fbpx

CSW67: Þurfum að halda línu og verja markið

Heim / Fréttir / CSW67: Þurfum að halda línu og verja markið

Jörundur Valtýsson, fastafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum, sótti Kvennanefndarfund Sameinuðu þjóðanna, CSW67. Fundurinn fer fram í New York árlega og hann sækja fulltrúar og félagasamtök allra aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna. UN Women á Íslandi náðu tali af Jörundi og ræddu við hann um mikilvægi alþjóðasamstarfs á vettvangi Sameinuðu þjóðanna.

Sameinuðu þjóðirnar hafa verið gagnrýndar fyrir seinagang og aðgerðarleysi. Af hverju eru Sameinuðu þjóðirnar mikilvægar fyrir alþjóðasamvinnu og -samtal?

„Sameinuðu þjóðirnar eru ekki fullkomnar, það er alveg rétt, en þær eru geysilega mikilvægar fyrir alþjóðasamvinnu. Hér í New York eru 193 ríki, þar með talið Ísland, með sína rödd og sitt atkvæði þegar kemur að Allsherjarþinginu. Það er geysilega mikilvægt að þessi ríki geti verið  hér, unnið saman og talað saman. Þá er starf Sameinuðu þjóðanna á vettvangi alveg sérstaklega mikilvægt: Í þróunarsamvinnu og neyðaraðstoð og stofnanir eins og UN Women gegna algjöru lykilhlutverki í að bæta líf kvenna og um heim allan.“

Hefur Ísland einhver áhrif innan Sameinuðu þjóðanna?

„Ísland hefur áhrif innan Sameinuðu þjóðanna, vil ég meina. Við höfum okkar atkvæði, okkar rödd og ef við forgangsröðum í okkar störfum, sem við gerum, þá getum við náð verulegum árangri. Ég nefni málefni hafsins, loftslagsmálin og svo eru mannréttindamálin stórt mál hér í störfum fastanefndar. Við erum einnig málsvarar stofnsáttmálans og þeirra gilda sem Sameinuðu þjóðanna hvíla á og sótt er að úr mörgum áttum, því miður. Þannig að við getum sannarlega haft góð áhrif hér á vettvangi Sameinuðu þjóðanna.“

Hvert er mikilvægi Kvennanefndarfundar Sameinuðu þjóðanna á sviði jafnréttismála?

„Ég held að það sé mjög mikilvægt að þetta 67. þing Kvennanefndar fari nú fram með venjubundnum hætti, með þessari breiðu þátttöku stjórnmálamanna, frjálsra félagasamtaka, fulltrúa atvinnulífsins og svo framvegis. Við þurfum að mynda breiðfylkingu um jafnréttismál. Það þurfa allir að leggja hönd á plóg í mannréttindabaráttunni. Nú þegar við erum að fagna 75 ára afmæli mannréttindayfirlýsingarinnar, þá er það með nokkrum ólíkindum að það sé sótt að mannréttindum og jafnrétti úr mörgum áttum og við þurfum á öllu okkar að halda, ekki bara til að halda línu og verja markið, heldur til að sækja fram.“

Hægt er að horfa á viðtalið við Jörund hér að neðan.

Related Posts