Ræða Sólborgar á Milljarður Rís 2020

Home / Fréttir / Ræða Sólborgar á Milljarður Rís 2020

Ég heiti Sólborg Guðbrandsdóttir og held úti Instagram-síðunni Fávitar.

Mig langar að þakka UN Women á Íslandi sem stendur fyrir Milljarði Rís fyrir að bjóða mér að fá sviðið hér í dag. UN Women á Íslandi heldur þennan viðburð nú 8. árið í röð. Fyrir hönd þeirra vil ég þakka Hörpu kærlega fyrir að gera okkur kleift að dansa hér saman í dag. Og TAKK DJ Margeir fyrir að tónlistarstýra Milljarði rís núna áttunda árið í röð.

Í ár beinum við sjónum að stafrænu ofbeldi en það hefur því miður færst í aukana á síðustu árum og því mikilvægt að við reynum að sporna við því og áttum okkur á því hver staðan raunverulega er.

mynd/Birta Rán

„Á bakvið hvern einasta skjá er manneskja sem upplifir að brotið hafi verið á sér“

„Þarf Sólborg ekki að fá sér aðeins stærri eyrnalokka svo fólk sjái enn betur að hún sé hóra.”

„Veit við erum ekki sokkar en við værum drullu gott par. Geturðu deepthroatad?“

„Er með huge boner að leika mér, viltu hlusta á mig fá það?”

„Væri alveg til í að stinga typpinu mínu inni þig”

„Ætla að komast í nærurnar á þér sem allra fyrst og þú átt að hlýða.”

„Sæl hóra ég var að pæla ef þú myndir kannski kíkja í herbergið mitt og kannski kíkja á neðri hlutann á mér. Komdu á Hvolsvöll lets fuck you hoe!!!!”

„Hvað segiru litla drusla?”

„Mer finnst virkilega hot að hugsa um þig með delann a mer i kjaftinum þinum a meðan eg putta a þer rassgatið.. just sayin“

„Þú hefur einn séns koddu til mín eða ég kem og nauðga þér!”

mynd/Birta Rán

Þetta eru skilaboð sem íslenskar stelpur og konur hafa fengið send til sín á samfélagsmiðlum. Yngstar þeirra eru 11 ára gamlar. Við sem samfélag lokum augunum fyrir því og tölum um þessi brot sem smávægileg því þau gerast jú bara á bakvið skjáinn. En á bakvið hvern einasta skjá er manneskja sem upplifir að brotið hafi verið á sér. Hún á ekki að þurfa að velta því fyrir sér hvort henni megi líða illa yfir því vegna þess að önnur kona úti í heimi hafi það ef til vill verra en hún eða hafi verið beitt grófara ofbeldi. Hún á ekki að þurfa að velta því fyrir sér hvort dómskerfið á Íslandi sé fjársvelt eða hvort lögreglunni vanti bara mannskap til að díla við þetta. Hún vill bara fá að upplifa öryggi. Er það ósanngjörn krafa?

„Blokkaðu bara, hættu þessu væli, svona er þetta bara, ekki vera að gefa þessu liði athygli. Halt þú bara áfram með daginn þinn“ eru skilaboð sem brotaþolar stafræns kynferðisofbeldis hafa þurft að heyra síðastliðin ár. En hvenær ætlum við að fara að skila ábyrgðinni þangað sem hún á raunverulega heima? Ég á ekki að þurfa að vera með lokaða samfélagsmiðla svo ég sé ekki beitt kynferðisofbeldi.

Ég á ekki að þurfa að blokka.
Ég á ekki að þurfa að spá í þessu.
Ég á ekki að þurfa að vera hrædd.
Ég á ekki að þurfa að vera beitt kynferðisofbeldi og sætta mig bara við það.
Ég á ekki að þurfa að halda úti þessari síðu.

mynd/Birta Rán

„Birtingarmyndir kynbundins ofbeldis eru margar og þær eru allar alvarlegar“

Þriðja hver kona í heiminum í dag er beitt kynbundnu ofbeldi – þar er Ísland engin undantekning ogv það er óásættanleg staða.
Annan hvern dag leitar kona á Landsspítalann vegna heimilisofbeldis samkvæmt rannsókn sem gerð var í fyrra. Annan hvern dag. Yfir 200 milljónir núlifandi kvenna og stúlkna hafa verið limlestar á kynfærum sínum. Yfir 12 milljónir barnungra stúlkna eru þvingaðar í hjónaband á hverju ári, sem þýðir að 23 barnungar stúlkur eru þvingaðar í hjónaband á hverri mínútu. Birtingarmyndir kynbundins ofbeldis eru margar og þær eru allar alvarlegar.

Ég átta samt mig á því að það eru algjör forréttindi að ég standi upp á þessu sviði og að við fáum að hittast hérna öruggar að dansa saman. En þetta eiga ekki að vera forréttindi, við ættum í sanngjörnum heimi að geta gert þetta hvar sem er. Haft gaman, notið þess að vera til, lausar við áhyggjur um það að verða mögulega beittar hvers kyns ofbeldi. En ég held það sé einmitt mikilvægt að ég, sem forréttindapjakkur frá Íslandi, sískynja, ófötluð, hvít kona, reyni að nýta forréttindi mín í að reyna að gera heiminn að örlítið betri stað.

Ég væri ekki hér í dag, ef konur á undan mér, sem bjuggu ekki við sömu forréttindi og ég bý við í dag, hefðu ekki barist fyrir því, með blóði, svita og tárum að tryggja mín réttindi. Fyrir það er ég og verð alltaf virkilega þakklát. En þá er það einnig í mínum verkahring að tryggja réttindi kvennana sem munu koma á eftir mér.

„Stafrænt kynbundið ofbeldi er faraldur sem núverandi löggjöf nær ekki utan um“

mynd/Birta Rán

Við þurfum aukna fræðslu í alla grunn- og framhaldsskóla landsins, sem miðar að því að fræða börn og ungmenni um muninn á heilbrigðum og óheilbrigðum samskiptum, fræðslu sem kennir samþykki, muninn á kynlífi og ofbeldi, fjölbreytileika og mörk. Ég vil fræðslu sem kennir stelpum að kynlíf sé fyrir þær til að njóta, ekki eitthvað sem er gert við þær. Fræðsla getur komið í veg fyrir ofbeldi og við þurfum að byrja í dag. Stafrænt kynbundið ofbeldi er faraldur sem núverandi löggjöf nær ekki utan um og það þarf að breytast. Réttarvörslukerfið okkar þarf að virka þannig að brotaþolar treysti því.

Þegar sterkar konur með markmið koma saman geta magnaðir hlutir gerst. Ef við höldum áfram að þrýsta á stjórnvöld, gerum það sem við getum í okkar nærumhverfi til að tryggja jafnrétti þá munum við ná árangri.

Jafnrétti kynjanna er ekki bara hagsmunamál kvenna, það er hagsmunamál allra.

Related Posts