Unnsteinn Manuel á HeForShe ráðstefnu

Home / Fréttir / Unnsteinn Manuel á HeForShe ráðstefnu

Örn Úlfar og Unnsteinn Manuel eru HeForShe

Unnsteinn Manuel Stefánsson, annar verndari UN Women á Íslandi og Örn Úlfar Sævarsson, stjórnarmeðlimur okkar voru viðstaddir HeForShe Rakarastofuviðburði (Barbershop) í Kaupmannahöfn.

„Það var mjög fræðandi að fá tækifæri til að kynna sér stöðu jafnréttismála bæði í atvinnu og útfrá heimilislífi fólks. Þó að Íslendingar séu komnir hvað lengst í þessum málum þá getum við ennþá bætt okkur á ýmsum sviðum,“ sagði Unnsteinn Manuel í lok dags.

„Mesti lærdómur dagsins er sá að ef við leggjum saman vinnutíma kynjanna innan og utan heimilis að þá er vinnuvika mæðra miklu lengri en karla. Þannig að næst er að efla hlutverk feðra innan heimilisins bæði sem „starfskraft“ og sem tilfinningaveru. Fyrsta skrefið í þá átt er að foreldrar fái jafnlöng fæðingarorlof,“ sagði hann en á ráðstefnunni kom fram að konur í Evrópu og Bandaríkjunum vinni að meðaltali rúmlega tvöfalt meiri ólaunuð störf en karlmenn. Þessi tala er allt að fjór- og sexföld í öðrum heimsálfum.

Ráðstefnan var sett af starfandi utanríkisráðherra, Guðlaugi Þór Þórðarsyni og gestir ráðstefnunnar og fyrirlesarar komu víða að úr einka- og almenna geiranum og voru erindi meðal annars flutt frá starfsfólki Ikea, Volvo og Orkuveitu Reykjavíkur þar sem Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitunnar sagði frá markvissri stefnu fyrirtækisins við að útrýma  kynbundnum launamun.

„Vilji og ákveðni er allt sem þarf til að útrýma kynjaójafnrétti á vinnustaðnum,“ sagði Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitunnar, á fyrirlestri sem bar heitið „Hvernig náum við kynjajafnrétti á vinnustöðum og innan veggja heimilisins?“

Orkuveita Reykjavíkur vann Hvatningarverðlaun jafnréttismála árið 2015 sem veitt eru af Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, landsnefnd UN Women á Íslandi, Samtökum atvinnulífsins og Festu. Orkuveitan lét þróa sérstaka tækni til að greina kynbundinn launamun innan fyrirtækisins í rauntíma til að finna mætti aðferðir til að vinna bug á launamuninum.

Markmiðið með ráðstefnunni er meðal annars að hvetja karlmenn til að taka virkan þátt í beita sér fyrir kynjajafnrétti í sínu nærumhverfi. Á þessari rakararáðstefnu er sjónum beint að því hvernig jafna megi hlut kynja innan vinnustaða og heimila. Hvaða ólíku áskoranir konur og karlar standa frammi fyrir.

UN Women á Íslandi hvetja alla til skrá sig á www.heforshe.is og skuldbinda sig til að beita sér fyrir kynjajafnrétti í sínu nærumhverfi. Saman erum við sterkari!

Related Posts