Hlaupið til góðs og glænýtt ungmennaráð

Home / Fréttir / Hlaupið til góðs og glænýtt ungmennaráð

Það var mikið um dýrðir laugardagsmorguninn 24. ágúst þegar 39 hlaupahetjur tóku á rás fyrir UN Women í Reykjavíkurmaraþoninu. Hlaupararnir okkar tóku allt frá skemmtiskokki upp í heilmaraþon en ein þeirra sem hljóp heilt maraþon fyrir hönd UN Women gerði sér lítið fyrir og var þriðja íslenskra kvenna til að komast í mark. Við óskum Andreu Hauksdóttur innilega til hamingju með þann frábæra árangur.

Einn af skemmtilegustu viðburðum ársins hjá okkur er að standa hvatningarvaktina á hliðarlínu maraþonsins en á hvatningarstöð UN Women komu saman stjórn, starfskonur og ungmennaráðsmeðlimir og hvöttu hlauparana áfram með látum og gleði. Gaman er að segja frá því að í ár söfnuðust 404.000 krónur til verkefna UN Women. Við erum innilega þakklátar öllum þeim frábæru einstaklingum sem söfnuðu áheitum fyrir okkur í ár og hjálpa okkur að bæta líf kvenna og stúlkna um allan heim.

Aðalfundur ungmennaráðs UN Women

Í síðustu viku fór fram aðalfundur ungmennaráðs UN Women þar sem kosið var í nýja stjórn fyrir starfsárið 2019-2020. Við þökkum fráfarandi stjórn innilega fyrir vel unnin störf og bjóðum nýja meðlimi hjartanlega velkomna. Á starfsárinu sem er að líða hefur ungmennaráðið staðið fyrir ýmsum skemmtilegum fjáröflunar- og vitundarvakningarviðburðum og veitt UN Women dygga aðstoð við fjölbreytt verkefni. Einnig hafa þau farið í fjölmarga skóla með fræðsluerindi um starf UN Women. Hægt er að senda inn beiðni um fyrirlestur í skóla til youth@unwomen.is.

Síðasti viðburður starfsársins eru stórtónleikarnir Sírenur sem haldnir verða í kjallaranum á Hard Rock fimmtudaginn 29. ágúst þar sem fram koma; Bríet, GDRN, Salka Sól, Elísabet Ormslev, Matthildur, Una Schram, GRÓA og fleiri frábærar tónlistarkonur. Miðaverð er aðeins 1500 krónur en lesa má meira um viðburðinn hér.

Related Posts