„Hlaup er besta geðlyf í heimi“

Home / Fréttir / „Hlaup er besta geðlyf í heimi“

Elísabet Margeirsdóttir, afrekshlaupari og næringarfræðingur, tók fyrst þátt í Reykjavíkurmaraþoninu árið 2004 þegar hún var 17 ára gömul og nýfarin að hlaupa af alvöru. Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar en á árinu varð Elísabet fyrst kvenna til að klára hið 400 kílómetra langa Gobi-eyðimerkurhlaup á undir 100 klukkustundum. Elísabet deilir heilræðum fyrir þátttakendur Reykjavíkurmaraþonsins á Facebook og Instagram síðum UN Women í aðdraganda stóra dagsins en við hittum hana á dögunum og spurðum hana út í hlaupin, afrekin og stöðu kvenna innan íþrótta.

Besta geðlyf í heimi

Áhuginn á hlaupum kviknaði hjá Elísabetu þegar hún var í skólaíþróttum í MR og nemendur voru látnir þreyta hlaupapróf sem fólst í því að hlaupa tvo hringi í kring um Tjörnina. Hún komst að því að það var ekkert mál að klára á tilskildum tíma og fá 10 í einkunn þegar hún var búin að þjálfa sig upp í það og fannst það mikill sigur. „Þetta var geðveik áskorun og svo datt ég alveg inn í þetta, fékk mér hlaupaskó og fannst þetta geðveikt töff“. Síðan þá hafa hlaupin átt hug hennar og hjarta.

„Fyrir mig er þetta algjör skemmtun. Ég upplifi mikið sjálfstraust þegar ég hleyp og hef alltaf gert. Það hefur undið upp á sig í því sem ég er að gera en hlaupin hafa orðið stór partur af mér. Fyrir mér er þetta allur pakkinn; heilsuefling, áhugamál, félagsskapur, hugleiðsla, náttúruupplifun og ferðalög. Svo er þetta eitt besta geðlyf í heimi – ef það er til einhver töfralausn við vandamálum þá er það bara að fara út að hlaupa og hugsa.“

Langaði ekkert að klára

Á undanförnum 15 árum hefur Elísabet tekið þátt í óteljandi maraþonum og fjallahlaupum svo að þegar hún fékk boð um að taka þátt í Gobi-eyðimerkurhlaupinu þáði hún tækifærið með glöðu geði. En hvernig undirbýr maður sig fyrir svona þrekvirki? „Þú getur í rauninni aldrei undirbúið þig nóg, þú verður bara að vera tilbúin í þetta og treysta á það sem þú ert búin að vera að gera síðustu árin. Ég er búin að halda mér alveg heilli í ofboðslega langan tíma og það er grunnurinn að því að geta tekið þátt í svona hlaupi.“

Það kom Elísabetu á óvart hvað hún fór glöð í gegnum þetta langa og strembna hlaup. „Ég var búin að undirbúa mig fyrir svo rosalega erfiðar aðstæður þannig þetta var ekki eins hræðilegt á köflum og ég hafði ímyndað mér. Ég var aldrei að bugast, þetta hefði getað verið svo miklu erfiðara. Allt í einu voru bara sjö kílómetrar í mark og mig langaði ekkert að klára þetta. Það tók mig síðan marga daga að átta mig á því að þetta væri búið, enda var ég ennþá í svakalegri hlaupavímu“. Elísabet var fyrst kvenna í mark og náði besta tíma sem kona hefur náð í hlaupinu en var þó á engum tímapunkti sigurviss. „Það er svo margt sem hefði getað komið uppá sem hefði gert það að verkum að ég hefði þurft að hætta eða labba í mark, sem hefði ekki verið neitt gríðarlega gaman en þetta spilaðist alveg eins og ég vildi. Það var kannski það sem ég er stoltust af, hvað ég náði að undirbúa þetta vel og hvernig þetta small allt.“

Konur og íþróttir

Að mati Elísabetar eru konur að eflast mjög mikið í íþróttum og hún segir mikla jafnréttisbaráttu vera að eiga sér stað í flestum ef ekki öllum greinum. „Í þessum hlaupum sem ég er í er það þannig að keppnishaldarar fá skell ef jafnréttis er ekki gætt í umtali um íþróttafólkið, verðlaunasætin, verðlaunafé og svoleiðis. Núna verða að gilda alveg sömu reglur um alla. Það er ekkert langt síðan það var þannig að 10 fyrstu karlarnir verðlaunaðir og 5 fyrstu konurnar. Útskýringin var sú að það eru bara miklu fleiri karlar í þessu sporti. Í hlaupunum sem ég er að keppa í eru kannski bara 10-20% keppenda konur.“

En hver telur Elísabet að sé helsta ástæðan fyrir þessum mikla kynjahalla? „Við konur leyfum okkur síður eitthvað svona – að stunda svona krefjandi íþróttir. Það eru náttúrulega konurnar sem eignast börnin, eru oft helsti umönnunaraðilinn og leyfa sér ekki að fara út í svona en þær geta það alveg með rétta stuðningnum. Ég hugsa að konur fái mikið út úr því að hreyfa sig og fá þetta frí frá vinnu og heimili, taka klukkutíma fyrir sig á dag og fara út að hlaupa. Það gerir svo mikið fyrir sjálfstraustið. Þér getur liðið ömurlega og fundist allt vera ómögulegt, svo ferðu í hlaupagallann og kemur heim og þér finnst þú bara vera æðisleg. Þú breyttist ekkert, þú fórst bara út að hlaupa, en bara með því að fara aðeins út og hreyfa þig breyttirðu einhvern veginn þínu viðhorfi gagnvart sjálfri þér og öðrum í kringum þig.“

Það er ekki hægt að stytta sér leið í hlaupum

Við spurðum Elísabetu hvaða ráð hún myndi gefa byrjendum en hún segir mikilvægt að passa upp á æfingaálagið og að tapa sér ekki í keppnisskapinu. „Það er ekki hægt að stytta sér leið í hlaupum, þú verður að leggja inn alla vinnuna. Þú getur ekki bara allt í einu farið og æft á einhverjum hraða sem þú ert ekki búin að byggja upp því að þá lendirðu í meiðslum. Stoðkerfið bara höndlar ekki þennan hraða. Ég hef alveg brennt mig á því að byrja á einhverjum stað sem ég var ekki tilbúin til að byrja á. Fólk sem er að byrja að hlaupa kann í rauninni ekkert að hlaupa og byrjar yfirleitt allt of hratt. Hlaup er ekkert bara blóðbragð í munninum, það er mikilvægt að reyna að halda sér þannig að þetta sé þægilegt með því að byggja upp grunnþol með labbi og skokki. Ef þú kemur þessu í rútínuna og heldur þér við efnið ertu farinn að skokka í hálftíma áður en þú veist af og það er bara það auðveldasta í heimi.“

Við þökkum Elísabetu kærlega fyrir spjallið og minnum á að hægt er að safna áheitum fyrir UN Women með því að skrá sig á hlaupastyrkur.is eða styrkja starfið með því að heita á einhverja af hlaupurunum okkar

Related Posts