fbpx

Rakarastofuráðstefna á Alþingi

Heim / Fréttir / Rakarastofuráðstefna á Alþingi

„Ég er eiginlega í sjöunda himni yfir því hversu vel þetta var heppnað og hve góð mæting var. Ég sé ekki annað en að það sé ánægja á hverju andliti með það að við skyldum standa fyrir þessu,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon Forseti Alþingis við lok Rakarastofuráðstefnu sem haldinn var á Alþingi 9. febrúar.

Þingmenn tóku þátt í umræðum. Mynd: Albertína Friðbjörg Elíasdóttir.

Rakarastofuráðstefnan var haldin í samstarfi við utanríkisráðuneytið og Landsnefnd UN Women á Íslandi en tilgangurinn er að skapa körlum svigrúm til að ræða jafnréttismál og hvernig þeir geta beitt sér gegn kynjamisrétti og stuðlað að kynjajafnrétti í sínu nærumhverfi. Nafn ráðstefnunnar má rekja til þess að víða um heim ræða karlmenn gjarnan saman á  rakarastofum, líkt tíðkast í búningsklefum og heitum pottum hér á landi.

Í upphafi ráðstefnunnar fluttu núverandi og fyrrverandi utanríkisráðherrar, Guðlaugur Þór Þórðarson, og Gunnar Bragi Sveinsson, sameiginlega stutta hugleiðingu um tilurð og hugmyndafræði rakarastofuráðstefna.  Kristín Ástgeirsdóttir fyrrverandi alþingismaður og sagnfræðingur flutti yfirlitserindi um hvað hefur breyst/áunnist síðastliðin 35 ár og stöðuna nú hér á landi. Auk þess sem Kjartan Bjarni Björgvinsson, héraðsdómari og dósent við Háskólann í Reykjavík, flutti erindi um #MeToo og lögin, með áherslu á stöðu kjörinna fulltrúa.

Ásdís Ólafsdóttir kynnti umræðuhópa dagsins og stýrði umræðum í lok dags. Mynd: Albertína Friðbjörg Elíasdóttir.

Því næst tóku við skipulagðar umræður í vinnustofum þar sem þingmenn og – konur þvert á flokka, ræddu um kynferðisofbeldi og -áreitni, kynjamisrétti og hvaða leiðir megi fara til uppræta þá rótgrónu kynjamismunun undir stjórn átta umræðustjóra. Að lokum fóru fram umræður um meginniðurstöður sem komu upp í vinnustofum í þingsal Alþingis. Samantekt og umræðum í lokin stýrði Ásdís Ólafsdóttir sem skrifaði „HeForShe verkfærakistuna“ (e. Tool Box) fyrir rakarastofuráðstefnuna sem afhent var höfuðstöðvum UN Women 2017.

Þá fluttu þingflokksformenn allra flokkanna yfirlýsingu og Steingrímur J. Sigfússon, Forseti Alþingis flutti lokaorð þar sem fram kom að dagurinn væri einn eftirminnilegasti dagur hans á Alþingi og hann vonaðist til að það verði grundvallarviðhorfsbreyting og menningarbreyting á því hvernig kynin eiga samskipti.

Related Posts