Sprett úr spori fyrir konur á flótta

Home / Fréttir / Sprett úr spori fyrir konur á flótta

konuraflottamarathonMargar konur á flótta eru barnshafandi og dreymir um að fæða börn sín inn í sanngjarnan heim.

Þær hætta lífi sínu í þeirri von að börn þeirra fæðist við friðsælar aðstæður og leita meðal annars til Evrópu. Oft ná þær ekki á áfangastað og fjölmargar konur eiga börn sín á flótta og í flóttamannabúðum. Konur gefa hvítvoðungum sínum brjóst í litlum tjöldum í nístingskulda yfir veturinn og steikjandi hita frá vori til hausts. Flest ungbarnanna sofa á stöflum af teppum við hlið mæðra sinna.
„Litla barnið mitt er kvalið rétt eins og ég sjálf. Ég veit ekki hvaða framtíð hann á fyrir sér“ segir Mohamad sem flúði frá Aleppo í Sýrlandi til Evrópu. „Framtíð litla sonar míns er glötuð. Miðað við þær aðstæður sem hann fæddist inn í og hefur varið sínu lífi, þá trúi ég því ekki að hann eigi framtíðina fyrir sér. Okkur tókst að flýja stríðið og komast til Evrópu en þegar við komumst loks til Evrópu lokuðust landamærin og hér sitjum við föst. Það eina sem við þráum er að búa við öryggi.“
Neyðarástand ríkir á landamærastöðvum í Evrópu sem einkennist af örvæntingu, ótta og úrræðaleysi. Búið er að loka landamærum í Serbíu og Makedóníu og er fólk nú í auknum mæli sent til Tyrklands. Flest sýrlenskt flóttafólk dvelur í Tyrklandi eða 2.7 milljónir manna og þar af rúm ein og hálf milljón sýrlenskra flóttakvenna. Hálf milljón flóttakvennanna í Tyrklandi eru á barnseignaraldri.
Á Íslandi eru 78 þúsund konur á aldrinum 15-49 ára. Sjötíu þúsund sýrlenskar konur eru barnshafandi á flótta og þá eingöngu utan Sýrlands.
Talið er að 12% kvenna sem ferðast yfir Miðjarðarhafið séu með barni en 70 þúsund barnshafandi sýrlenskar konur eru á flótta utan heimalands síns. Margar eru með börn á brjósti eða ferðast með ungabörn með sér. Gríðarleg aukning hefur orðið á mæðradauða á meðal flóttakvenna síðastliðin ár. Nauðsynlegt er að taka mið af þörfum kvenna svo þær geti gætt barna sinna á þessu hættulega ferðalagi og hlotið nauðsynlega fæðingarþjónustu og ungbarnavernd.
Konur á flótta í Evrópu búa við mikinn skort á öryggi. Þær ferðast fótgangandi að næturlagi í afskekktum héruðum landsins fjarri lögreglu, á óupplýstum leiðum og ómalbikuðum vegum, halda til í niðurníddum lestum á nóttunni, eiga ekki í nein hús venda og búa við stöðugt öryggisleysi.
Hvað er UN Women að gera í málinu?
UN Women vinnur hörðum höndum að því að bregðast við neyð kvenna á flótta og mæta þörfum þeirra með sértækri þjónustu færanlegra heilsugæslustöðva sem UN Women starfrækir á landamærastöðvum í Makedóníu, Serbíu og Tyrklandi. Færanlegu heilsugæslurnar eru örugg svæði fyrir konur, fullbúnar þverfaglegum teymum samsettum af; lögfræðingi, félagsráðgjafa, lækni, sálfræðingi og túlki sem veita konunum viðeigandi neyðaraðstoð. Heilsugæslurnar færast milli svæða eftir því hvar neyðin er mest hverju sinni og eru opnar sjö daga vikunnar. Með því að starfrækja færanlegar heilsugæslustöðvar fá konur á flótta:
•    Ungbarna- og mæðravernd.
•    Aðgang að þjónustu kvenkyns- kvensjúkdómalækna, -lækna og hjúkrunarfræðinga.
•    Fatnað, rúm, sængur og hreinlætisvörur.Neyðin er mikil.

Með því að hlaupa í nafni UN Women eða heita á hlaupara UN Women veitir þú konum á flótta þá nauðsynlegu vernd sem þær þurfa við afar erfiðar aðstæður. Hver króna skiptir máli. Sprettum úr spori fyrir konur á flótta.
Þú getur skráð þig til leiks hér: www.hlaupastyrkur.is eða heitið á hlaupara UN Women með því að smella á eftirfarandi hlekk. https://www.hlaupastyrkur.is/godgerdafelog/charity/165/un-women-a-islandi
Þinn stuðningur skiptir máli!

Related Posts