Er fjölskyldan öryggið þitt eða þín helsta ógn og hindrun?

Home / Dæmi um styrktarverkefni / Er fjölskyldan öryggið þitt eða þín helsta ógn og hindrun?

„Á sama tíma og fjölskyldan er sú eining sem veitir okkur öllum hvað mesta ást og hlýju reynist hún líka konum og stúlkum ein helsta ógn og hindrun í að njóta sín til fulls.“

Í nýútkominni skýrslu UN Women, Progress of the World´s Women 2019-2020: Families in a changing world, kemur fram að á meðan réttindabarátta kvenna hefur þokast áfram síðastliðna áratugi, á sér enn stað kynjamismunun og grundvallarmannréttindabrot framin innan veggja heimilisins. Höfundar skýrslunnar leggja mikla ábyrgð á herðar stjórnvalda og segja nauðsynlegt að þau móti sér stefnu sem styðji við fjölskyldur og konur, því með öðrum hætti er ekki hægt að tryggja jafnan rétt kvenna í samfélögum.

Fjölskyldan sem heild og margbreytileiki fjölskylduformsins er sérstaklega skoðað út frá stöðu kvenna innan fjölskyldna í dag í samhengi við víðfeðmar efnahagslegar, lýðfræðilegar, pólitískar og félagslegar umbreytingar. Skýrslan hefur að geyma tölulegar staðreyndir um fjölskyldur á heimsvísu, út frá heimsálfum, landssvæðum sem og einstökum  ríkjum. Fjölskyldulög, réttindi kvenna, atvinnaþátttaka, ólaunuð umsjá barna og heimilisstörf, ofbeldi gegn konum og stúlkum er meðal annars greint í skýrslunni. Í skýrslunni er að finna sláandi staðreyndir sem varpa ljósi á slæma stöðu kvenna víða um heim:

 • Þrír milljarðar kvenna og stúlkna búa í löndum þar sem nauðgun í hjónabandi er ekki refsiverð
 • Í fimmta hverju landi í heiminum hafa konur ekki jafnan erfðarétt á við karla
 • Í nítján löndum eru konur lagalega skyldar til að hlýða eiginmönnum sínum
 • Þriðja hver gifta kona hefur ekkert ákvörðunarvald yfir eigin heilsu og ákvörðunum tengdar eigin heilsufari í lágtekjulöndum.
 • 137 konur eru myrtar daglega af fjölskyldumeðlimi sínum af ásettu ráði
 • Talið er að 58% allra kvenna sem myrtar voru af ásettu ráði hafi verið drepnar af fjölskyldumeðlimi sinum

Cielo Gomez (f. miðju) og fjölskylda hennar býr í El Tablón de Gómez í Kólumbíu. „Við erum bæði landeigendur sem þýðir að ég er fjárhagslega sjálfstæð,” segir Cielo stolt. Mynd: UN Women/Ryan Brown.

Samkvæmt skýrslunni er ofbeldi innan fjölskyldna oft á tíðum lífshættulegt. Meðalgiftingaraldur hefur  hækkað um allan heim og fæðingartíðni lækkað og heilt yfir hafa konur aukið efnahagslegt sjálfstæði. Konur taka aukin þátt á vinnumarkaði, en hjónabönd og móðurhlutverkið draga fyrst og fremst úr þátttöku kvenna á vinnumarkaði.

Hins vegar vinna konur þrisvar sinnum meiri ólaunuð heimilisstörf ásamt því að annast börnin og fjölskyldumeðlimi, heldur en karlmenn. Þessi kynjahalli ýtir mest undir slakari þátttöku kvenna á vinnumarkaði en karlmanna. Samkvæmt skýrslunni eru feðraorlofskvótar og bætt dagvistunarkerfi taldir helst líklegir til að draga úr þeim kynjahalla og ýta undir aukna atvinnuþátttöku kvenna.

Margt bendir til þess að rödd kvenna sé að styrkjast og fá aukinn hljómgrunn innan fjölskyldna. Það að giftingaraldur fari hækkandi, aukin félags- og lagaleg viðurkenning á fjölbreytileika fjölskyldna, lækkandi fæðingartíðni og aukið val kvenna hvort eða hvenær þær eignist börn auk aukins efnahagslegs sjálfstæðis. Þessar umbreytingar eru bæði ástæða og afleiðingar stórbrotinna lýðfræðilegra breytinga, aukið og betra aðgengi stúlkna og kvenna að menntun og atvinnutækifærum, breytt viðhorf, norm, hugmyndir og staðlar auk lagalegra breytinga – sem knúnar hafa verið fram að mestu í krafti róttækrar kvennabaráttu.  Með því að búa okkur fjölskylduvænt samfélag sköpum við umhverfi þar sem einstaklingurinn þrífst og dafnar, en stuðlum einnig að hagsæld og friði.

 

Dantas fjölskyldan frá Brasilíu: Leni, 42 ára, Cesar, 34 ára , Eliana, 44 ára, Janette, 33 ára, Mayla, 25 ára, og Maria Nilda, 67 ára. Mynd: UN Women/Lianne Milton

Skýrsluhöfundar ráðleggja eftirfarandi:

 • Bæta og endurmóta fjölskyldulög sem tryggja konum val um hvort, hvenær og hverjum þær giftast og tryggja konum jafnt aðgengi að fjölskylduauði.
 • Viðurkenna og samþykkja fjölbreytt fjölskylduform, sem og hinsegin sambönd og hjónabönd.
 • Fjárfesta í opinberri þjónustu, sérstaklega meðgöngu- og fæðingarþjónustu.
 • Þrýsta á myndun kerfa sem tryggja félagslega vernd, líkt og fæðingarorlof, barnavernd og þjónustu við aldraða.
 • Tryggja öryggi kvenna með því að setja í framkvæmd lög um útrýmingu ofbeldis gegn konum og stúlkum og tryggja þolendum ofbeldis réttláta meðferð fyrir lögum og viðunandi stuðning og þjónustu.
 • Fjárfesta í kynjuðum tölum og gögnum um fjölskyldur og heimilishald sem munu auðvelda stjórnvöldum að móta opinbera stefnu sem styður við fjölskyldur og þannig við kynjajafnrétti.

 

Lesa má skýrsluna í heild sinni hér

 

 

UN Women þrýstir á stjórnvöld ríkja um allan heim að breyta lögum og tryggja konum og stúlkum grundvallarmannréttindi líkt og lifa án og í ótta við ofbeldi, ákveða hvort, hvenær og hverjum þær giftist, tryggja konum og stúlkum erfðarétt til jafns við karla sem og rétt til landareigna.

Related Posts