Sóttvarnapakki og Sæmdarsett jólagjöfin í ár

Home / Fréttir / Sóttvarnapakki og Sæmdarsett jólagjöfin í ár

Í tilefni af alþjóðlegum baráttudegi gegn kynbundnu ofbeldi hefjum við sölu á jólagjöfum UN Women.

Táknrænar jólagjafir UN Women eru sífellt að verða vinsælli. COVID-19 hefur skelfileg áhrif á líf kvenna og eykur enn ójöfnuð – sérstaklega þar sem konur standa höllum fæti fyrir. UN Women býður upp á fjölda táknrænna jólagjafa í formi gjafabréfa, og eru áhrif Covid-19 í forgrunni í gjafaúrvalinu þetta árið. Ein af þeim vinsælustu er Sóttvarnapakki fyrir Róhingjakonu á flótta í Bangladess sem kostar 1500 krónur. Hann inniheldur andlitsgrímu sem saumuð er á staðnum, handspritt og sápu. Sæmdarsett fyrir konur í Líbanon kostar 3500 krónur og inniheldur dömubindi, nærfatnað, sápur, sjampó, tannkrem, tannbursta og handklæði. Fyrir 5800 krónur er svo hægt að fá gjöf sem veitir konu og börnum hennar skjól í kvennaathvarfi í Eþíópíu sem UN Women stofnaði til að bregðast við aukinni þörf í Covid-19 faraldrinum.

Vegna COVID-19 verður því miður engin Ljósaganga UN Women í ár sem vanalega markar upphaf 16 daga átaks gegn kynbundnu ofbeldi sem lýkur svo 10. desember á alþjóðlegum mannréttindadegi. Harpa verður hins vegar lýst upp í appelsínugulum lit líkt og undanfarin ár, en liturinn er táknrænn fyrir von og bjarta framtíð kvenna og stúlkna án ofbeldis. Í dag hvetjum við hjá UN Women á Íslandi ykkur öll til að gefa þeim sem ykkur þykir vænst um táknræna gjöf UN Women, gjöf sem gefur von og kraft.

Related Posts