fbpx

Hamfarahætta og kynjamisrétti eru samtvinnaðar áskoranir – ræða Simu Bahous

Heim / Fréttir / Hamfarahætta og kynjamisrétti eru samtvinnaðar áskoranir – ræða Simu Bahous

Sima Bahous á Risk Reduction Hub í höfumstöðvum Sameinuðu þjóðanna, þann 17. maí 2023. Mynd: UN Women/Ryan Brown

Þann 17. maí síðastliðinn stóðu UN Women, Skrifstofa Sameinuðu þjóðanna fyrir áhættuminnkun vegna hamfara í heiminum (United Nations Office for Disaster Risk Reduction – UNDRR) og Mannfjöldasjóður Sameinuðu þjóðanna (United Nations Population Fund – UNFPA) að fundi, sem var liður í fundaröðinni Risk Reduction Hub, til að ræða mismunandi áhrif hamfara á ólíka hópa og samfélög.
Sima Bahous, framkvæmdastýra UN Women, opnaði fundinn með ræðu þar sem hún sagði að á öllum sviðum verða konur fyrir óhóflegum áhrifum vegna hamfara, bæði á meðan á þeim stendur og í kjölfar þeirra.

„Tíminn er ekki með okkur, kæru vinir, árið 2030 er handan við hornið. Við stöndum frammi fyrir versnandi loftslagsáhrifum og óheftri umhverfishnignun.

Hamfarir stigmagnast á ógnarhraða. Aftakaveður, í bland við skort á skipulagi og viðbragðsáætlunum, gerir það að verkum að milljónir manna sem búa við fátækt missa heimili sín, líf sitt og lífsviðurværi.

Eins og skýrslur sýna hafa hamfarir ólík áhrif á ólíka hópa. Konur fá alla jafna ekki að taka þátt í áætlanagerð vegna loftslagsbreytinga og vegna þessa eru þær fastar í vítahring þar sem hamfarir hafa meiri áhrif á líf þeirra og þær hafa síður aðgengi að úrræðum og neyðargögnum.

Á öllum sviðum verða konur fyrir óhóflegum áhrifum vegna hamfara, bæði á meðan á þeim stendur og í kjölfar þeirra. Við sjáum þetta hvert sem við lítum, allt frá dánartíðni kvenna til skorts á menntun þeirra, heilsutjóns, reynslu af ofbeldi, tapaðs lífsviðurværis og vannæringar.

Þrátt fyrir ávinninginn af viðeigandi lausnum, halda konur áfram að vera að mestu útilokaðar frá áhættuminnkandi aðgerðum vegna hamfara og viðbúnaði við þeim. Það, að útiloka þátttöku kvenna og forystu þeirra ógnar í grundvallaratriðum sameiginlegri seiglu okkar og getu til að takast á við loftslagsáskoranir.

Sjónarhorn kvenna og þátttaka þeirra á öllum stigum leiða óhjákvæmilega til betra viðnámsþols fyrir samfélög og jaðarsetta hópa, sem styrkir stefnumótun og leiðir til að draga úr áhættu á tímum hamfara. Rannsóknir sem gerðar voru í 91 landi árið 2019 sýna að það að kjósa konur til valda hjálpar til við að setja fram metnaðarfulla loftslagsstefnu.

Því fleiri konur sem við höfum í valdastöðum, því líklegra er að við búum við metnaðarfyllri og strangari stefnu hvað aðgerðir gegn loftslagsbreytingum og hamfaraáhættu varðar, meiri áherslu á lífsgæði og betri heilsu og menntun fyrir öll.

Konur koma aftur á stöðugleika í fjölskyldum sínum og samfélögum eftir þurrka, flóð og fellibyli. Eins og við höfum séð í Kyrrahafinu og í Tsjadvatnssvæðinu láta konur til sín taka, sérstaklega þegar þær hafa aðgang að fjármagni, þekkingu og pólitískum stofnunum. Konur eru hið sanna andlit seiglu og þrautseigju. Ég er viss um að þið eruð öll sammála mér.

Leyfið mér líka að minna á að aðildarríkin sameinuðust um að styðja gerð kynbundinnar aðgerðaáætlunar á fundi Kvennanefndarinnar (e. Commission on the Status of Women – CSW) á síðasta ári sem og alþjóðlegum vettvangi um minnkun hamfaraáhættu (e. The Global Platform on Disaster Risk Reduction) á Balí og ráðherraráðstefnu Asíu og Kyrrahafsríkja (e. Asia-Pacific Ministerial Conference).

Nú hafa UN Women, UNDRR og UNFPA tekið höndum saman til að undirstrika að hamfarahætta og kynjamisrétti eru samtvinnaðar áskoranir. Við munum aðeins ná markmiðum okkar þegar við setjum forystu kvenna í forgrunninn á vinnu okkar við að styrkja sameiginlega seiglu okkar.

Sem hluti af þessu samstarfi er UN Women reiðubúið að styðja aðildarríkin og alla aðra hagsmunaaðila við að minnka kynbundin áhrif hamfara.“

 

Loftslagsbreytingar hafa mest áhrif á þau er hafa minnst um þær að segja

Í samfélögum þar sem jöfnuður ríkir er lítill munur á fjölda dauðsfalla meðal kvenna og karla, en í ríkjum þar sem konur búa við skert réttindi eru konur allt að 14 sinnum líklegri til að láta lífið í kjölfar náttúruhamfara en karlar. Þar geta karlmenn einnig treyst á að hljóta forgang í björgunaraðgerðum. Tölurnar styðja við þessa sorglegu staðreynd.

 

Hvers vegna eru konur líklegri til að deyja í kjölfar náttúruhamfara?

Ástæðurnar tengjast allar stöðu kvenna: konur eru frekar bundnar við heimilið en karlar, hafa sjaldan aðgang að sjónvarpi, útvarpi, símum eða öðrum upplýsingatækjum. Víða eru konur ólæsar og geta því ekki aflað sér upplýsinga.

Margar konur yfirgefa ekki heimili sín án þess að vera í fylgd með karlmanni sökum hefða, jafnvel þó viðvaranir séu gefnar út vegna yfirvofandi hættu.

Í mörgum samfélögum borðar konan síðust, eða alls ekki ef skortur er á heimilinu, og eru konur því líkamlega verr á sig komnar en karlmenn. Þá eru konur gjarnan bundnar yfir börnum og eldra fólki og eiga erfitt um vik með að bjarga bæði sér og þeim þegar hamfarir eiga sér stað.

Hér má lesa meira um áhrif loftslagsbreytinga og náttúruhamfara á konur.

Related Posts
Bangladesh - Róhingjakonur og - börn í flóttamannabúðum