fbpx

CSW67: Mikilvægt að alþjóðasamfélagið standi með afgönskum konum

Heim / Fréttir / CSW67: Mikilvægt að alþjóðasamfélagið standi með afgönskum konum

Aktívistar og sérfræðingar ræddu málefni afganskra kvenna á CSW67.

Einn af þeim hliðarviðburðum sem fram fóru á fyrsta degi 67. Kvennanefndafundar Sameinuðu þjóðanna var viðburður um réttindi afganskra kvenna. Fundurinn fór fram í ECOSOC salnum í aðalbyggingu Sameinuðu þjóðanna og var fjölsóttur.

Frá valdatöku talibana í ágúst árið 2021 hefur talibanastjórnin takmarkað mjög réttindi kvenna og stúlkna í Afganistan. Talibanastjórnin hefur sett meira en þrjátíu opinberar skipanir og reglur sem takmarka aðgengi afganskra kvenna og stúlkna að menntun, atvinnu og hvers kyns þátttöku í opinberu lífi, stjórnmálum og menningarlífi.

Þann 24. desember lagði svo talíbanastjórnin bann við því að afganskar konur gætu starfað fyrir mannúðar- og þróunarstofnanir og bönnuðu kvenkyns læknanemum að taka lokapróf og komu þannig í veg fyrir útskrift þeirra.

Fundarstjóri viðburðarins Naseer Faiq sagði konur vera helstu fórnarlömb reglna talíbana og sagði reglurnar ekki aðeins stríða gegn íslam heldur einnig alþjóðlegum mannréttindasáttmálum. Hann sagði mikilvægt að alþjóðasamfélagið stæði með afgönskum konum sem berjast áfram fyrir mannréttindum sínum.

Framsögukonur á viðburðinum voru Yalda Royan aktívisti frá Afganistan, Asila Wardak aktívisti og starfsmaður Sþ, Farriha Easer mannréttindafrömuður og kynjafræðingur, Fatema Ahmadi mannréttindafrömuður og aktívisti, Mariam Atahi aktívisti frá Afganistan og Lima Anwari ungur aktívisti frá Afganistan.

Endurtekið stef á fundinum var mikilvægi þess að alþjóðasamfélagið standi með afgönskum konum á þessum tímamótum og veiti þeim rödd, en líka að ekki megi viðurkenna talibanastjórnina á kostnað frelsis Afgana.

Vilja ekki láta viðurkenna talibanastjórnina

Lima Anwari tók fyrst til máls og sagði afganskar stúlkur þrá ekkert heitar en að endurheimta rétt sinn til menntunar. Hún sagði Afgani ekki mótfallna menntun stúlkna og að þær takmarkanir sem settar hafi verið á skólagöngu stúlkna vera þvert á vilja þjóðarinnar. Þá sagði hún að talíbanastjórnin hefði breytt námskrám landsins og meinað stúlkum að stunda ákveðin námsfög, svo sem eðlis- og verkfræði, en í staðinn væri meiri áhersla lögð á heimilisfræði. Í lok erindi síns sagði hún að Afganir kjósi heldur að deyja úr hungri en að alþjóðasamfélagið samþykki talibanastjórnina á kostnað frelsis almennings.

Brotnir innviðir ógna lífi kvenna

Fariah Easar sagði mikilvægar stofnanir ekki lengur vera starfhæfar í Afganistan og að það ógni lífi og heilsu kvenna og stúlkna. Kvennaathvörf hafa verið lokuð, störf lögfræðinga og dómstóla bönnuð og konur geta því hvergi sótt rétt sinn eða leitað öryggis.

„Opinberar hýðingar, nauðganir og pyntingar eru nú daglegt brauð. 1126 konur og stúlkur hafa verið fangelsaðar, m.a. konur sem mótmæltu valdatöku talíbana. Þessar tölur ná þó aðeins til sex héraða landsins, en þetta á sér stað í öllum héruðum og þið getið því rétt ímyndað ykkur hverjar hinar raunverulegu tölur eru. Konur eru án verndar og geta hvergi sótt réttlæti. Talíbanar hafa ógilt lagalega skilnaði og þvingað konur til að fara aftur til fyrrum maka og tengdafjölskyldu. Þessar sömu konur eiga þá einnig yfir höfði sér dóm fyrir framhjáhald,” sagði hún.

Friðsöm mótmæli fóru fram fyrir utan aðalbyggingu Sþ.

Líkt og Anwari, kallaði Easar líka eftir því að talibanastjórnin yrði ekki viðurkennd af alþjóðasamfélaginu og kallaði eftir því að stofnanir Sþ hefðu rannsókn á mannréttindabrotum þeirra.

Yalda Royan tók undir orð Easar og sagði ofbeldi og hungur vera hluta af daglegu lífi kvenna í landinu. Hazara konur séu í sérstakri hættu því þær búa við fjölþætta mismunun á grundvelli kyns og uppruna. Hún minntist á að fjöldi aktívista, blaða- og fréttakvenna og stjórnmálakvenna hafa verið þvingaðar til að flýja landið ólöglega eftir að landamæri þess voru lokuð.

“Afleiðingar þessa eru hræðilegar. Þekkt afgönsk blaðakona var ein þeirra sem lést í sjóslysinu við strendur Ítalíu í síðustu viku. Hún var þvinguð til að leita öryggis á ólöglegan hátt. Ef alþjóðasamfélagið trúir í raun á mannréttindi, kvenréttindi og lýðræði, þá þurfið þið að stíga inn og gera eitthvað til að vernda og styðja við þessar konur.”

Héldu að þau yrðu yfirgefin

Asila Wardak starfaði eitt sinn hjá Sameinuðu þjóðunum og er nú starfandi hjá Harvard háskóla. Hún þakkaði fundargestum fyrir samstöðuna en vildi jafnframt minnast á konur og stúlkur í Íran og Úkraínu sem eru einnig að berjast fyrir frelsi sínu og mannréttindum.

“Þegar talíbanar tóku völd, héldum við að allir mundu yfirgefa okkur eins og hafði gerst á tíunda áratugnum. En svo hefur ekki verið raunin. Ég vil sérstaklega þakka UN Women sem heldur landsskrifstofu sinni opinni og heldur áfram að starfa í þágu afganskra kvenna og stúlkna.”

Þá hvatti hún viðstadda til að gera sitt til að tryggja að raddir afganskra kvenna fái áfram að hljóma: „Ekki tala um okkur, leyfið okkur að taka þátt í samtalinu!“

Related Posts