fbpx

Alþjóðlegur dagur fólks á flótta er þann 20. júní

Heim / Fréttir / Alþjóðlegur dagur fólks á flótta er þann 20. júní

Alþjóðlegur dagur fólks á flótta er í dag, 20. júní. Á þessum degi í ár er sérstök áhersla lögð á mikilvægi inngildingar flóttafólks og aðgengis að björgum og ráðum.

Róhingjastúlka í Balukhali flóttamannabúðunum. Mynd tekin 5. mars 2018

Mynd: UN Women/Allison Joyce – Róhingjastúlka í Balukhali flóttamannabúðunum

Aldrei hafa fleiri verið á flótta í heiminum og í dag

Í ársskýrslu Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna sem kom út nú á dögunum fyrir árið 2022, segir að í lok ársins hafi fjöldi fólks á flótta náð metfjölda, eða 108,4 milljónum og er þetta 19,1 milljón fleiri en árið áður. Þetta er mesta fjölgun sem mælst hefur og eru konur og börn nú orðin 70% fólks á flótta. Stríð, ofsóknir, ofbeldi, mannréttindabrot og loftslagsbreytingar eru helstu ástæður þess að fólk flýr heimili sín og leggur sig í gríðarlega hættu í leit sinni að öryggi og betra lífi. Til þess þarf fólk oftar en ekki að fara yfir Miðjarðarhafið.

Miðjarðarhafið eitt hættulegasta yfirferðarsvæðið

Samkvæmt Sameinuðu þjóðunum hafa fleiri en 20 þúsund látið lífið eða horfið við sjóferðina yfir Miðjarðarhafið frá árinu 2014, sem gerir það að einu hættulegasta yfirferðarsvæði í heiminum fyrir fólk á flótta. Sjóslysið við strendur Grikklands þann 14. júní síðastliðinn, þar sem að minnsta kosti um 80 létu lífið og hundruða er saknað, er nýlegasta og jafnframt mannskæðasta sjóslys þar hin síðari ár. Eftirlifendur segja að konur og börn hafi öll verið undir þiljum.  

Mismunandi áhrif átaka og loftslagsbreytinga

Stríðsátök hafa ólík áhrif á líf fólks eftir stöðu þeirra og kyni. Á meðan karlmenn eru líklegri til að deyja í átökum eru konur líklegri til að verða fyrir kynbundnu ofbeldi, mansali og búa við skort þegar stríðsátök geisa. Þá margfaldast tíðni mæðra- og ungbarnadauða á stríðstímum. Meira en 20 milljónir jarðarbúa hefur þurft að flýja heimili sín sökum loftslagsbreytinga og hamfarahlýnunar. Á meðan loftslagsbreytingar hafa áhrif á okkur öll eru afleiðingar þeirra mismiklar eftir búsetu fólks, kyni, aldri og stöðu. Konur eru fjórtán sinnum líklegri til að láta lífið vegna náttúruhamfara en karlmenn og  þvinguðum barnahjónaböndum fjölgar í kjölfar náttúruhamfara, á tímum átaka og þegar fæðuskortur ríkir.

UN Women hefur lagt mikla áherslu á að kvenmiðuð neyðaraðstoð sé veitt á átakatímum og þegar um flóttafólk ræðir, ekki aðeins í eigin verkefnum heldur einnig verkefnum annarra viðbragðsaðila og stofnana Sameinuðu þjóðanna. Mikilvægi kvenmiðaðrar neyðaraðstoðar hefur aldrei verið jafn mikilvæg og nú.

 

Bangladesh - Róhingjakonur og - börn í flóttamannabúðum

Mynd: UN Women/Allison Joyce – Ung Róhingjakona og barn í Balukhali flóttamannabúðunum

Related Posts