fbpx

Síerra Leóne: 489 hlotið aðstoð í „one-stop“ miðstöð á einu ári

Heim / Fréttir / Síerra Leóne: 489 hlotið aðstoð í „one-stop“ miðstöð á einu ári

Konur að störfum í Síerra Leóne.

Síerra Leóne er lítið land sem staðsett er á vesturströnd Afríku. Íbúar landsins eru tæplega 8 milljónir, þar af er rétt rúmur helmingur konur og stúlkur. Líkt og í flestum ríkjum heims er kynbundið ofbeldi mikið samfélagslegt mein í Síerra Leóne. 61% kvenna á aldrinum 15-49 ára hafa verið beittar líkamlegu ofbeldi einhvern tímann á ævi sinni og er þessi tala hærri á meðal yngri kvenna: 67% stúlkna á aldrinum 15 – 29 ára hafa verið beittar líkamlegu ofbeldi.

Samkvæmt upplýsingum frá UN Women í Síerra Leóne eru konur og stúlkur markvisst beittar kynbundnu ofbeldi. Konur eru beittar líkamlegu ofbeldi og andlegu ofbeldi en einnig kerfislægu ofbeldi vegna kyns síns. Stúlkubörn eru talin minna virði en drengir og stúlkur og konur fá síður aðgengi að menntun, heilbrigðisþjónustu eða atvinnumarkaði. Afleiðing þessa kerfislæga ofbeldis eru há tíðni mæðradauða, lágt menntunarstig meðal kvenna, auknar líkur á HIV-smiti, sárafátækt og lítil þátttaka í stjórnmálum. Allt þetta hefur svo þau áhrif að vegna veikrar stöðu samfélagslegrar stöðu sinnar eru þær berskjaldaðri fyrir hvers kyns kynbundnu ofbeldi og hafa fá úrræði til að leita réttar síns.

Hvað gerir UN Women í Síerra Leóne?

UN Women hefur haft viðveru í Síerra Leóne frá árinu 2002, sama ár og tíu ára borgarastríði lauk formlega. Verkefni UN Women eru fjölbreytt en miða öll að því að auka réttindi kvenna og berjast gegn kynbundnu ofbeldi. Í apríl árið 2020 kom Jafnréttis- og barnamálaráðuneyti Síerra Leóne á laggirnar „one stop“ miðstöð fyrir þolendur kynbundins ofbeldis í samstarfi við UN Women. Þessar miðstöðvar veita fjölþætta þjónustu til þolenda og var Síerra Leóne eitt fyrsta ríki Afríku til að koma slíkri miðstöð á fót. Aðeins átta önnur ríki Afríku reka slíkar miðstöðvar í dag.

Þar hljóta þolendur læknisþjónustu, lagalega ráðgjöf og sálræna aðstoð, án endurgjalds. Þrátt fyrir lagabreytingar sem gerðar voru árið 2007 kveði á um að þolendur kynbundins ofbeldis eigi rétt á gjaldlausri læknisaðstoð, eru þau flest krafin um greiðslu á sjúkrahúsum. Margir þolendur hafa því ekki efni á að sækja sér læknisaðstoð í kjölfar ofbeldis. Frá janúar 2022 til febrúar 2023 fengu 489 þolendur aðstoð í „one  stop“ miðstöð.

Sleppa við langt ferðalag á hjóli til læknis

One-stop miðstöð er rekin í Karene-héraði í norðvesturhluta Síerra Leóne, en þar stundar meirihluti íbúa landbúnað.

„Það er mjög jákvætt að fá þessa miðstöð hingað. Nú þurfa þolendur ekki að glíma við álagið sem fylgir langri ferð á hjóli til Makeni-borgar til að nálgast læknisþjónustu,“ sagði yfirmaður lögreglunnar í Karene-héraði við opnun miðstöðvarinnar.

FO-herferð UN Women á Íslandi í ár verður til stuðnings verkefnum UN Women í Sierra Leone sem hafa það að markmiði að uppræta kynbundið ofbeldi og styðja við þolendur. Herferðin er studd af utanríkisráðuneytinu.

Related Posts