Minningarorð um Lilju Dóru Kolbeinsdóttur

Home / Fréttir / Minningarorð um Lilju Dóru Kolbeinsdóttur

Við, starfskonur UN Women á Íslandi kveðjum og minnumst góðrar vinkonu, Lilju Dóru Kolbeinsdóttur sem verður jarðsungin í dag.

Lilja Dóra gerði það að ævistarfi sínu að starfa að þróunarsamvinnu og var alla tíð málsvari þeirra raddlausu og jaðarsettustu í fátækustu ríkjum heims. Hennar ástríða voru mannréttindi og þar fremst voru jafnréttismál, kyn- og frjósemisréttindi kvenna og menntun stúlkna og kvenna. Lengst starfaði hún í tvíhliða þróunarsamvinnu fyrir íslensk stjórnvöld.

Fyrir tveimur árum síðan vorum við tvær starfskonur og verndari UN Women á Íslandi stödd í Malaví. Annars vegar að að vinna fræðsluefni fyrir sjónvarpsþátt UN Women á Íslandi og hinsvegar að halda fyrstu rakarastofuráðstefnurnar sem haldnar hafa verið í Afríku í samstarfi við utanríkisráðuneytið og Lilju Dóru sem starfaði í sendiráði Íslands í Malaví. Þar tóku hún og Nelson eiginmaður hennar á móti okkur á heimili sínu, þar sem við dvöldum í heila viku, af einstakri gestrisni og hlýju og greiddu götu okkar í öllu því sem við gerðum. Fyrir utan öll frábæru samtölin sem við áttum um þróunar- og jafnréttismál þar sem þekking og ástríða Lilju Dóru skein alltaf svo skært.

Ísland hefur misst ómetanlegan fulltrúa á alþjóðavettvangi sem sinnti verkefnum sínum af einlægni og metnaði og bar virðingu fyrir öllu fólki. Minningin um yndislega konu og styrk hennar mun leiða okkur áfram í baráttunni fyrir betri heimi fyrir okkur öll.

Við vottum Nelson, Aminu, fjölskyldu og vinum Lilju Dóru okkar innilegustu samúðarkveðjur. Hugur okkar er hjá ykkur á þessum erfiðu tímum.

Fyrir hönd UN Women á Íslandi,

Stella Samúelsdóttir, framkvæmdastýra UN Women.

Related Posts
Jólagjöf UN Women kvennaathvarf í Eþíópíu