Fyrsti alþjóðlegi jafnlaunadagurinn

Home / Fréttir / Fyrsti alþjóðlegi jafnlaunadagurinn

Á heimsvísu mælist kynbundinn launamunur 16%.
Það þýðir að konur þéna að meðaltali 84% af því sem karlmenn þéna.

Þessi mismunun hefur raunverulegar neikvæðar afleiðingar fyrir konur og fjölskyldur þeirra. Áhrifin ýkjast meira í neyð. Talið er að útbreidd áhrif Covid-19 geti ýtt 91 milljóna manna í sárafátækt fyrir árið 2021, sem þýðir að 435 milljónir kvenna og stúlkna muni koma til með að lifa á undir 2 dollurum á dag.

Sömu laun fyrir sömu vinnu 2277

Að óbreyttu mun taka rúmlega 250 ár að jafna launamun kynjanna í heiminum. Samkvæmt skýrslu Alþjóðaefnahagsráðsins frá síðasta ári koma karlar og konur ekki til með að fá sömu laun fyrir sömu vinnu fyrr en árið 2277.

Að frumkvæði Íslands samþykkti mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna ályktun í fyrra um árlegan alþjóðlegan jafnlaunadag sem haldinn verður í fyrsta sinn í dag, föstudaginn 18. september.

Markmiðið með jafnlaunadeginum er að vekja athygli á aðgerðum sem stuðla að launajafnrétti og að hann verði hvatning til frekari aðgerða til að markmiðið um jöfn laun fyrir jafnverðmæt störf nái fram að ganga í samræmi við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Aldarfjórðungur er liðinn frá því þjóðir heims skuldbundu sig til þess að tryggja „sömu laun fyrir sömu vinnu“ en það gerðist á fjórða kvennaþingi Sameinuðu þjóðanna í Peking.

Öll velkomin á málþing um launajafnrétti

Í tilefni af fyrsta alþjóðlega jafnlaunadeginum er haldið rafrænt málþing á vegum alþjóðasamtaka um launajafnrétti (EPIC) í dag kl.13. Á meðal þeirra þjóðarleiðtoga sem taka þátt eru Guðni Th. Jóhannesson en auk þeirra taka þátt forystufólk EPIC, Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO), Alþjóða efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD), Alþjóðasamtökum atvinnurekenda (IOE), Alþjóðasamtaka verkalýðshreyfinga (ITUC) og UN Women.

Að loknum ávörpum fara fram pallborðsumræður með þátttakendum úr röðum fræðasamfélagsins, verkalýðssamtaka, atvinnurekenda, stjórnvalda og aðgerðasinna. Fulltrúi Íslands í pallborði verður Þorsteinn Víglundsson, forstjóri og fyrrverandi alþingismaður og félags- og jafnréttismálaráðherra,  líkt og fram kemur í Heimsljósi upplýsingaveita utanríkisráðuneytisins um þróunar- og mannúðarmál.

VERTU MEÐ

Málþingið hefst kl. 13:00 að íslenskum tíma og öllum er velkomið að fylgjast með

Related Posts