fbpx

Reynslusaga: „Enginn venst sársauka eða hættir að finna fyrir honum“

Heim / Dæmisögur / Reynslusaga: „Enginn venst sársauka eða hættir að finna fyrir honum“

Sanabel Ahmed Abusaid býr á Gaza-svæðinu í Palestínu.

„Þegar átök eru yfirvofandi pökkum við nauðsynjum, draumum okkar og minningum í litlar töskur sem við geymum við útidyrnar komi til þess að við þurfum að flýja heimili okkar í skyndi. Þessar töskur munu annað hvort lifa átökin af með okkur, eða vera til minningar um okkur og það líf sem við áttum.“

Sanabel Ahmed Abusaid er 39 ára gömul og býr ásamt 13 ára dóttur sinni, foreldrum og bróður á Gaza-svæðinu í Palestínu. Hún vinnur hjá frjálsu félagasamtökunum Women‘s Affairs Centre sem eru starfandi á Gaza. Félagasamtökin eru ein af samstarfsaðilum UN Women á svæðinu.

Þann 9. maí hóf ísraelski herinn loftárásir á Gaza. Að sögn hersins voru skotmörk árásanna meðlimir Islamic Jihad samtakanna. Árásunum var svarað með loftskeytum frá Gaza. Árásirnar stóðu yfir í fimm daga og kostuðu 34 íbúar Gaza lífið og 190 særðust. Í Ísrael létust tvö og 40 særðust. Fjöldi bygginga eyðilagðist í árásunum og urðu til þess að 1.244 Palestínufólk er nú á vergangi og hafa 43 einstaklingar fengið skjól í skóla sem rekinn er af UNRWA, stofnun Sameinuðu þjóðanna sem sinnir palestínsku flóttafólki í Jórdaníu, Sýrlandi, Líbanon og í flóttamannabúðum á Gaza og á Vesturbakkanum. Stofnuninni var komið á laggirnar 1950 til að bregðast við þeim mikla fjölda fólks sem misstu heimili sín og lífsviðurværi í átökunum árið 1948. Í upphafi voru það um 750 þúsund einstaklingar, í dag sinnir UNRWA um 5,9 milljónum Palestínufólks.

 

Draumarnir verða undir rústunum

„Við höfum upplifað of mörg vopnuð átök hér. Í hvert sinn sem átök geisa, kosta þau fjölda lífa og skilja eftir sig eftirlifendur sem þurfa að takast á við missinn og eyðilegginguna. Í hvert sinn verða draumar fólks og minningar eftir í rústunum.

Þegar ný átakahrina hefst, fyllist ég ótta. Ég hræðist það að sjá óttann í augum dóttur minnar og finna hve ört hjarta hennar slær. Mér finnst ég hafa stofnað lífi hennar í hættu með því einu að hafa fætt hana hér. Það skiptir engu máli hversu mikið ég reyni að gefa henni gott líf, mér finnst mér alltaf mistakast. Mér finnst það mér að kenna að hún hafi ekki hlotið áhyggjulausa æsku.

Ég óttast að þurfa að flýja heimili mitt og þurfa að hefja nýtt líf annars staðar og um leið skilja allt okkar eftir. Í hvert sinn sem átök brjótast út, ákveð ég að nú muni ég yfirgefa Gaza í stað þess að útsetja dóttur mína fyrir meiri hörmungum og ótta. Ekki það að það yrði auðvelt að yfirgefa Gaza. Það er nógu erfitt að verða sér úti um ferðaheimildir undir „venjulegum“ kringumstæðum, hvað þá þegar átök brjótast út. Faðir minn er sjötugur og neitar að yfirgefa heimili sitt. Fyrir hann er það eins og að tapa sálu sinni. Ég vildi óska að ég gæti farið með dóttur mína og fjölskyldu og þannig bjargað þeirri litlu mennsku sem við eigum þó eftir, en ég get það ekki.“


Mun aldrei venjast dauða og eyðileggingu

„Þegar samið var um vopnahlé var mér létt því við fjölskyldan höfðum öll lifað af enn ein átökin.

Ég heyri fólk oft halda því fram að Gazabúar séu vön stríði. Við erum það ekki og munum aldrei venjast dauða og eyðileggingu. Enginn venst sársauka eða hættir að finna fyrir honum.

Síðasta átakahrina entist aðeins í fimm daga. Ég vildi óska að ég gæti haldið því fram að við séum örugg nú þegar árásirnar hafa hætt. En við erum það ekki. Eftir hver átök, höldum við áfram að lifa í ótta, því það kemur alltaf aftur stríð.“

UN Women er starfandi í Palestínu og vinnur náið með kvennasamtökum og öðrum félagasamtökum við valdeflingu kvenna. UN Women vinnur jafnframt með palestínskum yfirvöldum að því að bæta stöðu og lagaleg réttindi kvenna og stúlkna í landinu. UN Women leggur mikla áherslu á að auka þátttöku kvenna í friðarviðræðum og -umleitunum og í uppbyggingu landsins.

Related Posts
Bangladesh - Róhingjakonur og - börn í flóttamannabúðum