fbpx

CSW67: Átakanlegur viðburður afgönsku sendinefndarinnar

Heim / Fréttir / CSW67: Átakanlegur viðburður afgönsku sendinefndarinnar

Tatjana Latinovic, formaður stjórnar Kvenréttindafélags Íslands, er ein þeirra sem sækja Kvennanefndarfund Sameinuðu þjóðanna (CSW67) sem nú stendur yfir í New York. UN Women á Íslandi náði tali af Tatjönu og spurðu hana út í þá viðburði sem hún hafði sótt.

Skiptir máli fyrir grasrótar- og félagasamtök að geta sótt viðburði sem þennan?

„Það skiptir gríðarlega miklu máli og veitir mikinn innblástur að koma á viðburð eins og þennan. Þetta er stærsti viðburður í jafnréttismálum í heiminum. Ísland hefur staðið sig mjög vel í að bjóða fjölbreyttum samtökum úr grasrótinni að sækja þennan viðburð. Sem mér skilst að sé ekki hjá öðrum löndum. Ísland fær hrós frá okkur fyrir það.

„Grasrótarhreyfingin auðvitað keyrir málin áfram. Ef það hefði ekki verið fyrir grasrótarhreyfinguna, þá værum við ekki á þessum stað sem við erum á í dag þegar kemur að jafnréttismálum. Enn er verk að vinna og mér finnst mjög áhugavert að sjá að þó að við á Íslandi séum komin mjög langt í jafnréttismálum og séum eyja, erum við ekki ein. Það sem er að gerast í öðrum löndum hefur áhrif á stöðu jafnréttismála á Íslandi líka.

„Við fræðumst að auki mikið hér um og fáum hugmyndir og innblástur. Við fáum líka að hitta marga af samstarfsfélögum okkar frá öðrum löndum því það eru allir hér. Það er mjög gagnlegt og mikilvægt að vera hér.“

Hvaða viðburð varst þú að sækja?

„Ég sótti í gær og í dag viðburði sem Ísland stendur fyrir, sem voru frábærir. En fyrir utan það fór ég á tvo viðburði í gær. Fyrsti viðburðurinn var viðburður sem afganska sendinefndin skipulagði og þar töluðu margir afganskir aktívistar og jafnréttissinnar. Það var átakanlegt og áminning um að við megum ekki gleyma hvað er að gerast þar. Eftir það fór ég á kanadískan viðburð þar sem talað var um notkun tækni í jafnréttismálum og baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi, sem var mjög áhugavert.“

Eftir viðburðina sem þú hefur sótt, hvar finnst þér Ísland standa vel og illa þegar kemur að jafnréttismálum?

„Ísland stendur sig mjög vel miðað við önnur lönd í jafnréttismálum. Við öll sem búum á Íslandi njótum góðs af því, en í mismiklum mæli. Þegar kemur að jaðarsettum hópum, ef jaðarsetta hópa skal kalla, þá finnst mér við enn þá eiga langt í land með að bjóða þeim sömu réttindi og sömu lífsgæði og aðrir hafa. Þannig að ég held að það sé enn þá verk að vinna þar.“

Hægt er að horfa á viðtalið við Tatjönu hér að neðan.

Related Posts