UN Women vinnur gegn kynbundnu ofbeldi

Home / Dæmi um styrktarverkefni / UN Women vinnur gegn kynbundnu ofbeldi

Veggmynd RikkaUN Women veitir tæknilegan og fjárhagslegan stuðning til fjölmargra verkefna um allan heim sem miða að því að uppræta ofbeldi gegn konum og stúlkum. UN Women á Íslandi hefur stutt Styrktarsjóð SÞ gegn ofbeldi gegn konum og stúlkum dyggilega undanfarin ár. Sjóðurinn styrkir 22 verkefni um allan heim þar sem unnið er að markvisst að afnámi ofbeldis gegn konum, auka aðgengi þolenda ofbeldis að viðeigandi þjónustu og unnið að sterkari löggjöf og stefnumótun um ofbeldi gegn konum og stúlkum.

Ég vil gerast mánaðarlegur styrktaraðili UN Women

 

Plan Viet Nam
Ofbeldi gegn stúlkum í skólum og nærumhverfi þeirra er helsta fyrirstaða þess að ná raunverulega jafnrétti í Víetnam og hindrar framgang stúlkna þar í landi. Barnasamtökin Plan Viet Nam hefur sett á laggirnar kynjamiðaða námskrá sem notuð er í 20 mismunandi skólum í Hanoi og nánasta umhverfi borgarinnar. Verkefnið miðar að því að skapa öruggt og barnvænt skólaumhverfi laust við kynbundið ofbeldi þar sem unglingar hljóta góða menntun þar sem farið er eftir kynjaðri námskrá.
Í skólastarfinu hljóta stelpur og strákar fræðslu um hvernig þau eigi að takast á við staðlaðar kynjaímyndir, úrelt kynjuð norm og afleiðingar kynbundins ofbeldis sem er daglegur þáttur í lífi margra stúlkna í Víetnam.
Samtökin hafa nú þegar m.a. þjálfað 450 ungliðaleiðtoga til að leiða starfið og eiga í samskiptum við unglingana og haldið yfir 20 viðburði sem ætlað er að vekja til vitundar um kynbundið ofbeldi í skólum. Einnig hafa samtökin útbúið leiðarvísi fyrir kennara hvernig tækla eigi ofbeldið í skólum. Um þessar mundir hljóta nú um 16 þúsund nemendur í Víetnam kennslu undir þessari kynjamiðuðu námskrá. Þar að auki hafa samtökin sett á laggirnar ráðgjafaþjónustu fyrir þolendur ofbeldis í 20 skólum þar sem þolendur fá sálfræðilega ráðgjöf og stuðning.

Brúðarstuldur í Kyrgyzstan
Í Kyrgyzstan, sérstaklega í sveitum landsins, eru stúlkur og konur berskjaldaðri fyrir kynbundnu ofbeldi en víða annars staðar. Brúðarstuldur og gifting barnungra stúlkna mun eldri mönnum er enn útbreitt vandamál og ofbeldi sem óteljandi stúlkur verða enn fyrir.
Samtökin NFCCK í Kyrgyzstan eru ein þeirra samtaka sem hljóta styrk frá Styrkarsjóði SÞ gegn ofbeldi gegn konum og stúlkum. Starf samtakanna felst í að því að uppræta kynbundið ofbeldi í gegnum menntaverkefni sem miðar að því annars vegar að fræða stúlkur um hvernig þeim ber að forðast ofbeldið. Hins vegar fræða stráka um hvað felst í að virða maka sinn, jafnrétti og hvernig styðja megi við þá sem verða fyrir kynbundnu ofbeldi. Samtökin starfrækja sjálfshjálparhópa innan skólanna sem þolendur hitta og fá stuðning af í kjölfar fræðslunnar. Auk þess standa samtökin fyrir fræðslu og þjálfun kennara og annarra leiðtoga sem vinna með börnum og unglingum skólanna.

kyr-brideSaga Kulipu

„Það á að berja konur á hverjum degi“ segir Kamilla frá Kirgistan er hún endurtekur vægðarlaus orð mágs síns.
Kulipa systir hennar var rænt af heimili sínu þegar hún var 19 ára af tilvonandi eiginmanni sínum. Brúðarstuldur er útbreitt vandamál í Kirgistan.
„Hjónabandið var algjör martröð. Þegar konum er rænt og þær þvingaðar í hjónabönd eru þær niðurlægðar og þær upplifa sem eign eignmanns síns,“ útskýrir Kamilla.
„Systir mín upplifði þetta einnig en þegar hún vildi skilja við eiginmann sinn, myrti hann hana,“ heldur Kamilla áfram. Eiginmaður Kulipu var dæmdur fyrir morð og afplánar nú dóms sinn; þökk sé harði baráttu UN Women og öðrum félagasamtökum. Eftir mikinn þrýsting UN Women, samþykkti kyrgiska þingið loks að herða refsingar fyrir brúðarstuldur en sá sem er fundinn sekur fyrir slíkan glæp getur átt yfir höfði sér allt að 10 ára fangelsisdóm.

Nepal

Styrktarsjóður SÞ gegn ofbeldi gegn konum styrkir samtök í Nepal sem kallast, The Story Kitchen. Eftir að tveir öflugir jarðskjálfar riðu yfir landið í fyrra voru samtökin stofnuð. Markmið samtakanna er að tryggja réttlæti í málum kvenna sem eru þolendur ofbeldis á hamfarasvæðunum. Samtökin notast við þá nýstárlegu nálgun að para saman þolendur ofbeldis við mannréttindagæsluliða á svæðinu sem sameinast um að reyna að ná til fleiri ofbeldisþolenda í gegnum útvarp og í leiðinni beita sér fyrir að rjúfa þögnina sem umlykur umræðuna um kynbundið ofbeldi gagnvart konum á stríðshrjáðum- og hamfarasvæðum.

Safna sönnunum á stríðsglæpum gegn konum 
Samtökin WIGJ (Women´s Initiatives for Gender Justice) starfrækja verkefni í Alþýðulýðveldinu Kongó, Líbíu, Súdan og Úganda sem miða að því auka réttlæti kvenna. Alþjóðlegi Stríðsglæpadómstóllinn rannsakar sérstaklega stríðsglæpi á meðal þessarra fjögurra ríkja en hjá þeim þjóðum þar sem átök og stríð geysa er nauðgunum víða beitt sem vopni og eru konur og stúlkur gjarnan neyddar til kynlífsþrælkunar. Verkefni samtakanna felst fyrst og fremst í að safna gögnum og sönnunum á stríðsglæpum gegn konum. Með gagnasöfnun samtakanna hefur náðst að sakfella í níu málum sem kærð hafa verið fyrir dómstóla. Árið 2014 höfðu samtökin áhrif á líf 4.959 stúlkna og kvenna í löndunum fjórum. Samtökin hljóta styrk úr Styrktarsjóði Sameinuðu þjóðanna gegn ofbeldi gegn konum og stúlkum sem UN Women styrkir dyggilega.

Mehwar-kvennaathvarfið í Palestínu
UN Women styrkir starfsemi Mehwar- kvennaathvarfsins í Betlehem, Palestínu. Athvarfið sérhæfir sig í að veita konum og stúlkum sem beittar hafa verið ofbeldi vernd og endurhæfingu. Mehwar-athvarfið er styrkt af UN Women og er eitt af helstu verkefnum samtakanna í Palestínu. Markmið athvarfsins er að veita þolendum ofbeldis vernd, sálfræðimeðferð, félagslegan stuðning, lagalega aðstoð og ráðgjöf. Lesa meira um kvennaathvarfið í Palestínu.

Athvarf í Kambódíu fyrir sýrurárásaþolendur
UN Women styrkir athvarf í borginni Siem Reap í Kambódíu fyrir konur sem orðið hafa fyrir sýruárásum. Sýra er ódýrt og aðgengilegt vopn sem leggur líf þúsundir kvenna og stúlkna í rúst í Kambódíu. Algengt er að konur verði fyrir sýruárásum fyrir að óhlýðnast fjölskyldu sinni, eiga í ástarsamböndum eða sækja um skilnað frá ofbeldisfullum eiginmönnum. Þar er konum tryggð læknisþjónusta, sálfræðiaðstoð og jafningjastuðningur. Lesa sögu Chhean, þolanda sýruárásar.

Related Posts