fbpx

CSW67: Enn til ríki sem eru andvíg réttindum kvenna

Heim / Fréttir / CSW67: Enn til ríki sem eru andvíg réttindum kvenna

Anita Bhatia, aðstoðarframkvæmdarstýra UN Women, segir Ísland eina landið í heiminum sem sé nálægt því að ná kynjajöfnuði. Hún segir landið mikilvæga fyrirmynd því hér taki stjórnvöld, einkageirinn og almenningur jafnréttismálum alvarlega. Hún segir enn ríkari þörf á stofnun sem UN Women í dag en fyrir áratug þegar stofnunin var sett á laggirnar. UN Women á Íslandi náði tali af Anitu í tengslum við Kvennanefndarfund Sameinuðu þjóðanna (CSW67) og spurðu hana út í stuðning Íslands við UN Women og jafnréttismál.

Ísland hefur verið dyggur stuðningsaðili UN Women, þá bæði stjórnvöld og almenningur. Af hverju skiptir áframhaldandi stuðningur til UN Women máli?

„Til að byrja með vil ég þakka Íslandi kærlega fyrir þennan mikilvæga stuðning. Hann skiptir gríðarlega miklu máli núna þegar heimurinn gengur í gegnum tímabil þar sem vegið er að réttindum kvenna um allan heim. Ísland er eina landið í heiminum sem er einu sinni nálægt því að ná kynjajöfnuði. Við þurfum á fyrirmyndum að halda þar sem stjórnvöld, einkageirinn og almenningur taka jafnréttismálum alvarlega og þannig sýna öðrum ríkjum að kynjajafnrétti er ekki aðeins fjarlægur draumur, heldur eitthvað sem getur náðst í náinni framtíð.

„Þá er rödd Íslands jafnframt mikilvæg á alþjóðlegum vettvöngum svo sem á Kvennanefndarfundi Sameinuðu þjóðanna, leiðtogafundinum um heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og alþjóðlegum samningi um starfræna þróun. Ástæðan fyrir því er sú að það eru enn þjóðríki hvers stjórnvöld eru í raun andvíg Heimsmarkmiði 5 og því að konur njóti fullra mannréttinda. Þannig að þegar verið er að ræða og semja um þessi málefni á alþjóðavettvangi er rödd Íslands gríðarlega mikilvæg, því það hjálpar okkur að sannfæra aðra um að hægt sé að skapa jafnari og betri heim ef konur fá að njóta fullra mannréttinda sinna.“

UN Women vinnur að því að efla réttindi kvenna um allan heim í gegnum ólík verkefni og rásir. Af hverju er mikilvægt að til sé sérstök stofnun innan Sameinuðu þjóðanna með áherslu á jafnrétti?

„Við þurfum að fara aftur í tímann til að svara þessu. Þegar UN Women var stofnað var það að frumkvæði Ban Ki-Moon, þáverandi framkvæmdarstjóra Sameinuðu þjóðanna. Hann sagði mér að hann hefði skoðað kerfin í kringum Sameinuðu þjóðirnar og áttað sig á því að það var engin stofnun sem hafði jafnréttismál að áherslu. Það var til stofnun fyrir málefni barna, UNICEF, það var til stofnun fyrir þróunarverkefni, UNDP, það var til stofnun fyrir viðskipti, WTO og heilbrigðismál, WHO. En engin stofnun var til sem vann að þessu risavaxna málefni sem kynjajafnrétti er. Hann ákvað því að koma á fót UN Women. Ef þörf var á UN Women þá, er enn ríkari þörf fyrir UN Women í dag. Því eins og ég sagði, þá hafa réttindi sem við töldum sjálfsögð og voru í framþróun, verið tekin af konum víða um heim. Í mörgum heimshlutum erum við á stöðugum hlaupum við það eitt að standa í stað, eða þurfum að taka slaginn aftur í málum sem við héldum að væru í höfn.

„Vandamálin sem við stöndum frammi fyrir í jafnréttismálum í dag hafa í raun aukist, ekki minnkað. Sem sagnfræðingur, þá trúir maður að framfarir séu línulegar, að hlutir fari batnandi með tímanum, en það er ekki svo. Við höfum séð að konur hafa víða misst réttindi sín til kynheilbrigðis, aðgengi kvenna að menntun í kjölfar heimsfaraldursins hefur minnkað og aðgengi þeirra að vinnumarkaði sömuleiðis af sömu ástæðum. Öll þessi vandamál hafa vaxið og stækkað, ekki minnkað og þess vegna þurfum við nauðsynlega á stofnun sem UN Women að halda til að standa vörð um réttindi kvenna um allan heim. En líka til þess að minna heiminn á að til eru lönd, eins og Afganistan, þar sem konur eru kúgaðar á nýjan hátt á hverjum degi. Ef ekki væri fyrir okkur, hver væri að vinna í þessum málefnum?“

Við höfum horft upp á mikið bakslag í réttindum kvenna síðustu ár. Er mikilvægt að land sem Íslandi tali máli jafnréttis á alþjóðlegum vettvangi á borð við Kvennanefndarfund Sameinuðu þjóðanna?

„Á Kvennanefndarfundi Sameinuðu þjóðanna koma saman öll 193 aðildarríki Sþ. Þróunin í heiminum síðustu ár hefur verið á þann veg að við höfum séð samfélagsmiðla verða að vettvangi fyrir falsfréttir og hreyfingu antí femínisma. Í fjölda ríkja hentar það stjórnvöldum vel að veita konum ekki full mannréttindi. Sé þetta skoðað nánar sér maður hugmyndafræðileg tilfelli, eins og í Afganistan, þar sem réttindum kvenna hefur markvisst verið eytt síðan talíbanar tóku völd.

„Þegar ríki sækja fjölþjóðlegan vettvang sem Kvennanefndarfundinn, er gríðarlega mikilvægt að við viðhöldum og í raun mögnum upp þá staðla sem heimurinn ætti að miða sig við. Áherslumál fundarins í ár eru á stafræna þróun, nýsköpun og tækni og í þessum málefnum skortir sterka alþjóðlega staðla. Við þurfum á þeim að halda svo að ríki hafi að einhverju að vinna og svo við getum skapað von fyrir konur og stúlkur um allan heim. Þess vegna er mikilvægt að Ísland taki þátt á vettvangi sem þessum.“

Hægt er að horfa á viðtalið við Anitu hér að neðan.

Related Posts