Taka þarf mið af stöðu kvenna og stúlkna við mat á umsóknum um alþjóðlega vernd

Home / Fréttir / Taka þarf mið af stöðu kvenna og stúlkna við mat á umsóknum um alþjóðlega vernd

Af gefnu tilefni vill UN Women á Íslandi ítreka afstöðu sína sem sett var fram í umsögn UN Women á Íslandi um frumvarp til laga um breytingu á lögum um útlendinga og lögum um atvinnuréttindi útlendinga (alþjóðleg vernd, brottvísunartilskipunin, dvalar- og atvinnuleyfi) dagsett 28. maí 2020.

„Í lok greinargerðar með frumvarpinu kemur skýrt fram undir 6. lið um Mat á áhrifum, að frumvarpið geri ekki greinarmun á kynjum eða tekur kyn til skoðunar og því hvorki gert ráð fyrir að frumvarpið hafi áhrif á jafnrétti né stöðu kynjanna. UN Women á Íslandi telur það þvert á móti vera mismunun að ekki sé tekið tillit til kyns og kyngervis. Það er staðreynd að staða kvenna á flótta er sérstaklega viðkvæm þar sem þær standa frammi fyrir fjölþættri mismunun, svo sem hættunni á kynbundinni mismunun og kynferðislegu ofbeldi. Sérstaða Íslands ætti að vera sú að byggja flóttamannastefnu sína á jafnrétti þar sem tekið er mið af veruleika kvenna á flótta, barna og annarra minnihlutahópa, líkt og utanríkisstefna Íslands gerir.

Jafnréttissjónarmið verða að vera leiðarljós í lögum um útlendinga og allri móttöku flóttafólks íslenskra stjórnvalda. Fjöldamörg dæmi hafa sýnt hvernig Ísland hefur tekið á móti kvótaflóttafólki með jafnréttissjónarmið að leiðarljósi, en það sama er ekki upp á teningnum varðandi umsóknir hælisleitenda. Víða um heim er ofbeldi gegn konum, limlesting á kynfærum stúlkna og þvinguð barnahjónabönd enn lögleg.

Á þörfum hverra er skilgreiningin byggð?

Útlendingastofnun byggir sína vinnu á skilgreiningum á því hvaða ríki teljast örugg og hvaða ríki teljast ekki örugg. UN Women á Íslandi gerir athugasemd við þessar skilgreiningar og spyr: á þörfum hverra er skilgreiningin byggð? Eru þarfirnar metnar útfrá stöðu karla eða kvenna, fatlaðara, samkynhneigðra, barna eða annarra? Miðað við þær brottvísanir sem hafa átt sér stað á fólki sem sóst hefur eftir alþjóðlegri vernd á Íslandi, þar sem albönsk þunguð kona, gengin 36 vikur, var send úr landi í 19 tíma ferðalag, þvert á ráðleggingar fæðingarlæknis virðist ekki tekið tillit til þarfa og stöðu kvenna. Hjón frá Pakistan sem óttuðust um líf sitt ef þau yrðu send til baka til Pakistan, þar sem heiðursmorð eru enn við lýði fyrir að giftast í óþökk fjölskyldunnar. UN Women á Íslandi biðlar til yfirvalda að horfa ekki einungis til vestrænna gilda heldur mun frekar til berskjöldunar kvenna á flótta, byggða á innsýn í menningu og samfélög annarra heimshluta.“

Við þetta má bæta að í Egyptalandi hafa um 90% stúlkna og kvenna á aldrinum 15-49 ára verið limlestar á kynfærum. UN Women í Egyptalandi, ásamst systurstofnunum sínum UNICEF, UNFPA og UNDP, vinnur hörðum höndum að því að uppræta þennan skaðlega sið, sem flokkast undir kynbundið ofbeldi og er eitt stærsta mannréttindabrot sem fyrirfinnst gagnvart konum og stúlkum.

Við ítrekum því mikilvægi þess að taka tillit til stöðu og þarfa kvenna og stúlkna við mat á umsóknum fólks um alþjóðlega vernd.

Stella Samúelsdóttir, framkvæmdastýra UN Women á Íslandi

Related Posts