fbpx

CSW67: Höfum mikið fram að færa í jafnréttismálum

Heim / Fréttir / CSW67: Höfum mikið fram að færa í jafnréttismálum

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra Íslands, er á meðal þeirra þjóðarleiðtoga sem sækja 67. Kvennanefndarfund Sameinuðu þjóðanna, sem fram fer í New York þessa vikuna.

Forsætisráðherra var þátttakandi í hliðarviðburði Norrænu ráðherranefndarinnar, þar sem Ísland fer með formennsku. Viðburðurinn fjallaði um viðbragð Norðurlandanna við stafrænu ofbeldi. UN Women á Íslandi náði tali af forsætisráðherra fyrir viðburðinn og spurði hana út í jafnréttismál og stöðu Íslands á alþjóðavettvangi.

Af hverju skiptir rödd Íslands máli þegar jafnrétti er rætt á alþjóðavettvangi?

„Í jafnréttismálum höfum við töluvert mikið fram að færa. Ísland hefur staðið sig vel í alþjóðlegum samanburði þegar kemur að jafnréttismálum. Þó að við séum alltaf með ærin verkefni heima fyrir og baráttan einhvern vegin haldi endalaust áfram, þá er ótrúlega margt gott sem við höfum gert. Þannig að við höfum mjög margt til að deila með öðrum þjóðum. Ég var til dæmis að koma af fundi með jafnréttisráðherra Austurríkis sem vildi helst fræðast um íslenska fæðingarorlofskerfið og þá staðreynd að við skiptum fæðingarorlofinu milli beggja foreldra, sem er eitt af því mikilvægasta, myndi ég segja, sem við höfum gert til að stuðla að jafnrétti á Íslandi. Sama má auðvitað segja um leikskólakerfið okkar og svo það sem við höfum verið að gera til að berjast gegn kynbundnu ofbeldi, heimilisofbeldi og auðvitað jafnlaunamálin. Þannig það er alveg ótrúlega margt sem við getum sagt frá, en líka auðvitað lært af öðrum.“

Hvaða skref hefur Ísland tekið til að bregðast við bakslaginu sem orðið hefur í jafnréttismálum?

„Bakslagið hefur verið á mörgum vígstöðum. Það var áberandi þegar þjóðir heims voru margar hverjar að herða þungunarrofs löggjöfina, að þá var Ísland að fara í þveröfuga átt og samþykkti framsækna þungunarrofs löggjöf sem tryggir og viðurkennir rétt kvenna til að ráða yfir eigin líkama. Þannig við höfum bæði verið að stíga skref áfram, en við finnum auðvitað fyrir bakslaginu líka. Eitt dæmi um það, er það sem við erum að ræða á þessari ráðstefnu: Þessi stafræna veröld þar sem við sjáum mikið stafrænt ofbeldi, ekki síst gagnvart konum og yngri konum sérstaklega. Þannig að við erum núna að fara leggja fram tillögu um aðgerðir gegn hatursorðræðu sem ég vona að muni taka þau mál upp á yfirborðið. Svo höfum við samþykkt ákveðið lagaákvæði um kynferðislega friðhelgi sem á að takast á við stafrænt kynferðisofbeldi.“

Horfa má á viðtalið við Katrínu Jakobsdóttur hér að neðan.

Related Posts
Stella Samúelsdóttir, framkvæmdastýra UN Women á Íslandi og Þorsteinn Víglundsson, forstjóri Eignarhaldsfélagsins Hornsteins undirrita samninginn