja sér markmið og vinna að þeim.“

Þú getur stutt við konur eins og Irlanda með því að gerast mánaðarlegur styrktaraðili UN Women á Íslandi.

Related Posts