fbpx

FO bolurinn seldist upp á 48 klukkustundum

Heim / Fréttir / FO bolurinn seldist upp á 48 klukkustundum

„Það er afar ánægjulegt að segja frá því að með sölu á Fokk Ofbeldi bolnum söfnuðust tæpar 12 milljónir sem renna til verkefna UN Women í Líbanon, en FO bolurinn var settur í sölu 3. september og seldist upp á rúmum tveimur sólarhringum,“ segir Stella Samúelsdóttir, framkvæmdastýra UN Women á Íslandi.

Með söfnunarfénu verður sett á stofn neyðarlína fyrir þolendur kynbundins ofbeldis í Líbanon og öruggt athvarf fyrir konur sem þurfa að þola margþætta mismunun vegna aldurs, fötlunar eða kynhneigðar. Í athvarfinu fá þær sálræna aðstoð og viðeigandi þjónustu sem gerir þeim kleift að koma undir sig fótunum á ný.

Konur og stúlkur í Líbanon eru sérstaklega berskjaldaðar fyrir kynbundnu ofbeldi. Sprengingarnar 4. ágúst síðastliðinn, Covid-19 faraldurinn og djúpstæð efnahagskreppa undanfarinna ára veikja stöðu kvenna og stúlkna enn frekar.

„Við hjá UN Women þökkum öllum þeim sem nældu sér í FO bolinn innilega fyrir stuðninginn. Við viljum líka þakka Vodafone, okkar trausta bakhjarli sem kostaði framleiðslu á bolnum og gerði okkur hjá UN Women á Íslandi kleift að hleypa þessu mikilvæga verkefni af stokkunum. Stuðningur Vodafone er okkar starfi ómetanlegur,“ segir Stella.

Related Posts