fbpx

Til hamingju Malala!

Heim / Fréttir / Til hamingju Malala!

malalfundHvaða orð lýsa réttilega hugrekki Malölu Yousafzai, 17 ára pakistanskrar stúlku sem hefur frá 12 ára aldri barist fyrir réttindum stúlkna til að sækja skóla?

Sú barátta leiddi til þess þegar hún var 14 ára gömul að hópur Talibana réðst á hana þar sem hún var með skólafélögum sínum og skutu hana í höfuðið.

Malala lét þessa grimmilegu árás ekki stöðva sig. Hún náði góðum bata og hefur ótrauð haldið baráttu sinni áfram og með henni vakið eftirtekt og aðdáun. Malala hefur farið þess á leit við alþjóðasamfélagið að það styðji þá kröfu að mannréttindi allra stúlkna séu virt og réttindi þeirra til að sækja sér menntun verði viðurkennd. “Hvaða áhrif hefur það á samfélög að stúlkur séu menntaðar?” spyr Malala og svarar sjálf:  “Það breytir ÖLLU!” Sterkar stelpur eru nefnilega lykillinn að sterkum samfélögum. Með menntun þeirra má rjúfa þann vítahring fátæktar sem fólk víða um heim býr við. Þó eru enn milljónir ungra stúlkna sem hafa ekki kost á því að ganga í skóla.

Afturhaldshópar víða um heim hræðast fátt meira en menntaðar stelpur. Meðal þeirra eru Talibanar sem ógna stúlkum, fjölskyldum þeirra og kennurum í sveitum Afganistan. Það er daglegt brauð að þeir loki skólum og ráðist á skólastúlkur. Slíkir atburðir rata ekki í heimsfréttirnar.

Á alþjóðlegum degi stúlkubarnsins árið 2014, fögnum við því að hin unga Malala skuli hafa hlotið friðarverðlaun Nóbels. En sama dag verðum við að minnast þess að 180 dagar eru liðnir frá því að öfgahópur Boko Haram, sem er mjög andsnúinn því að stúlkur hljóti menntun, rændi 276 námsstúlkum úr skóla í Nígeríu. Enn eru 219 þessara barna fangar öfgamannanna. 57 stúlkur náðu að flýja fangara sína en nígerískum yfirvöldum hefur ekki tekist að bjarga einni einustu af þessum stúlkum. Við verðum að taka saman höndum og beita öllum okkar ráðum til að hjálpa þessum og öðrum stúlkum til að losna úr þeim grimmilega veruleika sem þær búa við.

Emma Watson, velgjörðarsendiherra UN Women hélt áhrifamikla ræðu á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna fyrir stuttu. Þar biðlar hún til okkar allra að einbeita okkur að því sem að sameinar okkur en ekki því sem aðskilur okkur. Stöndum saman, þvert á landfræðilega fjarlægð, kyn, aldur eða stétt. Einfaldasta leiðin til að byggja upp sterkari samfélög og betri heim er að mennta ungar stúlkur. Sterkar stelpur gera sterk samfélög.

Malala Yousafzai á sannarlega skilið að fá friðarverðlaun Nóbels. Hún og milljónir annarra stúlkna vilja ráða örlögum sínum sjálfar, mennta sig og búa í samfélagi þar sem líf þeirra er metið til jafns við líf drengja. Stöndum með þeim!

Related Posts