fbpx

Vodafone hlýtur Hvatningarverðlaun jafnréttismála

Heim / Fréttir / Vodafone hlýtur Hvatningarverðlaun jafnréttismála

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar og nýsköpunarráðherra veitti Vodafone Hvatningarverðlaun jafnréttismála árið 2017 á morgunfundinum „Hagnýtar leiðir til að auka jafnrétti á vinnustöðum!“ sem haldinn var í Háskóla Íslands í morgun.

Stefán veitir verðlaununum viðtöku.

Í áliti dómnefndar segir meðal annars: „Vodafone hefur unnið markvisst að því að jafna stöðu kynjanna í karllægum geira á öllum sviðum fyrirtækisins. Karlar séu markvisst ráðnir í deildir þar sem konur eru ráðandi og öfugt. Á þann hátt telur fyrirtækið að hægt sé að sporna við myndun svokallaðra karla- og kvennastarfa. Það sé skýr stefna fyrirtækisins að vera til fyrirmyndar í jafnréttismálum og ber kynningarefni þess skýr merki um það að fyrirtækið hefur lagt sitt af mörkum til að uppræta staðalímyndir í þjóðfélaginu og markaðsefni sínu. Fyrirtækið hefur með fræðslu og samstarfi við góðgerðarsamtök haft áhrif á umræðu og vitundarvakningu í tengslum við kynbundið ofbeldi og hrelliklám. Sem stórt fyrirtæki á íslenskum tæknimarkaði er það til fyrirmyndar í jafnréttismálum.“

Stefán Sigurðsson, forstjóri Vodafone, veitti Hvatningarverðlaununum viðtöku og sagði jafnréttismál snúast um að skapa menningu innan fyrirtækja: „Mikilvægt er að skapa menningu jafnréttis á vinnustaðnum og því verkefni verður seint lokið. Við höfum gert fjölmargt hjá Vodafone til að stuðla að og styrkja jafnréttið og næst ætlum við að þróa áfram sérstaka fjölskyldustefnu. Nútímafyrirtæki þurfa að viðurkenna að starfsfólkið hefur fleiri skyldum að gegna en bara gagnvart vinnu og við viljum gefa okkar starfsfólki færi á að finna sjálft bestu lausnir á milli vinnu og fjölskyldulífs,“ segir Stefán Sigurðsson, forstjóri Vodafone að verðlaunaafhendingu lokinni.

Lesa meira

Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka og handhafi Hvatningarverðlauna jafnréttismála árið 2016 tók til máls og sagði að ef ná eigi árangri í jafnréttismálum er vilji allt sem þarf. „Þú þarft að hafa vilja til að knýja fram árangur í jafnréttismálum. Ef það er ekki áhugi fyrir málaflokknum á toppnum innan fyrirtækisins til að gera þetta almennilega og vinna að jafnréttismálum, þá gerist ekki neitt.“

Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi hélt einnig erindi þar sem hún varpaði fram spurningunni hvort fortíðardraugar sjávarútvegs séu að byrgja sýn og sagði jafnframt enn mikið verk að vinna innan sjávarútvegsgeirans og það sem m.a. mætti gera betur væri að efla menntun kvenna í karllægum sjávarútvegstengdum greinum, bæta ráðningarferli og auka þátttöku kvenna í fjárfestingum.

Gyða Margrét, dósent í kynjafræði, hélt erindi um jafnrétti.

Gyða Margrét Pétursdóttir, doktor í kynjafræði og dósent við Háskóla Íslands fjallaði um mikilvægi þess að losa okkur undan áru (kynja)jafnréttis og stuðla að jafnrétti í raun og sagði meðal annars: „Mikilvægt er að við losum okkur við þessa áru og höldum áfram að þreifa á áþreifanlegum hindrunum, gerum þær sýnilegar og stuðlum þannig að jafnrétti.“

Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, landsnefnd UN Women á Íslandi, Samtök atvinnulífsins og Festa – miðstöð um samfélagsábyrgð stóðu fyrir morgunfundinum en markmiðið með Hvatningarverðlaununum er að vekja jákvæða athygli á fyrirtækjum sem sett hafa jafnrétti á oddinn og jafnframt að hvetja önnur fyrirtæki til að gera slíkt hið sama.

Lesa minna

Related Posts
Hvatningarverdlaun