Framfarir í jafnréttismálum of hægar

Home / Fréttir / Framfarir í jafnréttismálum of hægar

Samkvæmt nýútgefinni skýrslu UN Women eru framfarir í jafnréttismálum á heimsvísu alltof hægar með tilliti til Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna með sérstakri áherslu á hið fimmta sem snýr að jafnrétti kynjanna.

„Ef jafnrétti kynjanna eykst ekki og staða kvenna og stúlkna muni ekki bætast í nánustu framtíð, blasir við að alþjóðasamfélagið muni ekki ná sínum markmiðum fyrir 2030,“ sagði Phumzile Mlambo NgCuka, framkvæmdastýra UN Women þegar niðurstöður skýrslunnar voru kynntar í New York í liðinni viku. Hún kallaði jafnframt eftir brýnum aðgerðum með sérstaka áherslu á annars vegar ólaunuð umönnunarstörf sem langoftast eru innt af hendi kvenna og hins vegar afnám ofbeldis gegn konum og stúlkum, með áherslu þetta tvennt náist mestur og hraðastur árangur.

UN Women – stofnun SÞ um kynjajafnrétti og valdeflingu kvenna gaf út skýrsluna Turning promises into action: Gender equality in the 2030 Agenda for Sustainable Development í liðinni viku um væntingar og efndir á 5. Heimsmarkmiðinu sem snýr að því að tryggja jafnrétti kynjanna og valdefla konur og stúlkur. Niðurstöður skýrslunnar eru sláandi og sýna að spýta þurfi verulega í lófana ef Heimsmarkmiðum eigi að nást fyrir árið 2030. Ómögulegt er að ná hinum 16 heimsmarkmiðunum án þess fimmta – Jafnrétti kynjanna sem talið hefur verið hið brýnasta þar sem það helst í hendur við öll hin markmiðin. Eins og gefur að skilja er ekki hægt að sigra með aðeins helming liðsins.

Heimsmarkmið SÞ um sjálfbæra þróun tóku gildi í byrjun árs 2016. Eru þetta víðtækustu markmið sem ríki heims hafa komið sér saman um og stefnt er að því að tryggja velmegun og mannréttindi um allan heim fyrir árið 2030. Markmiðin eru 17 talsins og hafa alls 169 undirmarkmið.

Related Posts