fbpx

Ekki dóttir mín

Heim / Dæmisögur / Ekki dóttir mín

ekki-dottir-min-overlayNdyandin Dawara frá Gambíu tók nýlega þá örlagaríku ákvörðun að láta dóttur sína ekki ganga í gegnum það sama og hún sjálf þurfti að þola þegar hún var lítil stelpa, limlestingu á kynfærum sínum.

„Ég sat námskeið sem styrkt er af UN Women þegar það rann upp fyrir mér hve afleiðingar þessa skaðlega siðar eru hræðilegar. Í fyrstu vissum við ekki hvernig við áttum að ræða um þetta, því að limlesting á kynfærum er mikið feimnismál hér í Gambíu. Sem betur fer er búið að rjúfa þögnina og fyrsta skrefið er að breyta hugarfari fólks. Ég og maðurinn minn erum hjartanlega sammála um að dóttir okkur eigi ekki upplifa það sama og ég. Nú vinnur hann að því að uppræta þennan skaðlega sið með því að fræða karlmenn og stráka um alvarlegar afleiðingar hans,“ segir Ndyandin bjartsýn.
Ndyandin Dawara er í hópi 75% kvenna í Gambíu sem þurft hafa að þola limlestingu á kynfærum sínum. Heilar kynslóðir kvenna hafa lifað nánast allt sitt líf við sársauka vegna þessa skaðlega siðar, hafa ekki haft völd yfir eigin líkama og skort kynlífslöngun. Þar að auki búa konur við aukna hættu á hvers kyns heilsufarsvandamálum og jafnvel lífshættu. UN Women styrkir námskeiðið sem Ndyandin sótti og er hluti af baráttunni gegn limlestingum á kynfærum kvenna í Gambíu. Aukin fræðsla og umfjöllun um þennan skaðlega sið hefur orðið til þess að bann við limlestingu á kynfærum kvenna var fært í lög í desember 2015. Sú lagabreyting markar tímamót í baráttunni fyrir auknu kynjajafnrétti í Gambíu.
Undanfarið ár hafa þrjú hundruð konur setið námskeið UN Women og 64% þeirra mæðra sem sóttu námskeiðið sögðust ekki vilja láta dætur sínar ganga í gegnum það sama og þær þurftu að þola.
„Við þurfum að byrja á því að breyta hugarfari fólks,“ segir Ndyandin, þolandi limlestingar.
Þú getur lagt þitt af mörkum við að gera líf kvenna eins og Ndyandin og dóttur hennar betra með því að gerast mánaðarlegur styrktaraðili UN Women á Íslandi.

Related Posts