Sagafilm hlaut hvatningarverðlaun jafnréttismála 2018

Home / Fréttir / Sagafilm hlaut hvatningarverðlaun jafnréttismála 2018

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, veitti Sagafilm Hvatningarverðlaun jafnréttismála árið 2018 á fundi um Jafnréttismál sem haldinn var í Háskóla Íslands í morgun. Efni fundarins var vinnustaðamenning og jafnrétti á vinnumarkaði. Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, setti fundinn með stuttu ávarpi. Ásta Jóhannsdóttir, nýdoktor á Félagsvísindasviði Háskóla Íslands, flutti erindi um breytingar og áskoranir í kjölfar #metoo byltingarinnar og Magnús Orri Schram, ráðgjafi og stjórnarmaður UN Women á Íslandi flutti erindið „fótbolti og femínismi“ auk þess sem Stefán Sigurðsson, forstjóri Sýnar og handhafi hvatningarverðlauna jafnréttismála 2017 flutti erindi um þau jákvæðu og hvetjandi áhrif sem hvatningarverðlaunin hafa haft fyrir fyrirtækið.

Að endingu veitti Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar Saga Film hvatningarverðlaun jafnréttismála. Hilmar Sigurðsson, forstjóri Saga Film veitti verðlaununum viðtöku og tók fram að í þremur nýfrumsýndum þáttaröðum Saga Film hafi konur verið í aðalhlutverki, en bætti jafnframt við að betur má ef duga skal.

Í áliti dómnefndar kom m.a. fram: „Árangur fyrirtækisins í jafnréttismálum ber þess merki að stjórnendur hafa sett skýr mark

mið og óhikað  hrundið þeim í framkvæmd. Saga Film starfar í geira þar sem karlar hafa verið ráðandi og því nauðsynlegt að hafa einbeittan vilja til að breyta því. Meðvitaðar ákvarðanir hefur þurft til að tefla fram kvenkyns leikstjórum og handritshöfundum.

Snarpir vindar hafa blásið um jafnréttisumræðuna að undanförnu og gert að verkum að við höfum þurft að staldra við og endurskoða gamalgróin viðhorf. Sú umræða spratt frá borg englanna, heimahöfn alþjóðlega kvikmyndageirans. Það er því einstaklega ánægjulegt og til marks um breyttar áherslur í geiranum, að viðurkenninguna að þessu sinni hljóti fyrirtæki sem sé leiðandi á því sviði.“

Þess má geta að í dómnefnd sátu Helga Lára Haarde formaður dómnefndar skipuð af Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, Þorsteinn Kári Jónsson frá Festu, Arnar Gíslasson frá Háskóla Íslands og Bergþóra Halldórsdóttir frá Samtökum atvinnulífsins.

Fundarstjóri var Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

Hvatningarverðlaunum jafnréttismála er ætlað að vekja jákvæða athygli á fyrirtækjum sem hafa stuðlað að jafnrétti á markvissan hátt innan sinna fyrirtækja og jafnframt að hvetja önnur fyrirtæki til að gera slíkt hið sama. Að verðlaununum standa atvinnu- og nýsköpunarráðuneytið, Samtök atvinnulífsins, Festa – miðstöð um samfélagsábyrgð og Háskóli Íslands en sérstakur samstarfsaðili er UN Women á Íslandi.

Fundarstjóri var Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.

Starfsfólk og stjórn UN Women á Íslandi óskar Saga Film til hamingju.

Related Posts